Er áratugur eða áratugir í nýjan flugvöll?

– eldgos gæti breytt staðsetningu –

Reykjavíkurflugvöllur.

Talsverðar umræður urðu um Reykjavíkurflugvöll í aðdraganda nýlega afstaðinni borgarstjórnarkosninga. Bar þar hæst umræður um stefnu Reykjavíkurborgar undanfarin ár um að flugstarfsemi yrði hætt í Vatnsmýrinni til að rýma fyrir nýrri borgarbyggð. Einnig þau sjónarmið samgöngu­yfirvalda að ekki verði hróflað við þeirri flugstarfseminni sem þar fer fram fyrr en að henni hafi verið fundinn annar staður og þá nær höfuðborgarsvæðinu en Keflavíkurflugvöllur. Fyrirhuguð byggð í Skerjafirði tengdist þessu þar sem þau sjónarmið komu fram að hún gæti truflað flugöryggi. 

Saga fyrirhugaðra breytinga á notkun Reykjavíkurflug­vallar og flugumferð á sér nokkurn að­draganda. Málið hefur verið til umræðu á milli borgar og ríkis í einhverju ferli í áratug. Þann 1. mars 2013  undirrituðu þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra og borgarstjóri samkomulag um sölu lands í eigu ríkisins til Reykjavíkurborgar. Þetta var á þeim tíma þegar unnið var að skipulagningu byggingar­reitar vestan Öskjuhlíðar, á svonefndu Valssvæði. Af þeim sökum þurfti að leggja eina af þremur brautum flugvallarins af. Suðvestur brautina svokölluðu, braut 06/24. Landsölumálið fór fyrir dómstóla þar sem ríkið tregðaðist við að standa við samkomulagið. Í dómi Hæsta­réttar var sala á landinu dæmd lögleg og umræddri flugbraut var lokað án þess að merkjan­legan skaða hlytist af.

Flugvallarskilyrði í Hvassahrauni

Næsta skref í málefnum Reykjavíkurflugvallar var stofnun stýrihóps ríkisins, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group sem hafði það markmið að kanna og meta nokkra staði fyrir nýjan innanlandsflugvöll á höfuðborgarsvæðinu. Fékk stýrihópurinn heitið Rögnunefndin eftir formanni hans Rögnu Árna­dóttur fyrrum dómsmálaráðherra og núverandi skrifstofustjóra Alþingis. Stýrihópurinn vann eftir þeim tilmælum að flugstarfsemi myndi hverfa úr Vatnsmýrinni. Niðurstaða hópsins var að hag­kvæmast myndi vera að byggja nýjan flugvöll í Hvassa­hrauni sunnan Hafnar­fjarðar. Nefndin lagði til að flug­vallarskilyrði í Hvassahrauni yrðu fullkönnuð með nauðsynlegum rannsóknum og að samhliða verði náð samkomulagi um að rekstraröryggi Reykjavíkurflug­vallar í Vatnsmýri verði tryggt á meðan að nauðsynlegur undirbúningur og, eftir atvikum, framkvæmd­ir við nýjan flugvöll færu fram. Síðan hefur lítið gerst. Hugsanlega að einhverju leyti vegna Kovid faraldur­sins þegar flugsamgöngur nánast lögðust af um tíma. Nú hafa borist fréttir af því að tilraunir með aðflug að Hvassahrauni séu hafnar.

Eldgos gæti breytt myndinni

Þótt rætt hafi verið um innanlandsflugvöll í upphafi sem leyst gæti Reykjavíkurflugvöll af hólmi liggja engar ákvarðanir fyrir um hvort um stærri framkvæmd gæti orðið að ræða. Hugsanlega annan millilandaflugvöll sem létt gæti álagi af Keflavíkurflugvelli. Frá þeim tíma að Rögnunefndin starfaði hefur Reykjanesskaginn vaknað eftir 800 ára þögn. Eldgosið norðvestan Grinda­víkur á liðnu ári er flestum í fersku minni. Núna streymir kvika upp af miklu dýpi undir Reykjanesi og safnist fyrir í láréttum laggangi. Páll Einarsson jarðfræðingur telur ljóst að kvikuhreyfingar séu ekki hættar og þess vegna verði að búast við að kvika geti aftur leitað upp á yfirborðið. Eldgos geti aftur brotist út. Páll segir myndina þó ekki endilega sýna líklegastan gosstað. Mestar goslíkur séu í sprungu­sveiminum sem liggur út frá þessu svæði, til norðausturs eða til suð­vesturs. Þetta vekur upp spurningar um tvo flugvelli – jafnvel tvö millilandaflugvelli á Reykjanesi. Eldvirkni gæti breytt myndinni.

Áratugur eða áratugir í nýjan flugvöll

Fyrirhuguð byggð í Skerjafirði hefur valdið skoðanaskiptum varðandi Reykja­víkurflugvöll. Innan­ríkisráðuneytið og Isavia hafa lagt áherslu á að hugsanlega þurfi að fresta Skerjafjarðarbyggðinni sem kunni að raska flugöryggi Reykjavíkurflugvallar. Innviðaráðuneytið tilkynnti í bréfi til borgarstjóra í síðasta mánuði að hverskyns aðgerðir af hálfu borgarinnar, sem skerði rekstraröryggi vallarins, séu í andstöðu við tveggja ára gamalt flugvallarsamkomulag vegna Hvassa­hrauns. Talsmenn fyrri borgar­stjórnarmeirihluta hafa lagt mikla áherslu á að hefja uppbygg­ingu Nýja Skerjafjarðar sem allra fyrst og hafna því að byggingar þar skerði rekstraröryggi Reykja­víkurflugvallar. Reykjavíkurborg svarað ráðuneytinu og þar var fullyrt að hvorki flugöryggi né rekstrar­öryggi vallarins eigi að vera stefnt í hættu. Ótvírætt sé að upp­bygging nýja Skerjafjarðar gangi ekki í berhögg við samkomulagið. Ekki er útséð um hvernig þessu máli lyktar en ljóst er að í það minnsta áratugur eða eða jafnvel áratugir eru í að nýr flugvöllur líti dagsins ljós. Á meðan er nokkuð ljóst að flogið verður úr Vatnsmýrinni.

You may also like...