Opinn leikskóli Memmm Play er nýtt á Íslandi

— Samver, leikur, söngur og fræðsla —

Foreldrar og börn saman í opna leikskólanum.

Okkur var lengi búið að langa að starta einhverri starfsemi líkt og Öppen förskola í Svíþjóð en þar í landi er fjölskyldu- og barnamenningu gert hátt undir höfði. Hugmyndafræðin er að bjóða foreldrum og forráðamönnum með börn að koma og eiga notalega stund í leik á fjölskylduvænum stað, hitta aðra foreldra og fá fræðslu frá fagaðilum, t.d. málörvun og skyndihjálp ungra barna. Markhópurinn eru börn núll til þriggha ára ásamt foreldrum en eldri börn eru að sjálfsögðu velkomin.

Við sem störfum í Opna leikskólanum Memmm Play erum Helga Hreiðarsdóttir leikskólakennari, Kristín Stefánsdóttir iðjuþjálfi og María Ösp Ómarsdóttir kennari. Við höfum allar brennandi áhuga á fjölskyldu-og barnamenningu og nýttum okkur þann glugga sem opnaðist fyrir tveimur árum á tímum Covid þegar  Dalur farfuglaheimili og fjölskyldukaffihús í Laugardal opnaði dyr sínar fyrir okkur og leyfði okkur að prófa okkur áfram og þróa starfsemi Memmm Play. 

Þegar landið opnaðist aftur eftir covid fylltist Dalur af ferðamönnum og vorum við svo heppin að Fjölskyldumiðstöðin í Gerðubergi bauð okkur að koma og vera með starfsemi okkar þar. Covid var ekki alveg lokið en við héldum ótrauð áfram og ef smittölur urðu ískyggilega háar tókum við hlé þar til smittölur lækkuðu. Við fórum varlega í sakirnar. Oft var talað um covidbörnin sem höfðu varla hitt annað fólk en sitt nánasta.  Þannig að þarna var tækifæri fyrir þau og forráðamenn til þess að byrja í rólegheitum að kíkja út fyrir heimilið og kanna umheiminn í vernduðu umhverfi.  

Þroskandi leikföng og bækur

Okkur sem störfum í Opna leikskóla Memmm Play er umhugað að umhverfið sé bjóðandi, ýti undir þroska og sé í leiðinni fallegt. Við bjóðum upp á þroskandi leikföng, bækur og hvetjum þannig til lesturs einnig er mikilvægt að rými og leikföng sé hvetjandi  og ýti undir hreyfiþroska og forvitni. 

Eftir að við byrjuðum í Gerðubergi ákváðum við að byrja með söngstundir líkt og eru í Öppen förskola í Svíþjóð. Söngstundirnar gera mikla lukku og reynum við að sameina sönginn og hreyfingu, með því að syngja lög með þekktum hreyfingum, líkt og höfuð herðar hné og tær, Kalli litli könguló og fleiri góð lög. Það er sérstaklega gaman að fylgjast með krökkunum eflast í söngnum og læra hreyfingarnar sem eiga við hvert lag. Svo er líka bara gaman að dilla sér í takt við lagið.

Bækur og sögustundir eru hluti af opna leikskólanum.

Alltaf heitt á könunni

Það má ekki gleyma því að það er alltaf heitt á könnunni í boði Fjölskyldumiðstöðvarinnar og Hagabakarí hefur stutt okkur dyggilega og býður okkur upp á meðlæti. Við erum þeim mjög þakklát fyrir þeirra framlag. 

Opni leikskólinn stækkar jafnt og þétt og þeim fjölgar sem heimsækja okkur í viku hverri. Okkur var boðið að færa okkur í stærra rými innan Gerðubergs þar sem að pláss væri fyrir enn fleiri en það er rými á vegum Borgarbókasafnsins. 

Þess má geta að Opni leikskóli Memmm Play fékk styrk frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar til þriggja ára og er verið að ganga frá samstarfssamningi. Óhætt er að segja að það séu spennandi tímar framundan.

Opni leikskólinn er nú starfræktur á tveimur stöðum, í Gerðubergi á miðvikudögum og í Samfélagshúsinu í Bólstaðarhlíð 43 á fimmtudögum.  Á báðum stöðum er opið frá 10 til 12 en stefnt er að því að lengja í opnunartímanum fljótlega í Gerðubergi.

Opinn leikskóli í öllum hverfum

Framtíðarsýn okkar sem störfum í Opna leikskóla Memmm Play er að Opinn leikskóli sé starfræktur í öllum hverfum á höfuðborgarsvæðinu sem og í öðrum bæjarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins. Það er mikilvægt að vera í samstarfi við nærsamfélagið og erum við þakklát fyrir allan stuðning sem okkur er veittur. 

Til þess að Opni leikskólinn hafi tækifæri til að vaxa og dafna þarf hann dygga bakhjarla sem styðja starfsemina hvort heldur sem í formi fjármagns, samstarfs, aðstöðu, vöruúttekta, þjónustu eða velvildar. Þeir sem  vilja leggja Opna leikskóla Memmm Play lið mega gjarnan senda línu á memmmplay@gmail.com og finna flöt á samstarfi. Finna má Memmm Play á facebook og instagram til að sjá dagskrána hverju sinni.

Kristín Stefánsdóttir

You may also like...