Matthildur og Sigvaldi íþróttamaður Seltjarnarness 2021 í kvenna- og karlaflokki

Sigvaldi Eggertsson körfuknattleiksmaður og Matthildur Óskarsdóttir kraftlyftingakona.

Kjör íþróttamanns Seltjarnarness 2021 í karla- og kvennaflokki fór fram nýverið og var það í 29. skipti en það var fyrst haldið 1993. Kjörið er í umsjón íþrótta- og tómstundanefndar Seltjarnarness, sem vill með kjörinu vekja athygli á gildi íþrótta, öflugu íþróttastarfi á Seltjarnarnesi og verðlauna sérstaklega afreksíþróttamenn úr hópi bæjarbúa. 

Sjö tilnefningar bárust nefndinni þetta árið. Jafnframt voru veitt verðlaun til landsliðsfólks, ungs og efnilegs íþróttafólks auk þess sem bikarmeistarar voru sérstaklega verðlaunaðir. Einnig voru veitt verðlaun fyrir félagsstörf.

Íþróttamenn Seltjarnarness 2021 eru Sigvaldi Eggertsson körfuknattleiksmaður í karlaflokki og Matthildur Óskarsdóttir kraftlyftingakona í kvennaflokki.

Matthildur Óskarsdóttir hefur æft kraftlyftingar með Kraftlyftingafélagi Reykjavíkur í 8 ár og áður stundaði hún fimleika með Gróttu. Hún varð heimsmeistari ungmenna í klassískri bekkpressu í -84 kg flokki þegar hún lyfti 117.5 kg sem er einnig Íslandsmet í opnum flokki. Hún hefur 4x fengið brons verðlaun á heimsmeistaramótum og silfur á EM í bekkpressu. Matthildur á 31 Íslandsmet bæði í unglinga og fullorðins flokki sem enn standa og hefur sett 107 Íslandsmet í gegnum tíðina.

Matthildur stundar nám í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands, er í nýliðastarfi björgunarsveitarinnar Ársæl auk þess sem hún stundar fjallgöngur, skíði og hjólreiðar af krafti.

Sigvaldi Eggertsson hefur æft körfubolta frá 5 ára aldri, lengst af með KR en er ÍR-ingur þetta keppnistímabilið, áður lék hann með úrvalsdeildarliðinu Obradoiro CAB á Spáni, einni af sterkustu deildum í heimi. Á síðasta ári var Sigvaldi valinn 4x í lið umferðarinnar í Subway deildinni og 2x besti leikmaður umferðarinnar. Hann var að auki valinn besti ungi leikmaður meistaraflokks ÍR og besti sóknarmaður. Það sem af er á yfirstandandi tímabili hefur Sigvaldi verið í lykilhlutverki hjá ÍR-ingum skilað 15 stigum að meðaltali í leik og 6 fráköstum.

Sigvaldi hefur leikið með öllum yngri landsliðum, unnið fjölmarga Íslands- og bikarmeistaratitla. Hann æfir nú með A-landsliði Íslands og bíður spenntur eftir tækifæri þar. Sigvaldi er metnaðarfullur íþróttamaður og stefnir að verða í fremstu röð í sinni íþróttagrein og er góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur.

Tilnefnd til íþróttamanns Seltjarnarness 2021.
Fv. Sigvaldi Eggertsson, Matthildur Óskarsdóttir, Hannes Grimm, Bríet Kristý Gunnarsdóttir og Katrín Helga Sigurbergsdóttir. Á myndina vantar Pétur Theodór Árnason og Inga Þór Ólafsson.

Tilnefnd til íþróttamanns Seltjarnarness 2021:

• Ingi Þór Olafson – golf

• Bríet Kristý Gunnarsdóttir – hjólreiðar

• Matthildur Óskarsdóttir – kraftlyftingar

• Sigvaldi Eggertsson – körfuknattleikur

• Katrín Helga Sigurbergsdóttir – handknattleikur

• Hannes Grimm – handknattleikur

• Pétur Theodór Árnason – knattspyrna

You may also like...