Erum að gera vöggu veitnanna í Elliðaárdal sýnilega
– – segir Birna Bragadóttir í spjalli við Breiðholtsblaðið – –
Rafstöðin við Elliðaár eða Elliðaárstöðin varð 100 ára á síðasta ári. Eftir að raforkuframleiðslu var hætt í Elliðaárdalnum og í tilefni af 100 ára afmæli Elliðaárstöðvar var blásið til hugmyndasamkeppni þar sem markmiðið var að gera mannvirki OR í Elliðaárdalnum aðgengileg almenningi og varpa ljósi á þátt veitnanna í þróun borgarsamfélagsins. Hönnunarhópurinn Terta sigraði samkeppnina og framkvæmdir hófust í október 2020.
Birna Bragadóttir var í framhaldi af því ráðin forstöðukona Elliðaárstöðvar. Birna er með MBA próf frá Háskólanum í Reykjavík og hefur starfað sem stjórnendaráðgjafi fyrirtækja. Hún var framkvæmdastjóri Sandhótel og starfaði við uppbyggingu hótelsins við Laugaveg. Birna starfaði jafnframt um langt skeið við mannauðs-, þjónustu- og starfsþróunarmál bæði hjá Icelandair og Orkuveitunni. Breiðholtsblaðið heimsótti Birnu í Elliðaárstöð á dögunum og forvitnaðist um þetta verkefnið.
Starfið tengist náttúru og útivist
Birna var fyrst innt eftir því hvernig hún fékk áhuga á þessu verkefni og hvers vegna hún tók starfið að sér. Hún kveðst sjálf vera mikil útivistarmanneskja og þegar hún hafi séð þetta starf auglýst hafi áhugi hennar vaknað. Í því gæti hún sameinað reynslu af fyrri störfum og áhugamál sín. Birna starfaði lengi að mannauðsmálum og í ferðaþjónustu. „Mér fannst þetta strax vera ótrúlega spennandi verkefni sem myndi geta sameinað það sem ég hef verið að gera, virkjað fólk og nýtt áhuga minn og reynslu úr ferðaþjónustunni. Ég hef líka stundað útivist markvisst síðustu árin og hef sérstaklega gaman af því að skora á sjálfan mig á þeim vettvangi. Ég hef til dæmis farið tvisvar yfir Vatnajökul endilangan á gönguskíðum og synt Ermarsundið í boðsundi. Starfið tengist áhuga mínum á hreyfingu og þá einkum úti í náttúrunni. Við það bættist svo áhugi minn á orkumálum ásamt hönnun og nýsköpun. Svo hef ég gaman af fólki og nýjum hugmyndum. Svona verkefni vinnst ekki nema í góðu samstarfi, bæði við hagsmunaaðila og nágranna.“
Vagga veitnanna
Elliðárstöð sem tekin var í notkun árið 1921 er í hópi fallegustu bygginga í Reykjavík. Að utan er stöðin stílhrein, með rauðu bárujárnsþaki og bogadregnum gluggum, og hafa ófáir gestir á orði að hún minni helst á kirkju. Þegar inn er komið blasir við stórglæsilegur vélasalur, eins og þeir þekkja sem skoðað hafa. Vandað var til verka og stórhuga fólk fór í að virkja og koma lýsingu á borgina sem þá var innan við 20 þúsund manna samfélag. Hugmyndin um að virkja var talsvert umdeild á sínum tíma og rætt um hana en það tók aðeins átján mánuði frá því að ákvörðunin var tekin að hrinda henni í framkvæmd. “Við tölum stundum um Elliðaárdalinn sem vöggu veitnanna. Saga Orkuveitunnar tengist Elliðaárdalnum órjúfanlegum böndum. Hér er ekki aðeins fyrsta rafveitan. Hér á vatnsveitan einnig uppruna sinn. Vatnsupptaka hófst hér í Elliðaánum árið 1909, en þar var tekið yfirborðsvatn áður en grunnvatnsupptaka hófst í Gvendarbrunnum sem þótti heilnæmara. Svo erum við með jarðhitann hér. Hér eru einnig margar af borholum hitaveitunnar sem enn eru í notkun. Litlu rauðu húsin sem margir vita ekkert af.”
