Old boys Gróttu vann Pollamótið
Old boys Gróttu bar sigur úr bítum í öðlingadeild, keppni þeirra elstu á Pollamóti Þórs og Samskipa í knattspyrnu á dögunum sem fór fram á Akureyri. Mikil spenna var fyrir síðustu umferð í deildinni en Grótta vann sinn leik 10:1 eftir að staðan var 3:1 í hálfleik. Öll enduðu liðin jöfn að stigum en Grótta vann mótið á markamun.
Þór Sigurgeirsson sem nýlega tók við sem bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, mætti með sínum mönnum á mótið. Hann hefur raunar jafnan mætt á Pollamótið, oftast sem leikmaður, en lét það ekki aftra sér að meiðsli kæmu í veg fyrir að hann gæti spilað að þessu sinni. Þór vakti af þessu tilefni athygli á því að með Pollamótsbikarnum væri fyrsta kosningaloforð hans komið í hús. Garðar Guðmundsson stofnandi Gróttu hefur stýrt liðinu á öllum Pollamótum frá upphafi eða frá 1988. Það eru komin 34 ár og þetta er í annað skipti sem Grótta ber sigur úr býtum. Seltirningarnir fögnuðu líka sigri fyrir fjórum árum. Á fyrstu æfingu Gróttu undir stjórn Garðars voru tveir liðsfélagar á verðlaunapalli nú, heilum 55 árum síðar, og enn spila þeir undir styrkri handleiðslu Garðars. Þeir eru Franz Ploder og fyrirliðinn Ólafur Garðarsson.