Ráðherra heimsækir Náttúruhúsið í Nesi
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra heimsótti nýlega Náttúruhúsið á Seltjarnarnesi, þar sem framtíðaraðsetur Náttúruminjasafns Íslands verður til húsa, og heilsaði upp á starfsfólk safnsins. Með ráðherra voru í för Rúnar Leifsson sérfræðingur hjá ráðuneytinu, Auður B. Árnadóttir fjármálastjóri og Ásta Sigrún Magnúsdóttir upplýsingafulltrúi.
Forstöðumaður safnsins, Hilmar J. Malmquist, kynnti bygginguna, starfsemi safnsins og þau viðfangsefni sem unnið verður með í sýningarhaldi á nýja staðnum, en stefnt er að því að vígja nýju höfuðstöðvarnar á árinu 2023.
Hilmar færði ráðherranum að gjöf vandaða ljósmynd af hvalablaði Jóns Guðmundssonar lærða sem var uppi 1574 til 1658, en það er blað með teikningum af 19 nafngreindum hvölum og rostungi, og eru sumar teikningar líklega þær elstu sem vitað er um af viðkomandi hvalategund. Ekki er loku fyrir það skotið að beinagrind af stórhveli verði á meðal sýningargripa, en inntak sýningarinnar í Náttúruhúsi í Nesi verður hafið og sú líffræðilega fjölbreytni sem þar er að finna.