Fjögurra skrefa flokkun úrgangs
Með samræmingu og meiri þéttleika grenndarstöðva myndi endurvinnsla aukast og öllum íbúum yrði kleift að flokka á sama hátt en nýjar lagareglur um meðhöndlun úrgangs taka gildi 1. janúar 2023. Því er óhjákvæmilegt að breyta hirðu úrgangs á höfuðborgarsvæðinu.
Lagt hefur verið til að sveitarfélögin innleiði nýjar aðferðir við flokkun úrgangs á höfuðborgarsvæðinu í skrefum og kynni þau rækilega fyrir íbúum með umsjón Sorpu auk þess sem áríðandi sé að þau undirriti viljayfirlýsingu um samvinnunna sín í milli. Þetta er meðal þess sem fram kemur í tillögum starfshóps um samræmingu úrgangsflokkunar á höfuðborgarsvæðinu.
Í því sambandi verði komið uppi neti stærri og smærri grenndarstöðva á svæðinu í öruggri göngufjarlægð og í alfaraleið sem væri ætlað að taka við gleri, skilagjaldsskyldum umbúðum, málmi og textíl. Þá er gert er ráð fyrir að smærri stöðvunum verði dreift um svæðið með um fimmhundruð metra radíus en stærri stöðvarnar allt að kílómetra. Auk framangreinds yrði tekið á móti pappír, pappa og plasti á þeim stöðvum. Þá hefur verið lagt til sveitarfélögin úthluti íbúum sérstökum bréfpokum til að tryggja söfnun lífræns eldhúsúrgangs. Þetta þýðir að ný fjögurra flokka skipting verði tekin upp og við heimili verði settar upp skiptar tunnur fyrir lífrænan eldhúsúrgang, blandað sorp auk pappírs og plasts.