Miklar breytingar fyrirhugaðar á Loftleiðareitnum
Fasteignafélagið Reitir huga nú að byggingaframkvæmdum á Loftleiðareitnum. Gert er ráð fyrir íbúðum, matvöruverslun og líkamsrækt á svæðinu. Reitir undirrituðu kaupsamning við dótturfélag Icelandair um kaup á fasteigninni að Nauthólsvegi 50, þar sem skrifstofur flugfélagsins eru til húsa. Kaupverð er 2,3 milljarða króna.
Samkvæmt kaupsamningi verður Icelandair áfram í skrifstofuhúsnæðinu, sem er 6.474 fermetrar að stærð, næstu tvö árin en hyggst svo flytja höfuðstöðvarnar á Flugvelli í Hafnarfirði árið 2024. Í hugmyndum Reita er gert ráð fyrir að gamla Hótel Loftleiðir eða Natura verði áfram á sínum stað. Hins vegar er til skoðunar að skrifstofurými Icelandair fari til annarra nota. Er þá gert ráð fyrir svonefndum „co-living“ íbúðum þar sem íbúar deila rýmum á borð við þvottahúsi, eldhúsi og vinnuaðstöðu. Þá eru einnig hugmyndir um að koma upp matvöruverslun, líkamsrækt og kaffihúsi á svæðinu. Verði af þessum hugmyndum mun svæðið taka miklum breytingum. Þjónustufyrirtæki muni koma á svæðið auk þess að bílastæðunum fyrir framan innganginn að hótelinu verður breytt í almenningsrými.