Stefnt að sjálfbærari og vistvænni byggð
– Hverfisskipulag Breiðholts samþykkt –
Nýtt hverfisskipulag fyrir öll hverfi Breiðholts hefur verið samþykkt í borgarráði eftir formlegt og lögbundið kynningar- og samþykktarferli. Megin markmið hverfisskipulags eru vistvæn og heilsueflandi borgarhverfi þar sem mið er tekið af óskum íbúa. Hverfisskipulag er deiliskipulag fyrir gróin hverfi sem á að stuðla að jákvæðri þróun Reykjavíkur. Hvert skipulag tekur sinn tíma og því æskilegt að búa yfir verkfærum til að þróa hverfi í takt við breyttan tíðaranda og gefa húseigendum tækifæri til breytinga á þægilegri hátt en áður í samræmi við óskir og þarfir þeirra. Það er nauðsynlegt að rjúfa kyrrstöðu sem víða hefur ríkt og gera íbúum auðveldara að ráðast í breytingar segir í frétt frá Reykjavíkurborg.
Hverfisskipulag fyrir Breiðholt er afrakstur víðtæks samráðsferlis sem stóð yfir frá árinu 2016 til dagsins í dag. Komið er til móts við ákall íbúa um öflugri hverfiskjarna með þróun Arnarbakka og Völvufells og fleiri þróunarreita sem unnir hafa verið samhliða gerð hverfisskipulagsins. Vetrargarðurinn fær til dæmis sinn sess í skipulagi Seljahverfis eins og fyrirhuguð dansmiðstöð í Efra Breiðholti.
Sjálfbærari og vistvænni byggð
Hverfisskipulag Neðra Breiðholt miðar að því að gera byggðina sjálfbærari og vistvænni. Hugað er að gæðum byggðar og til að styrkja byggðamynstur og staðaranda. Nærþjónusta er í Mjódd og hverfiskjarna í Arnarbakka sem á að efla. Sömu sögu er að segja af Seljahverfi. Gæði byggðarinnar í Seljahverfi eiga að aukast með hverfiskjarna með nærþjónustu við Rangársel og bættri íþróttaaðstöðu í Vetrargarði austast í hverfinu. Efla á hverfiskjarna og nærþjónustu í Efra Breiðholti og styrkja miðsvæðið við Austurberg og Gerðuberg sem er hjartað í hverfinu. Stefnt er að sjálfbærara og vistvænna hverfi og fjölgun á stærri fjölskylduíbúðum. Við Völvufell mun nýr leikskóli líta dagsins ljós á grunni hverfisskipulagsins.
Annað dæmi er að í hverfiskjarna í Bökkunum verða græn svæði betur skilgreind með reiti fyrir matjurtaræktun auk þess sem gróðurhúsi til almennra nota verður komið fyrir inn á svæðinu. Íbúðir við Arnarbakka verða alls 90 og skiptast jafnt á milli einstaklings og þriggja herbergja íbúða.