Hyggst breyta efri hæðunum í miðborgaríbúðir

– Þorpið vistfélag keypti JL húsið –

JL Húsið við Hringbraut var byggt 1948 og hefur lengi verið tákn í borgarmynd Vesturbæjarins.

Búið er að selja JL húsið við Hringbraut. Kaupandi er Þorpið vistfélag en seljendur eru Myndlistarskólinn í Reykjavík og Íslandsbanki. Þorpið vistfélag ehf. er í jafnskiptri eigu Áslaugar Guðrúnardóttur og einkahlutafélagsins 2S, fjárfesting og ráðgjöf en það félag er í 100% eigu Sigurðar Smára Gylfasonar. Áslaug er eiginkona Runólfs Ágústssonar sem er titlaður framkvæmdastjóri þróunar. 

Með kaupunum er ætlunin að breyta efri hæðum hússins í fjölbreyttar miðborgaríbúðir. Jákvæð afstaða  skipulagsfulltrúa mun liggja fyrir og einnig drög að uppbyggingarsamningi milli Þorpsins og Reykjavíkurborgar. Gert er ráð fyrir að íbúðirnar verði frá um 50 fermetrum að stærð upp í rúmlega 100 fermetra. Einnig er gert ráð fyrir að breyta bílastæðum sunnan við húsið í skjólgott grænt svæði sem mun nýtast bæði íbúum og Vesturbænum í heild.  

Húsið var byggt árið 1948 af Vikurfélaginu hf. sem vörugeymsla og skrifstofuhús. Vikurfélagið varð síðar Jón Loftsson hf. sem húsið var síðar kennt við. Arkitekt hússins er Sigmundur Halldórsson og er húsið í síðfunkis stíl. 

You may also like...