Nýstárlegur miðbær í niðurníðslu
Þegar bæjarstjórn Seltjarnarness kynnti nýjan „nýstárlegan miðbæ á Seltjarnarnesi“ fyrir um 40 árum síðan byggðu hugmyndirnar á háleitum markmiðum um hverfiskjarna sem átti að vera aðlagandi fyrir fólk og fyrirtæki. Ég er einn af þeim sem er alltof skotinn í Eiðistorgi og held því reglulega fram að bæjarstjórn Seltjarnarness hafi byggt fyrstu metro stöð landsins árið 1983. Til þess að skilja Eiðistorg þá finnst mér best að sjá fyrir mér að neðanjarðarlest stoppi í dansskólanum sem staðsettur er á sömu hæð og Rauða ljónið og að þaðan streymi Seltirningar upp stiga torgsins að loknum vinnudegi. Sumir tylla sér á Ljónið á meðan aðrir grípa sér mat og blóm í Hagkaup, eina rauða í ríkinu og kaffibolla á Örnu til að taka með sér áður en gengið er heim leið eða hoppað upp í leið 11 sem að keyrir Neshringinn.
Þessi draumsýn um Eiðistorg mun þó eflaust ekki rætast á næstu 40 árum og virðumst við frekar vera föst í einhvers konar stöðnun þar sem að þjónustufyrirtækin hverfa eitt af öðru og núverandi meirihluti hefur hvorki áhuga né metnað til þess að þróa miðbæinn áfram eða að sinna lágmarks viðhaldi.
Munum fylgja eftir fullnægjandi brunavörnum
Í byrjun mars rötuðu málefni Eiðistorgs í fréttirnar þegar upp komst að slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hafi gert margvíslegar athugasemdir við brunavarnir á Eiðistorgi allt frá árinu 2016. Sveitarfélagið brást ekki við athugasemdunum sem snéru m.a. að flóttaleiðum, brunavarnarkerfi og reykræstingu sem skapað hefur talsverða hættu fyrir starfsfólk, íbúa og gesti Eiðistorgs. Við í minnihlutanum óskuðum strax eftir að málið yrði tekið upp í bæjarráði þar sem við vorum upplýst um að búið væri að panta nýjar hurðar og unnið væri að því að bregðast við athugasemdunum, fimm árum eftir að þær bárust. Við munum fylgja því eftir að brunavarnir verði gerðar fullnægjandi en eftir stendur áfram miðbær í niðurníðslu með þaki sem liggur undir skemmdum.
Meirihluti sem hefur áhuga
Það þarf ekki neðanjarðarlest til þess að bjarga Eiðistorgi en það þarf að sýna torginu smá ást og hefja samráð við bæjarbúa, rekstraraðila og fagfólk um hvernig megi efla torgið og umhverfið í kring svo það nái að sinna hlutverki sínu sem eftirsóknarverður staður fyrir fólk og fyrirtæki. Ef við lítum til sveitarfélaganna í kringum okkur þá hafa þau unnið markvisst að því að styðja við hverfiskjarna sína með þéttingu byggðar, bættum samgöngum og fallegra umhverfi. Sem dæmi má nefna svæðið í kringum Melabúðina og Kaffi Vest og þegar Garðabær byggði við Garðatorg á bílastæði torgsins og fékk með því nýja íbúa, veitingastaði og verslanir sem opnast beint út á götu. Þetta er því ekki spurning um hvort það sé hægt efla torgið og gera það meira aðlagandi heldur spurning um hvenær við fáum meirihluta sem hefur einhvern raunverulegan áhuga á því að leita lausna og bæta umhverfið og þjónustu á Nesinu.
Guðmundur Ari Sigurjónsson.
Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga.