Vill Dagur að borgin leysi lóðina til sín

— Ef ekkert gerist í Vesturbugt —

Vesturbugt er hið hlið Slippsins. Beðið hefur verið eftir framkvæmdum í fjögur ár en ekkert gerist.

Ekkert bólar á framkvæmdum á lóðinni við Vesturbugt. Töluvert hefur verið fjallað um fyrirhugaða uppbyggingu á reitnum í fréttum undanfarin ár. Snemma á árinu 2018 keypti Kaldalón sig inn í félag sem heitir Vesturbugt og þar með að þessu verkefni. Í fréttum kom þá fram að framkvæmdir gætu hafist síðar á því ári. Tveimur árum síðar kom fram í fréttum bæði Morgunblaðsins og Stöðvar 2 að farið væri að styttast í framkvæmdir. Búið væri að breyta skipulagi og fjölga íbúðunum á reitnum. Þá var gert ráð fyrir að framkvæmdir hæfust innan tíðar, búast mætti við fyrstu íbúðunum á markað um mitt árið 2023. Þetta hefur ekki gengið eftir.

Þetta kom til umræðu á opnum fundi um húsnæðismál sem Reykjavíkurborg stóð fyrir á dögunum. Þar sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að ef þeir aðilar sem standa að fyrirhugaðri uppbyggingu við Vesturbugt færu ekki að hefja framkvæmdir færi borgin að leysa lóðina til sín aftur. Dagur sagði að þetta lægi inni í félagi sem heitir Kaldalón. Forsvarsmenn þeirra segjast alltaf vera að fara af stað og borgin er að gera smá breytingar og annað slíkt. „Þetta verður að fara af stað. Annars förum við að leysa þessa lóð til okkar aftur. Það verður bara að vera þannig. Við viljum að sú húsnæðisuppbygging sem er í pípunum og fólk tekur mið af í sínum áætlunum gangi eftir,“ sagði borgarstjóri í erindi sínu á árlegum fundi um húsnæðisuppbyggingu í Reykjavíkurborg.

You may also like...