Baráttan um Bernhöftstorfuna fékk farsælan endi
Bernhöftstorfan dregur nafn sitt af Bernhöftsbakaríi sem hóf starfsemi 25. september 1835. Tildrög þess voru þau að maður að nafni Knutson sem var kaupmaður í Reykjavík hafði fengið þýskan bakarameistara Daniel Bernhöft að nafni frá Nuestat í Þýskalandi til að koma hingað til lands og standa að rekstri bakarís. Daníel Bernhöft kom hingað ásamt danskri eiginkonu sinni og syni í september 1834 og hóf rekstur bakarísins 25. september sama ár. Þá var ekkert bakarí í landinu og enga bakarakunnáttu að finna hér á landi. Rekstur Bernhöftsbakarís hefur staðið óslitið síðan. Bernhöftsbakarí var í Bankastræti 2 frá 1834 til 1931. Þá flutti bakaríið í kjallarann við Bergstaðastræti 14 og var þar til sumarið 1996 að það var flutt yfir götuna að Bergstaðastræti 13. Haustið 2016 flutti Bernhöftsbakarí á Skúlagötu 3 og sameinaðist þar hinu upphaflega Björnsbakaríi.
Torfan sem kennd er við þetta fyrsta bakarí á Íslandi er húsaröð austan Lækjargötu með bakhlið að Skólastræti. Nyrsta húsið á torfunni er frá 1834 og stendur með gaflinn að Bankastræti og telst samliggjandi húsum númer 2 við þá götu. Húsum þar sem bakaríið var í næst um heila öld. Annað götuheiti Bakarabrekka sem síðar varð Bankastræti dróg einnig nafn sitt af þessari starfsemi. Syðsta húsið og torfunni sem oft var kallað Læknahúsið er byggt tveimur árum eftir að bakaríið hóf starfsemi eða 1836 og telst í dag Amtmannsstígur 1. Á milli þeirra stendur húsið Gimli sem er við Lækjargötu 3 og var reist árið 1905. Bernhöftstorfan er samstæðasta húsalengja í Reykjavík frá þessum tíma. Menntaskólinn Reykjavík stendur nokkru sunnar eða við Lækjargötu 7. Skólinn var reistur árið 1846 þegar Bessastaðaskóli sem var arftaki Hólavallaskóla var fluttur til Reykjavíkur.
Danskar fúaspýtur og hrútakofar
Bernhöftstoran er í dag talin til menningarverðmæta bæði er varðar húsagerðarlist og bygginga- og skipulag þess tíma sem hún er reist auk þess að vera minnisvarði um Reykjavík eins og bærinn var á fyrstu árum raunverulegrar kaupstaðarmenningar. Bernhöftstorfan hefur þó ekki alltaf verið talin til sögulegra og menningarlegra kosta. Í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar urðu miklar deilur um Bernhöftstorfuna. Árið 1970 tóku stjórnvöld – síðasta viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks ákvörðun um að rífa Bernhöftstorfuna, húsaröðina ofan Lækjargötu á milli Bankastrætis og Amtmannsstíg og byggja þar Stjórnarráðshús. Þá þegar urðu skiptar skoðanir um málið og snörp orðaskipti áttu sér stað. Húsunum á Torfunni var meðan annars lýst sem „dönskum fúaspýtum” og „hrútakofum” og hrópuð voru slagorð eins og „rífið kofana”.
Torfusamtökin stofnuð
Þegar hér var komið sögu hófst baráttan fyrir verndun Torfunnar. Guðrúnu Jónsdóttur arkitekt, þáverandi formaður Arkitektafélag Íslands beitti sér fyrir því að stofnuð voru samtök um varðveislu húsanna – Torfusamtökin sem voru stofnuð 1972. Árið áður 1971 hafði stjórn Arkitektafélags íslands ákveðið að efna til samkeppni um hvernig glæða mætti þessi umdeildu hús nýju lífi og tengja þau umhverfi sínu í gamla miðbænum. Fyrstu verðlaun í samkeppninni hlutu arkitektarnir Úlrik Stahr og Haukur Viktorsson.
