Mögnuð umbreyting – tákn fyrir nýja tíma
— Verðlaunatillaga um breytt Lækjartorg —
Lífið er fjörugt á Lækjartorgi
löngum er skyggja fer.
Fljóð með nettan fót
fara á stefnumót
og finna hann einmitt hér.
Löngum má sjá á Lækjartorgi
lífsgleði sérhvert kvöld,
hróp og hlátrasköll,
hávær óp og köll
og hér predika bæjarins postular fjöldanum píslir og syndagjöld.
Löngum má sjá á Lækjartorgi
lífsins gleði og sorg.
Bílar bruna hjá,
blása og vald sitt tjá
í vorri veglegu borg.
En lítil stúlka á Lækjartorgi
lítur um öxl sér hljótt.
Angar aftanblær
örar hjartað slær.
Hvort man hún ekki sakleysið sem hann rændi frá henni í nótt.
Þeir sem komnir eru vel yfir miðjan aldur muna eflaust eftir því þegar Gestur Þorgrímsson myndlistarmaður og leikari söng um lífið á Lækjartorgi. Um miðja síðustu öld var Lækjartorg einn aðal miðpunkturinn í Reykjavík. Um það lágu leiðir inn og út úr miðborginni. Miðja verslunar var þar. Við Austurstræti og Laugaveg. Höfnin skammt undan með þeim hafnarmannvirkjum og hafnarstarfsemi sem var fyrir tíma Sundahafnar. Inn- og útflutningur fór þá um gömlu höfnina. Þarna var mannlíf þeirra tíma og oft iðandi. Þarna hittist fólk líka á kvöldin eins og Gestur söng um.
Síðan eru liðin mörg ár og Lækjartorg hefur í orðsins fyllstu merkingu mátt muna fífil sinn fegurri. Borgin óx og dreifðist. Verslun og viðskipti fóru víðar og líkt fór um mannlífið. Borgaryfirvöld misstu áhugann á Lækjartorgi sem einhverjum miðpunkti mannlífsins. Ef til vill hélst það í hendur við áhugaleysið sem skapaðist um Miðborgina. Hún varð afskipt. Horft var í aðrar áttir. Múlinn, Kringlumýri og byggð inn með Sundum risu upp. Athafnasvæðin þöndust út meðan Miðborgin sat eftir. Þótt sjónum hafi aftur verið beint að Miðborginni og uppbygging hafin þar hefur torgið við Lækinn staðið að mestu autt um lengri tíma. Gömlum banka var breytt í dómhús. Helst sást til lögreglubíla að flytja grunaða sakmenn fyrir dómara eða til réttarhalda. Önnur umferð og viðdvöl var takmörkuð.
Efnt til samkeppni
Allt þar til nú. Hvað kemur til. Fjórða mars s.l. voru kynntar hugmyndir og tillögur um endurbyggingu og framtíðar hlutverk Lækjartorgs. Forsaga þess er að Reykjavíkurborg og Félag íslenskra landslagsarkitekta efndu til hönnunarsamkeppninnar árið 2021 og var auglýst eftir tillögum sem hefðu rými fyrir fólk að leiðarljósi. Markmið samkeppninnar var að fá fram frjóar og áhugaverðar hugmyndir um hönnun Lækjartorgs og nærliggjandi gatna.
Samkeppnissvæðið náði yfir Lækjartorg, Lækjargötu frá Hverfisgötu að Austurstræti, Austurstræti frá Lækjargötu að Ingólfstorgi og Bankastræti frá Þingholtsstræti að Austurstræti.
