Tel mig hafa séð mikinn vöxt í forræðishyggju

Páll ásamt eiginkonu sinni Arnfríði Gísladóttur þar sem þau kunna vel við sig úti í náttúrunni.

Páll Gíslason verkfræðingur hefur komið víða við á lífsleiðinni. Hann er fæddur á Blönduósi og ólst upp á Hofi í Vatnsdal í Austur Húnavatnssýslu þar sem foreldrar hans bjuggu. Páll fór nokkuð hefðbundna leið. Var í farskóla í heimasveitinni, síðan í Reykjaskóla í Hrútafirði þaðan sem leiðin lá í Menntaskólann á Akureyri. Eftir það tók hann smá lykkju á leið sína. Var ár í Landbúnaðarskólanum á Hvanneyri og annað ár í Vélskólanum áður en hann hélt til náms í verkfræði við Háskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist 1981. Eftir það fór hann til Álfaborgar í framhaldsnám í iðnaðarverkfræði þaðan sem hann útskrifaðist 1984.

Páll hefur komið víða við um ævina sem of langt yrði upp að telja. Hann hefur bæði sinnt verkefnum hér heim og erlendis. Hann var meðal annars rekstrarstjóri túnfiskútgerðar frá Abidjan í Vestur-Afríku á vegum fyrirtækisins Goodman Shipping sem var að hálfu í eigu SH. Eftir það vann hann að ýmsum verkefni á vegum SH, meðan annars undirbúning að því að opnuð var söluskrifstofa í Moskvu. Páll var framkvæmdastjóri söluskrifstofu SH og Navenor Holdings í Rússlandi um tíma og vann við ýmis verkefni hjá Netverk-samstæðunni. Annaðist fjármálastjórn og áætlanagerð, hafði umsjón með sölu- og markaðsmálum og síðast framkvæmdastjórn. Eftir aldamótin kom hann heim og var framkvæmdastjóri Prentsmiðjunnar Gutenberg  og síðan stjórnarformaður í útgáfufélaginu Fróða, dótturfélagi Prentsmiðjunnar Odda. Á árunum 2005 til 2007 var Páll yfirmaður erlendrar viðskiptaþróunar hjá Prentsmiðjunni Odda/Kvos. Þar kynntist hann prenttækni og fór meðal annars til Rúmeníu til kaupa á prentvélum fyrir Þorgeir í Odda. Hann kveðst hafa kynnst Rúmeníu í gegnum þetta verkefni. „Maður er varla gjaldgengur sem verkefræðingur lengur. Kominn á þennan aldur og reynslulítill af verkfræðistörfum því ég hef lengst af verið að vinna að öðrum verkefnum. Ég er til dæmis nýkominn frá Rúmeníu því ég er að starfa fyrir fyrirtæki sem er með á annan tug Rúmena í vinnu. Einn þeirra varð fyrir því óhappi að slasa sig og ég tók að mér að fylgja honum heim. Lét eiginkonuna kvitta fyrir móttöku hans,“ segir Páll og það vottaði fyrir húnverskri kímni í augum hans. Hann skildi þó ekki alveg við sjóinn og vann meðal annars að því að byggja upp fyrirtæki sem heitir Ocean Excellence. Það sér um tæknilausnir fyrir fullvinnslu á sjávarafurðum.  

Nesbúi um árabil

Páll hefur búið á Seltjarnarnesi um árabil ásamt fjölskyldu sinni. Eiginkona hans er Arnfríður Gísladóttir Jónssonar menntaskólakennara á Akureyri. Þau hafa verið gift í 42 ár  og eiga tvö börn Hervöru sem er lögfræðingur og Gísla fornleifafræðing. Páll er mikill útivistarmaður og hefur komið nálægt ýmsum verkefnum á því sviði. Einkum í Kerlingarfjöllum. „Kerlingarfjöll voru fyrst og fremst skíðasvæði og ég kom meðal annars að því að halda lyftum gangandi og halda því aðgengilegu fyrir skíðafólk. Áherslan var lögð á gesti sem komu til þess að stunda skíði en í áranna rás hefur þetta breyst nokkuð og meira horft til þess sem almenns útivistarsvæðis. Mörg svæði á hálendinu hafa sérstöðu. Kerlingarfjöll hafa til dæmis aðra sérstöðu en Landmannalaugar svo maður nefni dæmi.“

