Endurbyggt KR svæði 2024

– langri baráttu að ljúka með tímamótasamningi –

Tímamótasamningur hefur verið gerður um endurbætur og uppbyggingu á athafnasvæði KR við Frostaskjól. Gert er ráð fyrir að nýtt knatthús verði komið í notkun á árinu 2024. Útivellinum verður snúið og íbúðabyggð reist sem snúa mun að Kaplaskjólsvegi og Meistaravöllum. Á myndinni má sjá hvernig KR svæðið mun koma til með að líta út að endurbyggingu lokinni.
Jón Bjarni Kristjánsson formaður bygginganefndar KR.

Gert er ráð fyrir að fyrsta skóflustungan að endurbyggðu athafnasvæði KR verði tekin á næsta ári og að unnt verði að taka nýjan KR völl og knatthús í notkun tveimur árum síðar eða á árinu 2024. „Það verður að hraða framkvæmdum því við missum völlinn meðan á þeim stendur. Okkur KR ingum líkar ekki að hafa engan heimavöll til lengdar en verðum þó að sætta okkur við það í einhvern tíma,“ segir Jón Bjarni Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður og formaður bygginganefndar KR í spjalli við Vesturbæjarblaðið. „Við erum komin með heimild fyrir uppbyggingunni og þar er um tímamóta samning að ræða.“

Jón Bjarni segir að lengi sé búið að berjast fyrir bættri aðstöðu fyrir KR. „Við áttum orðið á hættu að dragast aftur úr vegna aðstöðuleysis en lítið hefur gerst í uppbyggingu við Frostaskjóli í áratugi.“ Jón Bjarni segir nokkra bautasteina vera í mannvirkjasögu KR allt frá því að félagið keypti Báruna 1930. Árið 1943 var stefna félagsins sett á að vinna að framtíðarskipulagi á reitnum við Kaplaskjól. Stefnt var að tveimur grasvöllum með hlaupabraut kringum annan þeirra og einnig malarvöll. Um tíma var horft til þess að reisa mannvikri við Hagatorg en af því varð ekki. Næsta stóra skref varð þann 7. febrúar 1953 að tekin var í notkun glæsilegur íþróttasalur á þeirra tíma vísu við Kaplaskjólsveg. Um var að ræða bogmynduðu bygginguna sem stóð á KR svæðinu fram á tíunda tug síðustu aldar. Í framhaldi af byggingu bogaskemmunnar á horni Frostaskjóls og Kaplaskjólsvegar, var farið að huga að byggingu félagsheimilis fyrir KR á sömu lóð. Samkvæmt fyrirliggjandi teikningu á þeim tíma var einungis lokið við að byggja forsalinn að félagsheimilinu. Fundarsalir og skrifstofurými áttu að vera á annarri hæð. Það verkefni sat þó á hakanum fram á seinni hluta sjöunda áratugarins. Æskulýðsráð Reykjavíkur, forveri núverandi Íþrótta- og tómstundaráðs, kom að máli við formann Knattspyrnufélags Reykjavíkur og óskaði efir samvinnu um rekstur félagsmiðstöðvar fyrir Vesturbæinn. Borgin var reiðubúin að greiða verulega fyrir fram leigu ef hægt væri að byggja þessa miðstöð sem borgin myndi reka, í tengslum við félagsheimili KR, enda væri þar orðin miðstöð æskunnar í hverfinu.

Nýr salur 1971

Árið 1965 var hafinn undirbúningur að byggingu nýs salar í framhaldi af upphaflega íþróttahúsinu. Uppsláttur að veggjamótun hófst sumarið 1968 og húsið varð fokhelt 1970. Húsið var tekið í notkun ekki að öllu leyti fullgert árið 1971. Stóra íþróttahúsið, sem daglega gengur undir nafninu A-salur var síðan tekið í notkun skömmu fyrir síðustu aldamót. Jón Bjarni segir tilkomu hans hafa verið mikla lyftistöng fyrir starf félagsins og með honum hafi framboð á tímum í íþróttasölum aukist gríðarlega. Fyrir utan meginsalinn er þar að finna minni sal á annarri hæðinni, 10 rúmgóða búningsklefa og skrifstofuhúsnæði á fyrstu og annarri hæð sem býður góða möguleika á skrifstofuþjónustu „Þetta er raunar það síðasta sem hefur verið gert þar til þær framkvæmdir sem nú á að ráðast í verða hafnar.“

