Nýi Skerjafjörður

– nýstárleg en umdeild byggð –

Séð yfir Skerjafjörð- og Reykjavíkurflugvöll. Vestur austur flugbrautin skiptir byggðinni í litla og stóra Skerjafjörð. Nýja byggðin á að kona austan byggðarinnar í Stóra Skerjafirði í átt að norður suður flugbraut Reykjavíkurflugvallar. Á myndinni má sjá þriðju flugbraut Reykjavíkurflugvallar sem hefur verið aflögð og einnig byggingar sem deilt hefur verið um. 

Skerjafjörður hefur verið talsvert til umræðu að undanförnu. Einkum vegna þess að ákveðið hefur verið að efna til nýrrar byggðar við fjörðinn næst Reykjavíkurflugvelli. Glæsileiki og þægindi einkenna þá hönnun sem liggur fyrir og einnig má finna þar nýjungar í skipulagi borgarbyggðar. Ýmis sjónarmið hafa þó komið fram vegna þessara fyrirhuguðu framkvæmda. Einkum sjónarmið er lúta að náttúruvernd. Umferðarmál hafa einnig borið á góma auk mismunandi sjónarmiða um þéttingu byggðar.

Skerjafjörður gengur inn úr Faxaflóa sunnan við Kollafjörð og norðan við Hafnarfjörð. Skerjafjörður liggur frá norðvestri til suðausturs milli Seltjarnarness og Álftaness og heitir eftir Lönguskerjum sem eru í miðjum firðinum. Fjörðurinn er víða grunnur og mikið af skerjum standa upp úr yfirborði sjávar eins og nafn hans bendir til. Innst greinist fjörðurinn í Lambhúsatjörn á Álftanesi, Arnarnesvog, Kópavog og Fossvog. Þegar talað er um Skerjafjörð sem borgarhverfi í Reykjavík er átt við Stóra Skerjafjörð sem er þéttbýlisbyggð suðvestan Reykjavíkurflugvallar og Litla-Skerjafjörð norðvestan við hann. Austur vestur flugbraut Reykjavíkurflugvallar sker búsvæðið í sundur. Suðurgata liggur fyrir enda flugbrautarinnar og tengist Einarsnesi sem liggur með fram Reykjavíkurflugvelli og er aðal umferðargata frá íbúðahverfinu í Skerjafirði til annarra byggða.

Upphafið í aðalskipulagi

Upphaf þessa máls má rekja til þess að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 til 2030 er afmarkað þróunarsvæði sem ber heitið Nýi Skerjafjörður. Í skipulaginu er gert ráð fyrir að ný íbúðabyggð rísi með um 1.300 til 1.400 íbúðum auk smábátahafnar. Innan þessa svæðis er gert ráð fyrir landfyllingu þar sem hluti byggðarinnar muni rísa í öðrum áfanga nýs deiliskipulags sem byggt er á aðalskipulaginu. Það svæði sem skipulagið gerir ráð fyrir að fari undir landfyllingu er staðsett í vík vestan við Reykjavíkurflugvöll.

Landfylling eykur við byggingarland

Íslenska ríkið og Reykjavíkurborg sömdu þann 1. mars 2013 um kaup Reykjavíkurborgar á landi ríkisins í Skerjafirði. Árið 2017 var haldin lokuð hugmyndasamkeppni um rammaskipulag fyrir umrætt þróunarsvæði. Fimm aðilar tóku þátt í hugmyndasamkeppninni. Niðurstöður voru síðan kynntar á opnumfundi í Ráðhúsi Reykjavíkur 2. nóvember 2017. ASK arkitektar, Landslag landslagsarkitektar og verkfræðistofan EFLA, urðu hlutskörpust í hugmyndaleitinni og voru ráðin til að vinna rammaskipulag fyrir svæðið. Tillagan þótti skara fram úr vegna aðlaðandi byggðarmynsturs með fjölbreyttar húsagerðir og grænt net opinna svæða og gönguleiðir í gegnum inngarða. Í greinargerð frá Eflu kemur fram að með gerð landfyllingu í Skerjafirði aukist byggingarland á svæðinu um þrjú þúsund fermetra. Með stærra byggingarlandi megi fjölga íbúðum á svæðinu sem uppfylli markmið aðalskipulags Reykjavíkur 2010 til 2030 um þéttingu byggðar. Í greinargerðinni segir að gera megi ráð fyrir að hluti landfyllingar næst ströndinni muni í framtíðinni nýtast sem miðsvæði með verslunar- og þjónustustarfsemi og einnig til útivistar. Í seinni áfanga deiliskipulags nýrrar íbúðabyggðar er áhersla lögð á að strandlengja landfyllingarinnar og fjara verði sem náttúrulegust og að þar myndist búsvæði fyrir lífverur. Þá er einnig til skoðunar gerð sjóvarnargarðs vestan megin í víkinni sem verði til þess fallinn að auka líkur á uppsöfnun sets. Fyrirhuguð landfylling er minni en gert er ráð fyrir í gildandi aðalskipulagi.

Nýi Skerjafjörður verður framhald byggðar í Skerjafirði.

