Fyrst var ég mjög hrædd við veðrið
– segir Innocentia Fiati Friðgeirsson sem er ein nýju sendiherranna í samnefndu verkefni þjónustumiðstöðvar Breiðholts –
„Þegar flutt er til nýs lands er mikilvægt að geta sem fyrst fengið þær upplýsingar og utanumhald sem þarf,“ segir Innocentia Fiati Friðgeirsson sem er ein nýju sendiherranna í samnefndu verkefni sem Þjónustumiðstöð Breiðholts heldur utan um. Því er ætlað að auðvelda fólki með annað tungumál, aðra menningu og gjarnan allt annars konar félagsmótun að tengjast nýja landinu sínu. Að fóta sig í oft og tíðum gerólíku, félagslegu og áþreifanlegu landslagi. Það er augsýnilega mikilvægt að fólk fái upplýsingar um íslenska samfélagið, réttindi sín og skyldur á tungumáli sem það skilur og frá manneskju sem býr að sambærilega reynslu. Blaðamaður Breiðholtsblaðsins hitti Innocentiu að máli og fékk að vita meira.
„Maðurinn minn dró mig hingað“, segir Innocentia. „Ég er frá Ghana og vissi að þetta yrðu mikil viðbrigði. En nú er ég búin að búa hérna í næstum því tuttugu ár svo ég er orðin vön. Í Ghana eru töluð hátt í áttatíu tungumál og í landinu eru meira en tugur tungumála sem skilgreind eru sem opinber tungumál landsmanna en enska er helsta samskiptamál þeirra.“ Móðurmál Innocentiu er Ewe, auk þess talar hún ensku, Akan og einnig Twi sem er eitt afbrigða Akan. Íslenskan er svo fimmta tungumál Innocentiu. Hún lærði fljótt tungumálið hér og segir að það hafi komið sér vel þegar hún hóf störf á Landspítalanum; „Ég lærði svo framreiðslu í Menntaskólanum í Kópavogi og er menntaður framreiðslumaður,“ segir hún. „Fyrst þegar ég kom hingað fannst mér vera svo fátt fólk, ég hélt að hér byggju bara þrjú hundruð manns,“ bætir Innocentia við þegar blaðamaður spyr hvernig var að koma hingað. „Ég sagði manninum mínum að ég yrði hérna í svona tíu ár. En ég er ekki farin enn. Það var ekki alltaf auðvelt, fyrst var ég til dæmis mjög hrædd við veðrið. Ég ætlaði hreinlega ekki að mæta í vinnuna út af veðri. Ég ákvað að vinna bara yfir sumarið, það yrði í lagi. En maðurinn minn sagði: „Maður klæðir sig eftir veðri“ og ég lærði að gera það.“
Að verða sendiherra var eins og að sjá draumana rætast
„Þegar ég flutti til Íslands var ekki margt fólk hér af afrískum uppruna. Að mynda samfélag okkar sem flytjum hingað frá Afríku, hér á Íslandi, var ekki í kortunum. Að verða svo sendiherra er eins og að sjá draumana rætast,“ segir Innocentia. „Við verðum að hafa einhvers konar samfélag fyrir okkur, eitthvað að gera saman, en það var ekkert slíkt til. Svo kom að því að haldin var hátíð fyrir hina ýmsu menningarhópa á Íslandi og ég hugsaði með mér: Við verðum líka að hafa rödd. Ég hringdi í fólk sem mér datt í hug að gæti haft áhuga og hugsaði mikið um hvað ég gæti gert fyrir aðra sem höfðu fluttu hingað frá heimsálfunni okkar. Við verðum að vera til fyrir okkur sjálf, sinna sjálf okkar málum, og getum ekki bara beðið eftir að einhverjir aðrir geri hlutina.“
Hjólin fóru að snúast
Að sögn Innocentiu fóru hjólin að snúast eftir að hún fundaði með Jasminu Vajzovic Crnac, verkefnisstjóra sendiherraverkefnisins á Þjónustumiðstöð Breiðholts. “Jasmina sagði mér að enn væri enginn kominn sem gæti tekið að sér að vera sendiherra fólks af afrískum uppruna.“ Enda kannski ekki lítið verkefni, hugsar blaðamaður, á sjötta tug landa og áætlað að í álfunni séu töluð á milli 1500 og 2000 tungumál. En Innocentia lét það ekki aftra sér. „Eftir að ég frétti að það væri enginn búinn að bjóða sig fram, sagði ég bara við Jasminu: Ég skal gera þetta,“ segir hún brosandi. „Ég vil gera það sem ég get fyrir fólkið mitt og veita þeim betri aðgang að upplýsingum jafnvel þótt það sé ekki mikið.“ Og verkefni Innocentiu eru nú þegar mörg og margvísleg. „Ég hjálpa til dæmis flóttafólki að versla, með tungumálið, að hafa samband við hina og þessa og margt fleira. Þetta vantar svo mikið fyrir fólk frá Afríku og það á ekki að skipta máli frá hvað landi fólk kemur. Mín er ánægjan, að geta aðstoðað og tengja fólk af erlendum uppruna við aðra í samfélaginu.“ Innocentia hugsar sig um og bætir svo við: „Við erum öll hluti af samfélaginu. Við höfum öll hlutverk í samfélaginu, eitthvað sem er okkar verk að gera. Mitt verkefni núna er að hjálpa þeim eftir því sem ég get.“
Byggja saman sterkt samfélag
Blaðamaður spyr Innocentiu í lokin hvers vegna sendiherraverkefnið sé mikilvægt að hennar mati og hvað hún voni að komi út úr verkefninu. Það stendur ekki á svari. „Við byrjum alltaf einhvers staðar og sendiherraverkefnið mun halda áfram að þróast og vaxa. Verkefnið er mikilvægt vegna þess fólk vantar svo vitneskju. Sendiherrann kemur upplýsingum áleiðis til þeirra sem vantar þær og við erum öll að læra hvað við getum gert.“ Hún bætir við að fólk frá Afríku vantar mjög oft ýmis konar upplýsingar og nú getur hún sem sendiherra styrkt þeirra stöðu í samfélaginu og aukið tengsl þeirra hérlendis. „Við sem tökum þátt í svona samfélagsvinnu erum ekki einungis að gera þetta fyrir okkar menningarhóp, við gerum þetta fyrir börnin okkar, fyrir næstu kynslóð af fólki frá Afríku sem kemur hingað til landsins. Það sem ég vona svo að gerist er að við byggjum saman sterkt samfélag þannig að það sé gott að búa hérna fyrir alla sem flytja til landsins. Að upplýsingarnar sem þú þarft séu aðgengilegar og að lífið verði þar með auðveldara.“
Í lokin má geta þess að samfélag þeirra sem hafa flust hingað frá Afríku er með eigin vefsíðu, facebookhóp, whatsapp og Innocentia og samverkafólk hennar hringir einnig í fólk og leggur sig fram um að kynnast því, ávallt með það fyrir augum að leggja sitt af mörkum til að byggja upp sterkt samfélag.
Þórhildur Vígdögg.