Fjölnotahús og vellinum snúið

Hver verður framvinda þessa stóra verkefnis. „Í fyrsta áfanga verður byggt fjölnotahús um miðbik svæðisins. Þetta hún verður í svipuðum stíl á íþróttahús ÍR í Mjóddinni í Breiðholti enda horft til sömu þarfa og þar. Í öðrum áfanga verður verður elsti íþróttasalur félagsins rifinn og nýr íþróttasalur byggður í stað hans. Í þriðja áfanga verður svo ráðist í eina af stærri framkvæmdunum og það er meðal annars hennar vegna sem við verðum án heimavallar um tíma. Þá verður aðalvellinum snúið þannig að hann mun snúa frá norðri til suður í stað austurs til vestur eins og nú er. Í fjórða áfanga verða byggðar íbúðir og einnig þjónusturými við Kaplaskjólsveg og við Flyðrugranda. Í fimmta til sjötta áfanga verður áhorfendastúka byggð við austur og vesturhlið vallarins og unnar endurbætur á núverandi félagsaðstöðu og aðkomu að svæðinu. Í sjöunda áfanga verður unnið að endurbótum á núverandi félagsaðstöðu og einnig aðkomu að KR svæðinu. Í áttunda áfanga verður síðan byggð göngubrú á milli áhorfendasvæða á vestur og austurhlið vallarins.“

KR svæði framtíðarinnar séð frá Keilugranda.

KR mun ná í skottið á sér

Jón Bjarni segir að þegar þessu verður náð muni KR ná í skottið á sér. Eins og staðan er í dag sé félagið tveimur áratugum á eftir flestum öðrum hvað aðstöðu varðar. Hann segir miklu muna um kálfinn sem verður  byggður utan um knatthúsið. Með honum fáist mikið af óskilgreindu rými sem hægt verði að nota sem þjónusturými fyrir hinar ýmsu deildir félagsins.

Nýtt KR svæði við Starhaga

Jón Bjarni snýr sér að nýja KR svæðinu við Starhaga. Þar er mikinn uppbygging fyrirhuguð í framtíðinni,. „Þarna erum við fyrst og fremst að huga að byggðunum við Skerjafjörð. Því hverfi sem búið er að fá póstnúmer 102. Þótt póstsendingum fari fækkandi þá hafa póstnúmerin skapað tilfinningu fyrir hverfum borgarinnar. Orðið einskonar hverfisnúmer. Við hefðum gjarnan viljað vera áfram í 107. Nú á að fara að byggja nýtt hverfi næst flugvellinum. Bæði börn og fullorðnir vilja hafa íþróttasvæði sem næst búsvæðum sínum. Þurfa ekki að fara langar leiðri á æfingar eða til að stunda aðra íþróttaiðkun. Byggð hefur einnig vaxið í vesturhluta Vatnsmýrarinnar. Við ætlum að mæta Val sem er hinu megin í mýrinni.“ En hvað með flugvöllinn, hrekkur upp úr tíðindamanni. „Sem ekta KR-ingi ætti mér að finnast best að hafa hann sem lengst. Þá stoppar hann Val af. Valur kemst ekki yfir flugbrautirnar. Við reyndar ekki heldur en þetta er nú svona hefðbundinn íþróttafélagarígur. En svo maður tali í alvöru er ekkert sem bendir til að Reykjavíkurflugvöllur fari í bráð. Reykjanesskaginn er vaknaður efir 800 ár. Það er farið að gjósa. Eldsumbrotin kalla fram spurningar um hvort hugsa verði flugvallarmálin upp á nýtt. Hvort iður jarðar hafi gert Hvassahraunshugmyndina óraunhæfa. En þarna erum við komir út fyrir efnið.“

You may also like...