Hluti af Reykjavík Jóns Sigurðssonar
Hinn fyrsta desember 1972 var haldinn fjölmennur útifundur framan við Bernhöftstorfuna. Að þeim fundi stóðu öll félög innan Bandalags íslenskra listamanna og öll félög ungra stjórnmálamanna auk einstaklinga. Þar fluttu ávörp Jónatan Þórmundsson lögfræðingur, Páll Líndal þáverandi borgarlögmaður og eiginmaður Guðrúnar Jónsdóttur arkitekts og Þór Magnússon þjóðminjavörður. Í ávarpi Þórs kom fram að hvarvetna í heiminum hafi menningarverðmætum verið eytt umhugsunarlaust og víða um lönd hafi nú risið upp kröftug andmæli gegn þessari gereyðingarstefnu. Hann sagði Íslendinga hafa horft sljóum augum á hvernig menningarverðmæti þjóðarinnar hafi verið tætt í sundur og þeim eytt, oft af lítilli ástæðu. Hann benti á að hér hefðum við dálítinn part af Reykjavík 19. aldar sem væri enn ósnortinn að mestu. „Þetta er hluti af Reykjavík Jóns Sigurðssonar og samtímamanna hans, sem við nefnum oft á degi sem þessum og þökkum baráttuna fyrir sjálfstæði landsins. Þessi húsaröð frá stjórnarráðinu til Bókhlöðu Menntaskólans er hið eina samfellda sem nú er eftir af byggðinni í Reykjavík frá því um miðja 19. öld,“ sagði Þór.
Fögur stjórnarráðsbygging
Hálfum mánuði áður en útifundurinn var haldinn hafði Ellert B. Schram sent fyrirspurn til menntamálaráðherra á Alþingi um afstöðu hans til friðunar Bernhöftstorfunnar. Magnús Torfi Ólafsson sem þá var menntamálaráðherra lýsti ekki afstöðu sinni en sagði að ekki hefði verið tekin afstaða til málsins enn. Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra svaraði fyrirspurn Ellerts og lýsti sig andvígan friðun húsanna, engin eftirsjá væri að þeim og þau væru engin borgarprýði. Ólíkt myndarlegra væri ef þarna risi fögur stjórnarráðsbygging.
Hörður og þorsteinn
Um þetta leyti var mikil umræða að hefjast um verndum húsa. Upphafsmenn þeirrar umræðu voru Hörður Ágústsson listmálari og Þorsteinn Gunnarsson arkitekt og leikari. Þeir voru frumkvöðlar á þessu sviði hér á landi. Hörður hóf snemma að fjalla um byggingarlist í ræðu og riti. Hann stundaði rannsóknir á sögu íslenskrar húsagerðar frá því snemma á sjöunda áratugnum og ritaði fjölda greina og bóka um ýmsa þætti íslensks byggingar- og myndlistararfs á innlendum og erlendum vettvangi. Hann átti þátt í stofnun Húsafriðunarnefndar og sat í henni 1970 til 1995. Hann sérhæfði sig í endurbyggingum og stóð að endurgerð margra merkra bygginga á sínum ferli. Að öllum öðrum ólöstuðum má segja að Hörður hafi verið sá frumkvöðull sem var ötulastur allra við verndun og endurbyggingu gamalla húsa hér á landi og ekki síður við að fjalla um málefnið.
Nýr hugsunarháttur
Með 68 kynslóðinni svonefndu tókst nýr hugsunarháttur á loft. Ungt fólk fór að endurskoða gildi mannlífsins og þar á meðal hús og varðveislu þeirra. Á þessum árum varð til jarðvegur þar sem nýjar áherslur og lífsgildi uxu úr. Þar á meðal að varðveita gildi gamalla húsa. Ýmsar raddir höfðu talað fyrir húsfriðun áður en flestar fyrir daufum eyrum þar til að unga fólkið tók undir þær. Margir húsverndunarsinnar voru menntaðir í arkitektúr og lögðu til þekkinguna og skipulagninguna og unga kynslóðin myndaði í fyrsta skipti fjöldahreyfingu að baki vernarhugmyndum.
Torfan máluð um nótt
Mikla athygli vakti þegar hópur áhugamanna, með Guðrúnu Jónsdóttur og Torfusamtökin í broddi fylkingar málaði húsin á Bernhöftstorfu laugardaginn 19. maí 1973. Þar voru margir sjálfboðaliðar að verki. Margir sem oftar klæddust jakkafötum en málningargöllum. Málningarverksmiðja og fleiri gáfu málninguna. Hið fegursta veður og var þessa maínótt þegar glaðvær hópur framkvæmdi þessa andlitslyftingu. Framtak hópsins mæltist vel fyrir hjá almenningi og jók enn fylgi fólks við varðveislu húsanna. Engu að síður var nokkuð í land með að friður fengist og endurbygging gæti átt sér stað. Árið 1976 veittu stjórnvöld leyfi til að hreinsa húsin og létu hita þau upp.
