Nýr flygill keyptur í sal Tónlistarskólans

Sólveig Kristjana Hafstein píanónemandi og Silja Björk Baldursdóttir kennari við Bösendorfer flygilinn sem hefur staðið sína plikt í 30 ár í  Tónlistarskólanum.

Nýverið var tekin ákvörðun um að festa kaup á nýjum flygli inn í sal Tónlistarskólans en ríflega þrjátíu ár er síðan að núverandi konsertflygill var keyptur. Sá flygill er af tegundinni Bösendorfer og hefur verið aðal tónleikahljóðfæri skólans, í einleik og samleik. Mjög var vandað til valsins á sínum tíma og raunin varð sú að fyrstu árin eftir kaupin sóttust píanóleikarar eftir að halda tónleika í sal Tónlistarskólans sem og að taka þar upp hljómplötur. 

Flygillinn hefur þjónað hlutverki sínu vel þessa áratugi en nú er svo komið að hann er orðinn mjög slitinn eftir mikla og stöðuga notkun. Fyrir nokkru var því ljóst að endurnýjunar væri þörf og bæjarstjóra gerð grein fyrir stöðu mála. Nú á vormánuðum var svo samþykkt í bæjarráði að ráðast í kaup á nýju hljóðfæri. 

Ákveðið var að leita til Víkings Heiðars Ólafssonar píanóleikara um aðstoð við val á nýjum konsertflygli en svo skemmtilega vill til að hann er búsettur á Seltjarnarnesi ásamt fjölskyldu sinni. Að þessu sinni verður keyptur flygill frá Steinway & Sons og munu þau Víkingur Heiðar og Aðalheiður Eggertsdóttir, deildarstjóri píanódeildar, fara til Hamborgar í haust til að velja sérstaklega hljóðfæri sem hentar sal skólans og þeirri notkun sem starfsemi skólans kallar á. Þetta nýja hljóðfæri verður mikil lyftistöng fyrir Tónlistarskólann, nemendur hans og allt tónlistarlíf á Seltjarnarnesi.

You may also like...