Garðheimar á nýjan stað í Mjóddinni

Öll Garðheima stórfjölskyldan kom saman til að fagna og þrjár kynslóðir tóku saman fyrstu skóflustunguna.

Fyrirtækið Garðheimar mun flytja úr norður Mjódd í sjálfa Mjóddina. Garðheimar eru eins og flestir þekkja staðsettir í Norður Mjóddinni norðan verslunarmiðstöðvarinnar. Um árabil hefur legið fyrir að flytja þyrfti starfsemi fyrirtækisins vegna fyrirhugaðra byggingaframkvæmda við nýtt íbúðahverfi í Breiðholti. Nú hefur verið fundin farsæl lausn á því máli samanber fréttatilkynningu frá Garðheimum. 

Fimmtudaginn 10. mars, 2022 rann upp langþráður dagur hjá okkur í Garðheimum þegar fyrsta skóflustungan að nýjum höfuðstöðvum Garðheima var tekin. Leitin að reit fyrir nýjar höfuðstöðvar hófst vorið 2016 þegar okkur var tilkynnt að búið væri að endurskipuleggja núverandi lóð Garðheima í þágu þéttingu byggðar. Nú loksins sex árum síðar höfum við fengið úthlutað lóð við Álfabakka 6 og hyggjumst opna þar að ári liðnu. Það var öll Garðheima stórfjölskyldan sem kom saman til að fagna og voru það þrjár kynslóðir sem tóku saman fyrstu skóflustunguna. 

Fallegasta garðyrkjumiðstöðin

Garðheimar hafa fengið frábæra samstarfsaðila með sér í vegferðina og erum við sannfærð um að úr verði ein fallegasta garðyrkjumiðstöð sem reist hefur verið. Hönnun hússins hefur verið í höndum PK arkitekta, Ferils verkfræðistofu, Landslags, Hafstudio og hollenska fyrirtækisins Smiemans, en þeir sérhæfa sig í byggingu garðyrkjumiðstöðva út um allan heim. Um er að ræða 7000 fm stálgrindarhús ásamt útisölusvæði á 20.000 fermetra lóð sem liggur við rætur Seljahverfisins og niður að Reykjanesbrautinni. Mikið hefur verið lagt upp úr því að gera húsið eins umhverfisvænt og kostur er. Á lóðinni verða blágrænar ofanvatnslausnir, grasþak yfir hluta hússins, vökvunarkerfi sem safnar regnvatni til að vökva plöntur í sölu, o.s.frv. Fyrirtækið var stofna af Gísla Hinrik Sigurðssyni og Jónínu Sigríði Lárusdóttur 1999. Í dag hafa börn þeirra þeirra Gísla og Jónínu þau Sigurður Björn, Kristín Helga, Olga Björney og Jóna Björk tekið við rekstrinum og starfa þar öll saman undir stjórn Kristínar Helgu Gísladóttur, framkvæmdastjóra.

Garðheimar munu flytja úr norður Mjódd í sjálfa Mjóddina.

You may also like...