Ekki lengur kennt í húsi guðs

– gert ráð fyrir að ráðist verði í nýbyggingu MR innan tíðar –

Casa Christi eða hús guðs við Amtmannsstíg var byggt 1907 og er talið ónýtt.

Líkur eru á ekki verði kennt framar í Casa Christi eða húsi guðs við Amtmannsstíg þar sem séra Friðrik Friðriksson réð ríkum á liðinni öld. Casa Christi var reist árið 1907 eftir uppdrætti Einars Einarssonar húsameistara. Félagsheimili KFUM og KFUK var þar til að starfsemi þeirra var flutt á Holtaveg. Þá eignaðist Menntaskólinn í Reykjavík húsið og lagt var í lágmarksviðhald. Rætt var um það að þetta yrði bráðabirgðahúsnæði sem kennt yrði í fimm til sjö ár. Síðan eru liðnir áratugir.

Úttekt var gerð á húsinu og skýrslu um ástand þess skilað fyrir skólabyrjun í haust. Þá varð ljóst að ekki sé boðlegt að kenna í húsinu. Reykjavíkurborg hefur samþykkti að láta rífa bygginguna sem er á þeim hluta lóðarinnar þar sem nýtt húsnæði skólans á að rísa. Minjastofnun hefur lagt til að húsið verði reist í upprunalegri mynd á nýjum stað enda er húsið friðað. Endurbygging Casa Christi er þó ekki á dagskrá hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Aðrir aðilar verða að koma að því að endurreisa húsið ef af því á að verða. 

Lengi hefur staðið til að byggja við skólann. Meðal annars var haldin samkeppni um nýja byggingu fyrir aldarfjórðungi en það hús var aldrei byggt. Skólinn er nú með starfsemi sína í tíu húsum á svokölluðum Menntaskólareit sem afmarkast af Þingholtsstræti að Lækjargötu og Amtmannsstíg að Bókhlöðustíg.

Borgarráð Reykjavíkur hefur nú fallist á að ganga til viðræðna um sameiginlega framkvæmd með ríkinu að nýju húsnæði. Áætlað er að það muni kosta um 2.6 milljarða króna. Gert er ráð fyrir ríkið taki á sig 60% kostnaðarins og Reykjavíkurborg 40%. Ljóst er að stór hluti húsnæðisins og lóðarinnar verður undirlagður framkvæmdum því er gert ráð fyrir að ríkissjóðir greiði 750 til 900 milljónir króna í leigu á bráðabirgðahúsnæði fyrir skólahaldið á meðan, eða í um fjögur til fimm ár. Í nýja húsnæðinu verður bæði aðstaða fyrir mötuneyti sem og skrifstofurnar en þær síðarnefndu taka nú stóran hluta af Gamla skóla.

You may also like...