Athugasemdir frá flestum stofnunum 

Efir kynningu á skipulagi Nýs Skerjafjarðar bárust Reykjavíkurborg margar athugasemdir. Á meðal þeirra aðila sem gerðu athugasemdir við hina nýju byggð og þá einkum við landfyllingu eru Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun, Skipulagsstofnun og Hafrannsókna-stofnun. Í umsögnum þeirra kemur meðal annars fram að landfylling í tengslum við uppbyggingu íbúðahverfis í Skerjafirði myndi skerða náttúrulegar fjörur í Reykjavík, sem séu á undanhaldi. Umhverfisstofnun benti á að tillagan raski áður óröskuðu landi sem sé mikilvægt búsvæði og hafi hátt verndargildi. Umhverfisstofnun benti einnig á mikilvægi þess að fram komi hvernig tillagan sé í samræmi við megin stefnu aðalskipulagsins. Auk þess benti stofnunin á mikilvægi þess að fjallað yrði um aðra valkosti, það er staðsetningarkosti, og hvernig óraskaðar leirur, sem hafa hátt verndargildi hafa umfram aðra valkosti.

Landfylling talin neikvæð fyrir lífríki 

Í umhverfismati er tillagan um landfyllingar í alla staði talin neikvæði fyrir lífríki svæðisins og sé hún í andstöðu bæði við lög um náttúruvernd og stefnu Reykjavíkurborgar. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar kom fram að einkennilegt sé að forsendur fyrir skipulaginu séu þess eðlis að ekki sé talið hægt að leysa það með öðrum hætti en að fara í landfyllingar.

Vegagerðin með áhyggjur af umferð

Vegagerðin gerði athugasemdir um umferðarmál og benti á að samhliða auknum íbúafjölda í hverfinu þurfi að skoða nánar umferðarsköpun með tilliti til nærliggjandi stofnvega á borð við Suðurgötu og Njarðargötu. Bent hefur verið á að mikil umferð sé um Hringbraut sem muni aukast við það að umferð frá nýja hverfinu verði beint inn á hana. Núverandi umferð um Einarsnes er um 3.000 bílar á sólarhring við vegamót Suðurgötu og Einarsness. Miðað við áætlaðan fjölda einkabíla í fullbyggðu hverfi má gera ráð fyrir að umferðin nemi um 9.000 bílum á sólarhring á sama stað sem telst hæfileg umferð og innan marka. Þá sé fjarlægð við stoppistöðvar borgarlínu of mikil og tengja þurfi hverfið betur við hana. Fulltrúar úr skipulagsnefnd Mosfellsbæjar, Isavia, Samgöngustofu og Sveitarstjórn Bláskógabyggðar lýstu því yfir að uppbygging svæðisins megi ekki ógna rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar.

Minjastofnun benti á herminjar 

Minjastofnun kom einnig við sögu í þeim umræðum sem orðið hafa um nýja byggð í Skerjafirði. Stofnunin hefur bent á að á uppbyggingarsvæðinu sé að finna bæði fornleifar og herminjar sem tengjast hernámi Íslands og atvinnusögu borgarinnar. Má þar nefna stöpla bryggju við gamla olíubirgðastöð Shell. Þá er einnig minnst á byssustæði og dráttarbraut sem herminjar sem séu sýnilegar á yfirborði. Þá er einnig minnst á flugskýli Flugfélags Íslands frá árinu 1940 ásamt bogaskýli sem setuliðið reisti við það árið 1942. Stofnunin telur að þessar minjar þurfi að varðveita og fella inn í fyrirhugaða byggð í Skerjafirði.

Íbúðum fækkað um fimm 

Nokkrar breytingar voru gerðar á deiliskipulagstillögunni um nýjan Skerjafjörð eftir að athugasemdafresti lauk. Íbúðum var fækkað úr 690 í 685. Leiksvæðum var bætt við inn á uppdrætti og í skýringar. Hjólastígar voru útfærðir frekar. Sérafnotafletir eiga nú við um fleiri húsagerðir en raðhús. Skuggavörp voru uppfærð miðað við minni byggingarmassa svo auka mætti birtustig í iðngörðum. Grasþöktum í sérskilmálum var gefið meira svigrúm með vali á sjávarmöl og mýragróðri í takt við náttúrulegt umhverfi á svæðinu. Nýja hverfinu fylgja einnig kostir fyrir eldri byggð í Skerjafirði þar sem það mun bjóða upp á ýmsa þjónustu sem ekki hefur verið til staðar. Má þar nefna verslun, skóla og félagsmiðstöð. 

Forgangur gangandi og hjólandi

Ein athyglisverðasta nýjungin í skipulagi Nýja Skerjafjarðar er að öll bílastæði eiga að vera í miðlægu bílastæðahúsi þar sem matvöruverslun og þjónusta verða á jarðhæð. Engin bílastæði verða innan lóða heldur aðeins í hinu miðlæga bílastæðahúsi. Í hinu nýja skipulagi er lögð áhersla á forgang gangandi og hjólandi vegfaranda, hæga umferð og öflugar tengingar við almenningssamgöngur. Ný tenging fyrir Strætó verður lögð eftir framlengdu Einarsnesi suður fyrir flugbrautina við Fossvogsbrú og að Háskólanum í Reykjavík. Þá er ljóst að byggð í nýjum Skerjafirði mun hvorki skerða starfsemi né nýtingu Reykjavíkurflugvallar. Húsin rísa á randbyggðum reitum á tveimur til fimm hæðum og laga sig þannig að hindrunarfleti flugvallarins. Samkvæmt rannsóknum EFLU og hollensku flug- og geimferðastofnunarinnar mun íbúðabyggðin ekki raska þjónustustigi flugvallarins nema að óverulegu leyti líkt og á við um núverandi byggð umhverfis flugvöllinn.

Bílastæðakjarni mun þjóna allri fjölbýlishúsabyggðinni en raðhúsabyggð verður í öðrum hluta nýja hverfisins.

You may also like...