Skógræktin á sér sína sögu
“Skógræktin á sér líka sína sögu í Elliðaárdalnum. Fyrsta skógræktarferðin hingað í dalinn var farin árið 1951. Fyrir þann tíma var Elliðaárdalurinn bara móar og mýrar. Skógurinn hér er því manngerður. Það var falleg hugsjón starfsfólks rafmagnsveitunnar, þessi hringrásar hugsjón sem er svo mikilvæg, sem var upphaf þessarar skógræktar. Að við nýtum náttúruna eins og við gerðum á þessum tíma og nýtum vatnið til að virkja og búa til rafmagn á sjálfbæran hátt. Starfsfólk rafmagnsveitunnar vildi gefa til baka og hingað var farið í miklar skógræktarferðir á hverju ári.”
Danski kóngurinn átti veiðiréttinn
Við gengum um rafstöðvarhúsið og Birna bendir á markverða hluti. “Hér er gamla aðfallspípan og hér eru túrbínurnar. Það er ártal á fyrstu tveimur sem var kveikt á. Þær voru smíðaðar árið 1920 og Kristján X Danakonungur og Alexandrina drottning komu hingað til lands til þess að vígja rafstöðina og ræsa hana. Hér var vandað vel til verka og byggingin er enn eins og hún var árið 1921 en aðeins var bætt við endann á stöðvarhúsinu til þess að koma stóru túrbínunni, þeirri sem síðast var sett upp. Virkjunin framleiddi ekki mikið. Hún gat framleitt um þrjú megavött. Fljótlega kom í ljós að hún var ekki nægilega stór til að mæta þeirri orkuþörf sem var til staðar og því var farið að horfa í kringum sig eftir nýjum virkjanakostum og beindust augu manna að Soginu.“ Birna bendir á klukku sem hangir á vegg í stöðvarhúsinu. “Þessi klukka er gjöf frá Kristjaníu sem er móðurborg Oslóar höfuðborgar Noregs 1921. Hún gengur enn og slær og ég var að trekkja hana síðast í morgun. Eitt hundrað ára gömul klukka í fullu lagi, tímalaus hönnun sem endist.” Birna bendir á myndir frá fyrsta tíma virkjunarinnar. Þar á meðal mynd af Kristjáni X þar sem hann var að veiða í Elliðaánum. Danski konungurinn átti veiðiréttinn í ánum allt fram að 19 öld.“
Gera veiturnar sýnilegar
Elliðaárdalurinn var sveit á þessum tíma. Engin byggð þótt einhver sumarhúsabyggð risi þar að mestu utan skipulags sem var ekki til á þeim tíma. “Hér var búið um starfsfólk sem starfaði við virkjunina,” heldur Birna áfram og bendir á stöðvarstjórahúsið. “Þar bjuggu þrjár fjölskyldur og nú verður þetta hús gert að heimili veitnanna. Hugmyndin er að halda þessu eins og heimili en þar ætlum við að gera veitunum skil. Gestir fá að kynnast því hvernig allar veiturnar þræðast inn í og í gegnum veggi og gólf hússins og síðan út í hið stóra, niðurgrafna kerfi lagnanna. Þá erum við að tala um rafveituna, kalda og heita vatnið, fráveituna og síðan ljósleiðarann. Mitt verkefni er að gera veiturnar sem eru ósýnilegar undir okkur öllum og eru okkur grunnur að lífsgæðum sýnilegar og fræða almenning og þá ekki síst ungmenni um mikilvægi þessara þátta samfélagsins. Við munum leggja áherslu á að fá skólabörn hingað og fræða þau um auðlindirnar sem eru ómissandi hluti af daglegu lífi; kalda vatnið úr krananum, orkuna sem kemur úr árstraumnum eins og rafmagnið til að hlaða símana. Við lítum einnig á útisvæðið sem skapandi leiksvæði þar sem hægt er að fræðast um veiturnar. Við lítum á þessar lífæðar samfélagsins og náttúruna sem eina heild. Þetta tengist allt. Tengir okkur saman og eru einnig mikilvægar fyrir okkur og framtíðina. Við vonumst til að geta farið að taka á móti skólahópum með haustinu.”
