Velheppnuð bæjarhátíð

Bæjarhátíð Seltjarnarness fór fram dagana 26. -28. ágúst sl. og var ekki annað að sjá og heyra en að bæjarbúar og aðrir gestir hafi kunnað vel meta þá fjölbreyttu viðburði sem boðið var upp á alla helgina tengt menningu, mannlífi og útivist. 

Veðrið skartaði sínu fegursta og bauð meir að segja upp á logn í Gróttu þegar að fjölmenni sótti þangað Fjölskyldudaginn í Gróttu. Flestir gáfu sér góðan tíma í eyjunni enda margt um að vera, vöffluilmurinn lokkandi og pylsurnar góðar hjá Soroptimistaklúbbnum sem stóð í ströngu við að baka og grilla. Opið var upp í vitann fyrir gesti að njóta útsýnis í allar áttir og Spiderman fangaði athygli allra þegar hann sýndi listir sínar og klifraði vitann upp og niður. Margrét Arnar lék létta og ljúfa tóna á harmonikku um alla eyju og Húllastelpan bauð upp á mikið húllafjör. Í Fræðasetrinu rannsökuðu margir spenntir lífríki sjávarins undir leiðsögn Þorkels líffræðings, hönnunarsýning Helgu R. Mogensen í Vitavarðarhúsinu, Finndu mig í fjöru, var einstök og í Albertsbúð var vöfflukaffi og föndur auk þess sem Friðrik Vignir bauð upp á söngstund. Virkilega gaman hversu vel gestir í Gróttu nutu fjörunnar, eyjunnar og félagsskaparins við aðra bæjarbúa á fjölskyldudeginum.

Aðrir viðburðir bæjarhátíðarinnar voru einnig fjölskylduvænir og vel sóttir. Hress hópur skellti sér í sjósund með þeim Maju og Gróu, félagarnir í BMX BRÓS buðu upp á frábæra BMX sýningu og þrautabraut fyrir ofurhuga. Hægt var að spegla sig í Speglaskúlptúr á gönguleiðinni út að Snoppu og glerlistakonan Sigrún Ólöf tók á móti sýningargestum á sýningu sína BROT í Gallerí Gróttu alla helgina. Það var fjör í fjölskyldugolfinu á Nesvöllum, nýju inniaðstöðu golfklúbbsins, kirkjugestir keyptu brakandi ferskt grænmeti eftir uppskerumessuna og sirkussýningin Glappakast í Bakkagarði féll í kramið hjá ungu kynslóðinni. 

Hápunktur bæjarhátíðarinnar hjá mörgum var svo Bæjargrillið á Vallarbrautarróló þar sem stemningin einstök en um 600 manns á öllum aldri hafði þar gaman saman, söng og spjallaði. Íbúahópurinn sem bar hita og þunga af framkvæmdinni á svo sannarlega þakkir skyldar en engir viðburðir verða til að sjálfu sér og umstangið fyrir og á eftir er mikið. Hamborgarar og aðrar veitingar seldust nær upp, börnin skemmtu sér konunglega með andlitsmálningu á leiksvæðinu. Guðrún Árný söngkona stýrði fjöldasöng og Bjartur Logi tók svo við með gítarinn og góð lög. Hátíðin fór svo sannarlega vel fram og virtust allir skemmta sér hið besta eins og myndirnar sýna.

You may also like...