146 útskrifuðust frá FB
Alls útskrifuðust 146 nemendur frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti við tvær hátíðlegar athafnir í Hörpu 29. maí. Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir flutti ávarp og kvaddi 15 starfsmenn sem létu af störfum undan farnar annir sökum aldurs. Elvar Jónsson aðstoðarskólameistari flutti yfirlitsræðu. Pálmi Sigurhjartarson lék á flygil og Rósborg Halldórsdóttir á trompet. Nýútskrifaðir nemendur skólans fluttu ávörp, Kjartan Óli Ágústsson, tölvubraut, Þóra Rannveig Emmudóttir, myndlistarbraut, Thelma Þorsteinsdóttir, sjúkraliðabraut og Cecilía Magnúsdóttir snyrtibraut.
Hljómsveit skipuð nemendum skólans þeim Arnari Geir Sigurðssyni og Irene Önnu Matchett ásamt félögum þeirra þeim Arnari Má Víðissyni og Jóni G. Breiðfjörð Álfgeirssyni lék þrjú lög. Fjölmörg verðlaun voru veitt og hlaut flest þeirra Kjartan Óli Ágústsson sem var hæstur á stúdentsprófi með 9.51 í einkunn. Þá hlaut Nína Margrét Ingimarsdóttir, starfsbraut viðurkenningu fyrir mestu framfarir á námstímanum. Þóra Rannveig Emmudóttir, myndlistarbraut fékk viðurkenningu frá Soroptimistaklúbbi Hóla og Fella fyrir hæstu einkunn stúlkna á stúdentsprófi. Tanja Sigmundsdóttir, félagsvísindabraut fékk viðurkenningu frá Rótarýklúbbi Breiðholts fyrir félagsstörf.