Hefði ekki viljað sleppa uppvaxtarárunum
– segir Helgi Vilhjálmsson í Góu sem spjallar við Vesturbæjarblaðið um ævi sína –
Helgi Vilhjálmsson oftast kenndur við Sælgætisgerðina Góu segir að ef hann ætti að lifa ævi sína á nýjan leik myndi hann ekki vilja sleppa æskuárum sínum í Vesturbæ Reykjavíkur. Hann ólst upp í braggahverfi í Vesturbænum. Fór á sjó um tíma en síðan yfirtók “nammið” líf hans eins og hann segir sjálfur frá. Helgi er einn af stærri atvinnurekendum landsins. Rekur Sælgætisgerðina Góu í Garðabæ og einnig KFC eða Kentucky Fried Chicken skyndibita sem margir þekkja. En hvernig hefur líf hans verið í gegnum tíðina. Vinna og aftur vinna myndu sumir segja, útsjónarsemi myndi öðrum koma til hugar. Sennilega blandast þetta saman auk glaðlyndis og góðrar skapgerðar. Helgi er einnig þekktur fyrir að liggja ekki á skoðunum sínum og vera tilbúinn að tala fyrir þeim nánast hvar og hvenær. Hann hefur gagnrýnt lífeyrissjóðakerfið og að undanförnu hafa málefni heldri borgara verið honum hugleikin. Hann hefur viðrað þá hugmynd að breyta Bændahöllinni, sem nú stendur að mestu auð og tóm, í litlar íbúðir fyrir heldra fólk. Þótt Helgi nálgist áttrætt vinnur hann fullan vinnudag í fyrirtækjum sínum. Kveðst vilja vinna á meðan hann getur. „Við skulum koma inn í fundarherbergið,“ segir hann við komumann. „Þá höfum við aðeins næði.“ Þegar þangað er komið dregur hann fram ramma sem hann var með undir hendinni. Í rammanum var mynd af bragga-hverfinu þar sem hann ólst upp fyrir sjö til átta áratugum. Hann vildi sýna komumanni æskustöðvarnar.
„Þarna byrjaði þetta. Ég hefði alls ekki viljað missa af þessum tíma. Þessu uppeldi Þrátt fyrir fátækt höfðum við krakkarnir margt gott. Vorum mikið úti og lékum okkar. Þá voru engir skjáir til þess að glápa á og ekki við neitt annað að vera en útiveruna og síðan tók skóli lífsins við. Þar voru engin próf en ef við stóðumst þennan skóla þá var flestum borgið. Ég fór í Melskólann eins og aðrir krakkar. Þar gekk oft mikið á og kennararnir máttu stundum hafa sig alla við að halda aga. Stundum var tekið aðeins í mann. Þeir notuðu jafnvel sippubandið. Það gerði ekkert til en slíkar kennsluaðferðir eru ekki vel séðar í dag. Tímarnir eru breyttir. Ég tel að Reykvíkingar geti talist heppnir að setuliðið skyldi eftir sig mikið af húsnæði þótt deila megi um hversu heppilegt það var til búsetu. Við höfðum engin efni á að byggja yfir þann fjölda sem tók sér búsetu í borginni á þeim tíma. Braggahverfin leystu tímabundinn vanda í sögu þjóðarinnar. Vanda sem ég sé ekki hvernig annars hefði verið leystur.“
Vertíðin gekk fyrir
Helgi kveðst viss um að þessi ár í Vesturbænum hafi mótað það sem á eftir kom í lífinu. Hann fór snemma að vinna. Lífið snerist um vinnu. Að hafa í sig og á. Hann fór til starfa hjá Sælgætisgerðinni Nóa sem var til húsa við Skúlagötuna. Honum liggur gott orð til Hallgrímsfjölskyldunnar sem átti og rak fyrirtækið. „Þarna má rekja upphaf þess að ég lenti í namminu. Ég lærði mikið þarna. Hvernig átti að gera hlutina. Ég ílengdist þó ekki þar. Fór á sjóinn um tíma en fann að sjómennskan átti ekki við mig. Alla vega ekki til lengdar. Ég var á sjó frá Grindavík og rak sjoppu í bænum með fram róðrunum. „Ég var á sjónum þegar elsta dóttir okkar fæddist þann fyrsta apríl. Ég hafði huga á að skreppa í land og líta á barnið. Skipstjórinn sagði að svoleiðis gerðu menn bara í landlegum. Það liðu einhverjar vikur þar til ég sá barnið. Vertíðin gekk fyrir.
