Fyrsta skóflustungan tekin að nýjum búsetukjarna við Kirkjubraut

Fyrsta skóflustungan að nýjum búsetukjarna fyrir fatlað fólk við Kirkjubraut 20 á Seltjarnarnesi var tekin miðvikudaginn 8. desember sl.
Fyrstu skóflustunguna tóku Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri, Bjarni Torfi Álfþórsson formaður fjölskyldunefndar og Þóra Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri Áss styrktarfélags. 
Aðrir á mynd fv.: Pétur Vilberg Guðnason, Kristinn Elfar Ásgeirsson, Sigurður Villi Stefánsson, Jóhann Kristinsson, Guðmundur Ari Sigurjónsson, Sigurþóra Bergsdóttir, Magnús Örn Guðmundsson, Jóhanna Ásgerðardóttir, Anna Margrét Hauksdóttir, Brynjar Þór Jónasson, Baldur Pálsson, Ragnhildur Jónsdóttir og Gunnar Lúðvíksson.
Ljósmynd: Seltjarnarnesbær.

Fyrsta skóflustungan að nýjum búsetukjarna fyrir fatlað fólk við Kirkjubraut 20 á Seltjarnarnesi var miðvikudaginn 8. desember. Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri, Bjarni Torfi Álfþórsson formaður fjölskyldunefndar og Þóra Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri Áss styrktarfélags tóku fyrstu skóflustunguna.

Um er að ræða búsetukjarna með sex íbúðum fyrir fatlað fólk ásamt starfsmannarými og er heildarstærð húsnæðisins um 553 m². Húsið verður umhverfisvænt og rekstrarlega hagkvæmt auk þess sem markmiðið er að raska sem minnstu í náttúrunni. Húsið og lóðin munu þannig falla vel inn í og njóta sín vel í náttúrlegu umhverfi Valhúsahæðar. 

Seltjarnarnesbær og Ás styrktarfélag hafa gert með sér viljayfirlýsingu um samstarf um rekstur búsetukjarnans. Seltjarnarnesbær mun eiga húsið og Ás styrktarfélag taka að sér rekstur hússins og þjónustu við íbúa.

Húsnæðið er hannað af þeim Önnu Margréti Hauksdóttur arkitekt og Pétri Jónssyni hjá AVH samkvæmt hugmyndafræðilegum áherslum Áss styrktarfélags. AVH sá ennfremur um burðarþol og lagnir, Lúmex sá um ljósahönnun, Myrra hönnunarstofa um hljóðráðgjöf og Brunahönnun slf sá um bruna-hönnunina. Samið var við Húsasmíði ehf, lægst-bjóðandi verktaka í útboði og er heildarkostnaður við byggingu búsetukjarnans áætlaður um 293,0 mkr.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdatími verði um 12 mánuðir og að fyrstu íbúar flytji inn í febrúar 2023. Byggingastjóri og eftirlitsaðili með verkefninu fyrir hönd Seltjarnarnesbæjar er Jóhann Kristinsson hjá Strendingi ehf.

Tölvugerð mynd að nýjum búsetukjarna fyrir fatlað fólk við Kirkjubraut 20.

You may also like...