Móhúsabruninn og friðun Torfunnar
Í mars 1977 var kveikt í Móhúsunum og Mjölskemmunni og brunnu þau til grunna en naumlega tókst að bjarga hinum húsunum. Hús þau sem brunni töldust til Bankastrætis 1, voru upphaflega reist árið 1834 og öll úr timbri. Slökkvistarf var því mjög erfitt. Eldurinn breiddist út með örskotshraða og slökkviliðið fékk ekki ráðið við útbreiðslu hans í gömlu húsunum. Þessi verknaður vakti enn háværari raddir um friðun húsanna. Árið 1979 var þrýstingur innan og utan stjórnkerfisins var orðinn það mikill að þáverandi menntamálaráðherra, Ragnar Arnalds, friðaði húsin 7. ágúst 1979.
Leigusamningur um Torfuna
Rúmum fimm árum síðar var komið á fót sjálfseignarstofnun um Bernhöftstorfuna er hlaut nafnið Minjavernd. Aðild að Minjavernd fengu þeir aðilar sem næst verkefninu stóðu, Torfusamtökin, Þjóðminjasafnið og fjármálaráðuneytið, sem í raun fór með eignarhald lóða og húsa á Torfunni. Þegar Vilmundur Gylfason var tekinn við stöðu menntamálaráðherra á haustnóttum 1979 óskaði stjórn Torfusamtakanna eftir því við ráðherra að þau fengju Torfuna á leigu gegn því að endurbyggja hana. Hinn 20. nóvember 1979 var undirritaður leigusamningur til tólf ára milli ríkisstjórnarinnar og Torfusamtakanna.
Endurbygging hafin
Minjavernd tók þá við öllum skuldbindingum og réttindum Torfusamtakanna um endurbyggingu og viðhald húsa og lóða á torfunni. Þorsteinn Bergsson var ráðinn framkvæmdastjóri Minjaverndar. Endurbyggingin var hafin.
Fyrst var ráðist í viðgerðir á Landlæknishúsinu við Amtmannsstíg 1. Það verk hófst þegar 1979 og var starfsemi komin í húsið í júní næsta ár. Síðan var hafist handa við Bernhöftshús að Bankastræti 2 sem nú er þekkt sem Lækjarbrekka. Það verk hófst haustið 1980 og var lokið síðla árs 1981. Árið 1983 hófst smíði við nýbyggingar í stað þeirra húsa sem brunnu 1977 og var hluti þeirra tekin í notkun árið 1984. Síðan varð nokkurt hlé á framkvæmdum en árið 1989 var lokið við framkvæmdir með viðgerð á Gamla bakaríinu, nýbyggingu Kornhlöðunnar og lokaáfanga Móhúsa meðfram Skólastræti. Þá var jafnframt reist nýbygging fyrir aftan Gimli sem nefnd hefur verið Suðurálma.
FÍ fasteignafélag kaupir Torfuna
Í nóvember 2013 samþykkti Minjavernd tilboð FÍ fasteignafélags í byggingarnar á Torfunni en félagið er að miklu leyti í eigu lífeyrissjóða. Alls bárust sex tilboð en um er að ræða húseignirnar Amtmannsstíg 1, Bankastræði 2 og Lækjargötu 3. Sala eignanna tók skamman tíma. Þær voru fyrst auglýstar til sölu 25. október og þann 11. nóvember var tilkynnt að tilboð FÍ fasteignafélags hefði verið samþykkt. Fasteignamat eignanna, sem eru samtals ríflega 1.800 fermetrar var á þeim tíma 300 milljónir króna en brunabótamatið ríflega 600 milljónir. Í húsunum hefur verið starfrækt fjölbreytt starfsemi eftir endurreisn. Sem dæmi má nefna að Sinfóníuhljómsveit Íslands hafði þar skrifstofur auk Listahátíðar Reykjavíkur sem í dag hefur aðsetur í Gimli. Fyrirtæki er starfa að ferðaþjónustu hafa verið þar og upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn verið í nýbyggingum frá 1979. Jafnframt hafa verið þar vinsælir veitingastaðir. Þar á meðal Lækjarbrekka og Torfan og ýmis önnur starfsemi. Barátta fyrir vendum og uppbyggingu Bernhöftstorfunnar fékk að lokum farsælan endi.