Leiksvæði, skrúðgarður og veitingaþjónusta
Birna röltir áfram um svæðið með komumanni. “Hér erum við að gera leiksvæði. Það er ekki alveg tilbúið en erum að leggja lokahönd á verkið. Hér er líka fallegur skrúðgarður. Honum verður haldið eins og hann er. Mér skilst að þessum stóra hlyn sem er hér hafi verið plantað árið 1921. Ég frétti það frá afkomendum fólks sem bjó í starfsmannahúsinu.” Fleiri hús standa á lóðinni sem byggð voru á árdögum virkjunarinnar. Birna bendir á neðstu húsaþyrpingu. “Hér voru smiðja, fjós og hlaða. Vegna þess að þetta var upp í sveit þurfti að vera með búskap. Fólk hljóp ekki út í mjólkurbúðina. Það þurfti að fara í fjósið. Hér verður komið upp veitingaþjónustu þar sem gestir dalsins geta sest niður eftir gönguferðir eða hjólatúra – jafnvel eftir góða veiði í ánum, fengið sér kaffisopa og eitthvert kruðerí. Við hugsum leiksvæðið hér sem skapandi fyrir krakka. Hér mun vatn verða látið renna út um allt og búið er að undirbúa regnvatnstjörn á svæðinu.” Birna bendir á skúlptúr sem er endurgerð af Elliðaárstíflunni og segir að volgt vatn renna og sprautast upp þar sem krakkar geti sullað og leikið sér. “Hér verður líka salernisaðstaða og nestisaðstaða fyrir fólk sem kýs að koma með nesti. Fólk getur farið í lautarferð með fjölskylduna hingað.” Birna segir að Leikhópurinn Lotta hafi verið með sýningar á rafstöðvarsvæðinu. Þau verða á túni skammt frá byggingunum og ætlunin er að fleiri hópar verði á svæðinu. Þar á meðal sirkusinn Hringleikur. “Allt verður þetta tengt orku og vísindum með sköpunargleðina að leiðarljósi. Tengt svæðinu og sögunni.”
Gufuborinn Dofri settur upp
Birna bendir á hnullunga sem komið hefur verið fyrir. Segir þá gamla borkjarna sem settir hafa verið upp. Síðan sé ætlunin að setja gufuborinn Dofra upp en með honum var borað fyrir heitu vatni í Reykjavík. Búið er að steypa plan undir hann. “Hér fær hann sitt framtíðarheimili auk þess sem höggbor verður settur upp. Þarna verður kjörið tækifæri til þess að fræða fólk um hitaveituna sem voru önnur orkuskipti okkar. Fyrstu orkuskiptin hófust með rafveitunni. Síðan kom hitaveitan og útrýmdi olíu- og kolakyndingum og nú eru þriðju orkuskiptin að hefjast sem eiga sér stað í samgöngum.” Turn stendur við endann á skrifstofubyggingunni. Birna segir að þar hafi verið spenniverkstæði og með því að opna hann verði komið viðburðarými. Jafnvel megi setja upp leiksýningar og annað í þeim dúr í turninum.
Gestgjafar dalsins
Næst liggur leiðin upp á aðra hæð í húsi sem hýsti straumskiptastofuna sem tengdi rafstöðina í Elliðaárdal við Sogsvirkjunina á sínum tíma. Þar hefur Birna komið upp lítilli gestastofu og býður upp á kaffi. Hún segir að áfram verði unnið við húsið þegar útisvæðin hafi verið kláruð. Það sé síðari tíma mál. Forgangsröðun sem unnið er eftir sé með þeim hætti. “Ég og mitt teymi erum meira og minna hér í dalnum. Vinnuaðstaðan okkar er hér og við tökum að okkur hlutverk gestgjafa dalsins. Þetta er að taka á sig mjög skemmtilega mynd og á eftir að verða bæði skemmtilegt og ekki síður fróðlegt þar sem fólk getur heimsótt dalinn bæði sér til fróðleiks og einnig til skemmtunar í mestu útivistarperlu borgarinnar.” Birna leggur áherslu á hversu Elliðaárdalurinn er orðinn miðsvæðis í borginni. Þangað liggja leiðir úr flestum byggðum og hverfum. Ótrúlega mikil forréttindi séu fólgin í því að eiga svo fallegan borgargarð með laxveiði, skíðaíþrótt og aðra fjölbreytta íþróttastarfsemi. „Svo eigum við góða nágranna í Árbæjarsafninu og Hitt húsið er hér á móti. Ég trúi því að fólk eigi eftir að læra að meta dalinn enn frekar og það sem hann hefur og mun hafa upp á að bjóða í framtíðinni.”