Átök þéttbýlis og dreifbýlis

Pál hefur haft fasta starfsstöð á hálendinu um árabil. Hvað sýnist honum um velferð og einnig nýtingu þessa hluta landsins. Þar á meðal umdeild mál á borð við friðlýsingar og þjóðgarðsvæðingu. Hann er snöggur til svars. „Mér finnst ég verða að segja að ég tel mig hafa séð mikinn vöxt í forræðishyggju aðila, sem ég sé ekki endilega að hafi beina aðkomu að umsýslu eða nýtingu svæðisins. Birtingarmyndin er stofnanavæðing og framganga samtaka sem kenna sig við umhverfisvernd. Auðvitað má segja að þetta sé birtingarmynd átaka milli þéttbýlis og dreifbýlis, þar sem manni finnst þéttbýlissjónarmiðin oft ansi fjarri raunheimum. Þéttbýlissjónarmiðin virðast ávallt eiga mjög greiðan aðgang að fjölmiðlum og þar eiga málsvarar óraunsærra hugmynda jafnan greiðan aðgang. Vitnað er í þá og þeim gefin kostur á að láta skoðanir í ljós, skýrt dæmi er hve oft forvígismenn Landverndar eru kallaðir til sem álitsgjafar, án þess að andstæð sjónarmið séu reifuð eða málsvarar þeirra spurðir.“

Páll Gíslason kann vel við sig á hálendinu.

Umhverfissinnar standa vörð um slæma umgengni

„Þetta birtist einkum á tveim sviðum, annars vegar varðandi orkunýtingu og hins vegar í samgöngumálum,“ heldur Páll áfram.  Á hálendinu er mikið um vegi og slóða, sem hægt og rólega eru að grafast ofan í jörðina, mynda skurði og farvegi fyrir vatn, sem eykur á veðrun og niðurbrot í landslaginu. Þegar minna reyndir bílstjórar koma að sundur gröfnum vegarköflum, einkum að vorin, þá velja þeir oft að fara út fyrir slóðann, frekar en láta sig hafa að aka yfir polla eða eftir skemmdum vegum. Við þetta breikkar vegsvæðið og landið skemmist. Auðvitað ætti að hækka vegina yfir umhverfið þannig að hægt sé að komast yfir. Skipulagsyfirvöld og samtök umhverfissinna berjast á móti hugmyndum um að vegir séu uppbyggðir, þannig að í raun eru þessir aðilar að standa vörð um slæma umgengnismenningu, sjónarmið sem ég á erfitt með að skilja.“ Páll beinir orðum sínum því næst að jöklum landsins. 

Nýta raforkuna til að minnka kolefnisspor

Páll snýr sér síðan að orkumálunum. „Á svipuðum nótum vil ég benda á að jöklar landsins eru orkubúnt. Þar er ís sem bíður þess að bráðna og renna til sjávar. Á leiðinni missir það stöðuorku, sem er notuð að hluta til í dag til raforkuframleiðslu. Raforku sem nýtist til að knýja samfélagið. Auðvitað ætti það að vera markmið að nýta þessa orku sem mest og best og þannig minnka kolefnisfótspor, ekki bara okkar sem þjóðar, heldur í víðara samhengi. Þarna er auðvitað að eiga sér stað sóun, sem enginn vill ræða og því síður að meta umhverfisáhrif þessarar sóunar.“ 

Engin neyð á hálendinu

Talið beindist í framhaldi af því að framkomnum hugmyndum um friðun svæða og miðhálendisþjóðgarð. Páll kveðst aldrei hafa hitt manneskju sem ekki vilji vernda miðhálendið. Hugmyndir séu samt fjölbreyttar og þar standi hnífurinn í kúnni. „Þessi þróun þarf að taka mið af fleiru en að vernda lækjarbakka eða láta vegi liggja ofan í landslagi. Þarna tel ég að hugsa þurfi út frá hagsmunum náttúrunnar, ekki þröngum hagsmunasjónarmiðum eins og verið hefur undanfarið, hvort sem um er að ræða sjónarmið umhverfissinna, útivistarfólks eða stofnanasinna. Í dag er engin neyð á hálendinu, hvorki vegna skipulagsmála eða framkvæmda, en loftslagsváin verður sýnilegri með hverju árinu. Þar er augljós neyð að birtast. Verri veður, stærri flóð í ám og lækjum og vegaslóðar að grafast ofan í landslagið og mynda ljót sár. Hér þarf að taka meiri tillit til hugmynda um meðalhóf í verndun og nýtingu auðlindanna og auðvitað landsins alls, þá sérstaklega hvernig má nýta auðlindir svæðisins til að flýta fyrir og styðja við orkuskipti í sem víðustu samhengi. Það þarf að bæta samgöngumannvirki þannig að þau skemmist ekki af völdum úrkomu og leysingavatns.

Offorsið er skaðlegt

Offorsið í þessum málaflokki tel ég að hafi verið skaðlegt umhverfi og náttúru landsins og sagan muni fljótt staðfesta þá tilfinningu mína að nýleg mannaskipti í Umhverfisráðuneytinu séu það besta sem gerst hefur á síðari árum í umhverfismálum hérlendis. Þarna sér maður klókindi forsætisráðherra að hafa náð að gera hrossakaup með því að skipta á málaflokki í ógöngum annars vegar og áhrifum á sviði velferðarmála, uppgræðslu lands og nýtingu auðlinda til matvælaframleiðslu hins vegar,“ segir Páll að lokum.

You may also like...