Borhola fjögur endurboruð
Hitaveita Seltjarnarness þarf að fara í endurborun á einni af holum veitunnar vegna dælubilunar í holu fjögur við Bygggarða í mars. Við að hífa dæluna úr holunni brotnaði dælurörið þannig að dælubúnaðurinn féll niður á 1024 metra dýpi, en hann vegur um sjö tonn að þyngd. Því hefur verið ákveðið að endurbora nýja holu við hlið holunnar. Þetta kom fram á fundi Veitustofnun Seltjarnarness 23. júní sl.
Hola fjögur var upphaflega boruð árið 1972 í 2.025 metra dýpi. Hún hefur í seinni tíð fyrst og fremst verið nýtt sem varahola fyrir veituna. Byrjað verður á borverkinu eftir verslunarmannahelgi. Við verkið verður jarðbor notaður og er áætlaður verktími u.þ.b. tveir mánuðir. Þessi aðgerð mun hafa rask í för með sér fyrir þau fyrirtæki sem starfa við Bygggarða og er nú verið að upplýsa þau um það.
Veitustjórn telur skynsamlegt að fara í framkvæmdir núna í sumar meðal annars vegna þess að framkvæmdin raski sem minnst fyrirhuguðum byggingaframkvæmdum á svæðinu. Veitustjórn leggur til að Hitaveitan taki 350 milljón króna lán til 20 ára til að fjármagna þær framkvæmdir sem fara þarf í næstu tvö ár. Samhliða því verði gjaldskrá veitunnar hækkuð um 11% frá 1. september 2021 til að standa straum á þeim framkvæmdum sem farið verður í.