Kunni eitthvað fyrir mér namminu
„Þegar ég kom í land fór ég að huga að því hvað ég vildi gera. Mig langaði að taka þátt í atvinnulífinu. Ég hafði kynnst namminu. Ég sá að þar ég gæti þreifað fyrir mér. Fann að ég kunni eitthvað til verka. Ég stofnaði Góu 1. janúar 1968. Til að byrja með átti fyrirtækið eina karamelluvél en árið 1973 hófst framleiðsla á hraunsúkkulaðinu sem hefur verið ein vinsælasta vara fyrirtækisins upp frá því. Árið 1993 runnu tvær ástsælustu sælgætisgerðir landsins, Góa í Hafnarfirði og Linda á Akureyri saman. Í september 2002 keypti Góa svo rekstur lakkrísgerðarinnar Drift sf. Góa er í dag næststærsti sælgætisframleiðandi landsins. Starfsmannafjöldinn er um 50 manns og hafa sumir þeirra starfað hjá fyrirtækinu í yfir 40 ár. Þegar ég stofnaði Góu spurði ég sjálfan mig hvort ég gæti keppt við þetta ágæta fólk sem ég hafi unnið hjá og átt ágæta daga. Þetta fólk átti hin og þessi fyrirtæki. Ég vildi ekki efast og reyndi. Byrjaði á að framleiða karamellur og hjólin fóru að snúast.“
Keyptum aldrei sígarettupakka eða bjórkippu
Helgi kveðst ekki hafa hugsað um ríkidæmi þegar hann var að alast upp. Stundum hafi verið gantast með það í strákahópnum að það væri gott að ná sér í ríkar stelpur. Helgi gifti sig ungur þótt hann hafi ekki haldið í heitið um ríka konu. En þau hjónin voru samhent sem gerði gæfumun. Eiginkona Helga var Jóna Steinunn Patricia Conway. Þau Helgi gengu í hjónaband þann. 21. september 1963. Jóna Steinunn eða Patty eins og hún var kölluð lést október 2011. Þau hófu búskap að Skjólbraut í Kópavogi en bjuggu lengst af á Skjólvangi í Hafnarfirði. „Ég var heppin. Við Patty voru gift í tæpa hálfa öld. Allt þar til hún lést. Við unnum bæði að rekstrinum. Á meðan þetta var að fara af stað settist ég yfir bókhaldið eftir vinnu og hún fór svo í bankann á morgnana. Stundum með barnavagninn á undan sér. Fyrstu tvo áratugina vorum við með skrifstofuna á eldhúsborðinu. Fyrirtækið og fjölskyldan uxu hvort með öðru. Og þegar vel er farið með verður eitthvað eftir. Við keyptum aldrei sígarettupakka eða bjórkippu. Ég hef ekki fengið mér vín um dagana.“
Þú átt eftir að byggja mikið
Helgi rifjar upp að þegar hann var að alast upp í Vesturbænum hafi fullorðin kona búið þar skammt frá. „Hún bjó í hálfgerðum kofa fyrir neðan þar sem Melabúðin er. Fékkst minnir mig við smíðar og gekk hölt. Var með klumbufót eins og það var kallað í þá daga. Hún kom einhverju sinni að máli við mig drenginn og sagði að ég ætti eftir og byggja mikið. Ég lagði eyrun við en gerði ekki mikið með þennan spádóm. Alla vega ekki þá. En svo fór þetta hjá mér eins og konan sagði. Ég fór að byggja og hef byggt eitt og annað um dagana. Sá að ég gat ekki rekið fyrirtækið nánast á vörubílspalli þegar það stækkaði. Ég hef verið að byggja síðustu fjóra áratugina. Ég hef líklega um 15 til 20 þúsund fermetra þegar allt er talið. Bæði verksmiðjubyggingar og íbúðarhúsnæði. Ég rauk meðal annars í að byggja einbýlishús yfir mig. Ef til vill má rekja það til uppeldisins í bragganum. Fundist ég eiga betra skilið eftir að hafa alist þar upp. Nú bý ég einn eftir að hafa verið ekkjumaður í um áratug. Ég hef ekkert með þetta hús að gera bara yfir sjálfan mig. Gæti alveg hugsað mér að flytja í litla íbúð.“ Helgi er ómyrkur í máli þegar íbúðabygginga berast í tal. „Við þurfum að byggja meira af litlum íbúðum fyrir ungt fólk. Íbúðir þar sem fólk getur byrjað sinn búskap. Og ekki síður fyrir eldra fólk sem vill eða þarf að minnka við sig. Það skortir sárlega húsnæði fyrir aldraða sem uppfyllir þarfir þeirra hvað varðar einkalíf. Litlar íbúðir þar sem fólk hafi sitt prívat og geti tekið á móti ættingjum og vinum. Það er illa búið að öldruðu fólki.“
Tilvalið að breyta Hótel Sögu í íbúðir fyrir eldra fólk
