Fjölþætt heilsuefling 65+ á Seltjarnarnarnesi hefur gengið vel
Verkefnið Fjölþætt heilsuefling 65+leið að farsælum efri árum hefur staðið yfir í allt sumar hér á Seltjarnarnesi og gengið virkilega vel en um er að ræða samstarfsverkefni Seljarnarnesbæjar og Janusar heilsueflingar.
Innleiðingin sem hófst í byrjun sumars gekk mjög vel, bæði mælingar á hópnum sem framkvæmdar voru í íþróttahúsinu sem og þjálfunin. Skráðir þátttakendur í sumar voru 53 talsins, 38 konur og 15 karlar. Hver þátttakandi fékk sína niðurstöðu eftir mælingarnar og umfjöllun um hvað þær þýða auk þess sem blóðmælingar eru framkvæmdar í samvinnu við Hannes Hrafnkelsson, heimilislækni á Seltjarnarnesi. Skipulagðar æfingar með þjálfara hafa verið þrisvar sinnum í viku auk þess sem hver og einn fékk sitt æfingaplan til sex mánaða að vinna með sjálfur þess utan.
Þjálfunin sjálf hefur annars vegar verið sameiginleg utanhúss á Valhúsahæðinni á mánudögum og hins vegar styrktarþjálfunin í World Class á þriðjudögum og fimmtudögum. Á öðrum dögum hafa þátttakendur séð um að fylgja settri áætlun um sjálfstæða þjálfun, annað hvort með því að nýta sér Heilsu-App Janusar eða fylgja fyrrnefndu heimablaði.
Það er ánægjulegt hversu vel heilsueflingin hefur gengið sem án efa skilar sér í aukinni orku og bættri líðan þátttakenda.