Íbúar við Framnesveg ósáttir við Veitur

– verki sem ljúka átti í júní enn ólokið –

Bráðabirgðafylling vegna framkvæmda við Hringbraut. Á myndinni sér inn í Framnesveginn til norðurs. 

Íbúar við Framnesveg eru orðnir þreyttir á framkvæmdum við götuna sem hafa staðið yfir frá því snemma í vor. Íbúarnir segjast hafa fullan skilning á framkvæmdum og lagfæringum. Annað mál sé hversu langan tíma þær taki. Þetta er ekki nýtt þegar Veitur eiga í hlut. Margir minnast enn framkvæmdahraða þegar neðsti hluti Hverfisgötu var endurnýjaður og gatan var einn opinn skurður í meira en mánuð yfir hásumarið án þess að hönd væri lögð að verki.

Freyr Rögnvaldsson blaðamaður sem býr við Framnesveg hafði samband við Veitur til að spyrjast fyrir um framgang málsins og hvort Veitur ætli að taka sig saman í andlitinu og ljúka verkinu innan tíðar. Hann fékk þau svör að opnum skurði verði lokað fljótlega en íbúar taka loforðum Veitna með fyrirvara í ljósi fenginnar reynslu af framkvæmdahraða þeirra. Freyr spurði í bréfi sínu hvort Veitur ætli að láta Framnesveg í Vesturbænum standa sundurgrafinn langt fram á vetur eða hvort ætlunin sé að ganga frá framkvæmdum þar svo sómi sé að. Hann fylgdi bréfi sínu eftir með hringingu í Veitur þar sem ábyrgðarmaður framkvæmdanna gaf loforð um að skurðinum yrði lokið innan tíðar. Íbúar taka því loforði með fyrirvara að fenginni reynslu.

Í frétt Morgunblaðsins frá því um mánaðamótin mars apríl kemur fram að Vetur muni endurnýja lagnir hitaveitu og rafveitu við Grandaveg, Framnesveg, Hringbraut og Sólvallagötu á tímabilinu apríl fram í júní 2022. Gönguleiðir á svæðinu muni raskast hluta verktímans. Þrengt verði að umferð við Hringbraut til móts við Framnesveg en ekki lokað en tímabundnar lokanir verði á Framnesvegi. Í þessari frétt segir að verkið standi yfir frá apríl og fram í júní. Nú er liðið vel á september og verkinu ekki lokið. 

You may also like...