Niðurstaða dómnefndar
Dómnefnd komst að þeirri niðurstöðu að tillagan Borgarlind eftir Sp(r)int Studio og Karrens en Brands uppfylli flestar áherslur samkeppnislýsingarinnar. Hún gefi torginu og aðliggjandi gatnarýmum nýja vídd og nýtt og spennandi hlutverk í hjarta borgarinnar. Í frétt frá Reykjavíkurborg segir að tillagan sé allt í senn djörf, hlýleg og rómantísk. Hún beri með sér hugmyndaauðgi, sterka fagurfræðilega sýn, og næmni fyrir umhverfi og staðaranda. Hún lyfti Lækjartorgi upp á spennandi og áhugaverðan hátt. Hún flétti saman nútímann og söguna samhliða því að styrkja hlutverk Lækjartorgs sem vettvang fjölbreyttra athafna og mannlífs. Sveigjanleiki, leikgleði og vel útfærð rými á torginu fela í sér ótal möguleika og tækifæri fyrir margvíslega viðburða á öllum árstímum eins og segir í umsögn dómnefndar.
Almannarýmið mikilvægasta verkefnið
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði fundinn eftir kynninguna. Hún sagði almannarýmið eitt mikilvægasta verkefnið sem við eigum saman. Þar koma allir saman óháð því hver við erum og hvaðan við erum að koma. Þetta er rými þar sem við mætumst og kynnumst öðru fólki. Hún sagði að almannarými hafi átt undir högg að sækja í borgum víða um heim. Þess vegna sé svo mikilvægt að rækta það og tryggja nánd þess við stofnanir samfélagsins.
Mögnuð umbreyting – tákn fyrir nýja tíma
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri óskaði verðlaunahöfum til hamingju með glæsilega tillögu. Hann þakkaði öllum hlutaðeigandi fyrir vinnu sína og sömuleiðis forsætisráðherra fyrir samstarfið. „Mér fannst svo snjallt að stilla þessu upp sem púsli en þetta púsl hefur einfaldlega vantað. Þarna kemur svo margt saman. Mér finnst þessi magnaða umbreyting borgarinnar vera líka tákn fyrir nýja tíma. Þegar kemur að umbreytingu borgarinnar, grænum áherslum til framtíðar, kolefnishlutlausu samfélagi og því að gefa fólki raunverulegt val í samgöngumálum, virkum samgöngumálum, þá stöndum við ekki bara saman í dag heldur til framtíðar.“ Hann sagði að um samstarf ríkis og borgar væri að ræða og að þetta vera langtímaverkefni sem kallaði á úthald, staðfestu og stefnufestu. „Þetta rammar svo mikið inn af þessum þáttum sem skipta máli,“ sagði Dagur.
Frá um miðja 19. öld
Lækjartorg á sér langa sögu. Torgið hafði veigamikinn sess í borgarlífinu um langa hríð. Því var gefið nafn árið 1848 en snemma á 19. öld var ákveðið að hafa opið svæði vestan Lækjar andspænis Stjórnarráðshúsinu. Almennur siður var á meðal bænda að tjalda bæði á Lækjartorgi og Austurvelli þegar þeir heimsóttu höfuðstaðinn. Fyrsti útifundurinn sem haldinn var á torginu var árið 1909 til að mótmæla brottvikningu Tryggva Gunnarssonar úr bankastjórastarfi við Landsbankann. Síðan hefur myndast hefð fyrir hinum ýmsu samkomum og útifundum, torgsölu og öðrum árstíðabundnum viðburðum. Einn þekktasti útifundur sem haldinn hefur verið á Lækjartorgi er Kvennafundurinn sem haldinn var 24. október 1975 og rötuðu myndir af þeim viðburði í fréttamiðla víða um heim.
Inngangur að nánasta umhverfi
Með hinni nýju verðlaunatillögu er kynnt hugarfarsbreyting gagnvart torginu og möguleikum þess í borgarmiðjunni. Samkvæmt henni mun torgið verða einskonar inngangur að nánasta umhverfi; Austurstræti, Lækjargötu, Hverfisgötu og Laugavegi. Umbreyting Lækjartorgs mun verða eitt af stóru skerfunum í endurreisn Miðborgarinnar. Lífið sem Gestur söng um á Lækjartorgi á ef til vill ekki afturkvæmt í sama ljósi enda um ákveðna lýsingu á samfélagi þess tíma að ræða. Litlum vafa er þó undirorpið að mannlífið muni koma aftur í nýjum tíðaranda.