Helgi leiðir talið að Bændahöllinni. „Er hún ekki að mestu tóm. Hvað á að gera við þetta stóra hús. Hef heyrt að það sé til sölu. Mér fyndist tilvalið að breyta því í íbúðir fyrir heldra fólk. Húsið er á góðum stað í miðjum Vesturbænum. Útsýnið er frábært. Svo mætti útbúa fína félagsaðstöðu fyrir fólkið. Þar sem það gæti komið saman og átt góðar stundir. Það mætti setja upp stóran skjá þar sem Raggi Bjarna væri að syngja. Enginn er tengdari Sögu en hann.“
Tilefni fyrir lífeyrissjóðina
Helgi segir að þarna væri komið tilefni fyrri lífeyrissjóðina. Hann hefur undanfarinn áratug velt stöðu þeirra fyrir sér og hvernig farið er með þá fjármuni sem þeir fá til ávöxtunar. „Ef sjóðirnir notuðu tvo milljarða á ári til að byggja litlar íbúðir fyrir ellilífeyrisþega væri hægt að útrýma húsnæðisskorti aldraðra á áratug eða svo. Ég er ekki að tala um ölmusu. Þeir sem hafa greitt í sjóðina eiga þessa peninga og eiga líka að fá ráðstafa þeim að vild. Mér finnst lífeyrissjóðirnir hafi gleymt okkur. Við sendum þeim peninga en þeir hugsa lítið um hvernig þeir geti auðveldað fólki ævikvöldið. Ég byrjaði að tala um lífeyrissjóðina fyrir áratug. Þá námu eignir þeirra um 400 milljörðum, en nema nú um þrjú þúsund milljörðum. Þeir fá 12 prósent af laununum okkar en þeir sem greiða hafa ekkert um það segja í hvað peningarnir eru notaðir.“ Hugmyndir Helga um að lífeyrissjóðirnir taki að sér að byggja yfir aldraða hafa vakið mikla athygli og hann fengið jákvæð viðbrögð fyrir að benda á þetta.
Lífeyrisgreiðslur skipta máli við makamissi
Helgi heldur áfram. „Þegar ég byrjaði að greiða í lífeyrissjóð árið 1964 höfðu menn ekki neitt val í hvaða sjóð þeir greiddu. Sem betur fer hefur það breyst. Menn þurfa að huga vel að því í hvaða sjóði þeir greiða og hvert viðbótarlífeyrissparnaðurinn fer. Ég og mín fjölskylda fórum að greiða í Frjálsa lífeyrissjóðinn fyrir tíu til tólf árum. Þegar sonur minn dó greiddi sjóðurinn tíu milljónir inn í dánarbúið. Það kom hins vegar ekki króna frá Gildi sem hann var búinn að greiða í mörg ár. Svipað gerðist þegar konan mín féll frá. Þá fékk ég átta milljónir eftir hana en dæturnar eina og hálfa milljón hver. Það skiptir svo miklu máli þegar fólk missir maka sinn að það fái lífeyrisgreiðslur.“
Maður ólst dálítið upp með Ameríku
Helgi hefur ekki látið nammið eins og hann kemst að orði nægja. Hann fór að horfa eftir fleiri tækifærum. Fyrir rúmum fjórum áratugum opnaði hann fyrsta KFC staðinn hér á landi. „Ég hafði látið mig dreyma um að opna skyndibitastað. Maður ólst dálítið upp með Ameríku. Pabbi sigldi þangað og ýmis áhrif bárust hingað. Sérstaklega á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og eftir hana. Ég var búinn að sjá KFC fyrir mér hér á landi og var búinn að leggja talsverða vinnu í að fá umboðið. Ég opnaði fyrsta KFC staðinn í Hafnarfirði 9. október 1980. Þá voru liðin 50 ár frá því Colonel Harland Sanders opnaði sinn fyrsta stað í Kentucky í Bandaríkjunum árið 1930. Nú eru átta KFC staðir hér á landi þar af sex á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef verið við þetta frá byrjun en í dag eru það þó aðalleg afkomendur mínir sem annast um rekstur KFC.“ Helgi segir að tilkoma KFC hafi breytt kjúklinga-framleiðslunni hér á landi. „Við fórum að nota kjúklinga-bringurnar meira. Áður var áherslan lögð á læri, leggi og vængi. Mesti maturinn er þó í bringunni. Þegar KFC var 40 ára efndum við til einskonar bílalúguleik. Hann fór þannig fram að farþegar í níunda hverjum bíl fengu afmælisfötu með níu kjúklingaleggjum gefins.“
Þola bara Pepsí og kjúkling
Helgi er keikur. Segir þó að stundum veki talan 80 með sér ónot. Þar á hann sennilega við afmæli sitt þegar hann sjálfur mun standa á átta tugum. „Þetta angrar mig þó ekki alvarlega. Ég hef stunum hóað nokkrum saman sem eru á svipuðum aldri og ég. Þegar ég gerði það fyrst spurðu þeir hvort barinn væri opinn. Þeir vildi fá brennivín. Ég var ekki alveg á því að þess þyrfti með. Nú fá þeir bara kjúkling og Pepsí að drekka með. Þeir þola ekki meira,“ segir Helgi Vilhjálmsson sem hvergi er að láta deigan síga.