Björg gaf hátalara og heyrnartól
Björg Ólafsdóttir íbúi á hjúkrunarheimilinu Seltjörn varð 100 ára þann 19. mars sl. Í tilefni af því vildi hún færa heimilinu gjöf sem glatt gæti alla heimilismenn. Fyrir valinu varð þráðlaus hátalari, tegund Bose ásamt þráðlausu heyrnartóli og hljóðnema.
Tækin munu koma að góðum notum við t.d. upplestur, tónleika, messur og aðra viðburði. Hljómgæði hátalarans eru afar góð og tækin þægileg í notkun og auðvelt er að taka þau með um húsið. Þess má geta að Björg er talin vera fyrsti plötusnúður á Íslandi, en hún þeytti skífum á Hótel Borg fyrir yfirmenn í bandaríska setuliðinu á stríðsárunum. Bæði íbúar og starfsfólk Seltjarnar eru afar þakklát fyrir þessa rausnarlegu gjöf og færa Björgu og fjölskyldu hennar bestu þakkir.