Þetta er draumastaða

– segir Sigurrós María Sigurbjörnsdóttir bólstrari –

Sigurrós María á vinnustofunni.
Myndir Steinn.

Mér líður mjög vel í Vesturbænum,“ segir Sigurrós María Sigurbjörnsdóttir bólstrari. Hún er ein af fáum konum sem lagt hafa þetta fag og starf fyrir sig. Hún hefur komið sér fyrir á Vesturgötu 55, í húsnæði sem fyrirtækið Kórall var áður. Þar starfrækir hún bólstrunarstofu eða bólsturverkstæði eins og hún kallar það á heimasíðu sinni. Eiginmaður hennar Steinn Steinsson hönnuður er með vinnuaðstöðu sína á sama stað. Hann segist í raun og veru geta verið hvar sem er við vinnu sína og hann kunni ágætlega við sig í horninu hjá konu sinni. Sigurrós hellti upp á kaffi og spjallaði við Vesturbæjarblaðið á dögunum.

„Ég er ekki upprunnin Vestur­bæingur þótt ég kunni vel við mig hér. Ég kem úr Laugarnesinu þar sem ég gekk í Laugarnes- og Laugalækjarskóla, Steinn maðurinn minn er gróinn Vesturbæingur og við byrjuðum búskapinn miðsvæðis í borginni, í litlu bakhúsi við Þórsgötuna. Svo fluttum við hingað í Vesturbæinn. Það er ákaflega þægilegt að vera hér. Nálægðin er mikil. Við búum í nágrenni við vinnuna og dæturnar eru í Vesturbæjarskóla og á leikskólanum Drafnarsteini. Við þurfum lítið sem ekkert að nota bílinn dags daglega. Að þessu leyti er þetta draumastaða. Getur ekki verið betri.“

Vestast í Vesturbænum þar sem sólin súkkar í hafið og býður góða nótt. Þar er vinnustofa Sigurrósar Maríu.

Hef alltaf haft áhuga á handverki

En hvað kom til að hún lagði bólstrunina fyrir sig. “Ég held að það hafi verið áhuginn á handverki. Ég var alltaf mikill föndrari í mér. Að fást við eitt og annað í höndunum og fannst að bólstrunin gæti verið spennandi starf. Ég var búin að prufa ýmislegt áður en ég fór í Tækniskólann í húsgagnasmíði. Ég fór í húsgagnasmíði vegna þess að nám í bólstrun var ekki í boði. Ekki var þó auðvelt að komast á samning að námi loknu. En ég var svo heppin að ég kannaðist við Loft Þór Pétursson húsgagnabólstrara í Bólsturverki. Ég hafði samband við hann og hann var til í að gefa mér tækifæri og ég fór í læri hjá honum. Þannig komst ég í bólstrun eins og ég hafði alltaf ætlað mér. Ég var þar við nám í tvö ár og tók svo sveinspróf. Gaman er að segja frá því að ég lauk við sveinsstykkið gengin með yngri dóttur mína 36 vikur. Ég tók mér smá fæðingarorlof og starfaði svo í rúm tvö ár hjá Lofti og tók að mér ýmis verkefni. Svo kom til tals að hann tæki nýjan nema og ég vissi að mig langaði til að vera með mitt eigið verkstæði.“

Löguðum til og breyttu

Sigurrós segist því hafa farið að huga að hentugu húsnæði. „Ég datt fljótlega ofan á þetta hér við Vesturgötuna. Held það hafi verið í apríl eða maí 2020 sem ég sá að þetta húsnæði var til sölu. Hér hefði fyrirtækið Kórall sem margir þekktu verið til húsa um árabil. Eigandi þess var farinn að draga saman í störfum og var að flytja út. Þetta hentaði mér og okkur fullkomlega. Við þurftum að aðlaga rýmið aðeins að okkar þörfum. Tókum niður nokkra létta veggi og opnuðum fremri hluta húsnæðisins þar sem við sitjum núna. Verkstæðið sjálft er þó lítið breytt því hér hafði verið verkstæði lengi áður. Þetta er kannski ekki alveg eins og hefðbundið bólsturverkstæði. Steinn er með vinnuaðstöðu hér í fremra rýminu en hann þarf bara eitt skrifborð fyrir tölvuna. Það fer eðlilega meira fyrir mér sem er að fást við plássfrek húsgögn, stóla, sófa og annað því um líkt.“ Steinn eiginmaður Sigurrósar snarast inn. Er að koma af fundi. Smellir tölvunni í dokkuna og fer að huga að kaffivélinni. Stór og myndarleg kaffivél þar sem hægt er að gera ýmsar kaffitegundir. Mætti halda að þau væru með kaffihús í vinnustofunni. „Við erum miklar kaffimanneskjur,“ segir Sigurrós á meðan Steinn lætur renna í nýjan bolla handa komumanni. Ilmandi kaffi ameríkanóilmur fyllir vitin og dropinn rennur ljúflega niður.  

Umhverfisvakningin kemur við sögu

Sigurrós segist ekki vera eina konan í bólstruninni. „Við erum og höfum verið fleiri. Elínborg Jónsdóttir var ef til vill einna þekktust. Hún var á Álftanesi lengi og síðast í Garðabæ en er fallin frá fyrir aldur fram.“ En hefur húsgagnabólstrurum ekki fækkað á umliðnum árum? Sigurrós tekur undir það. “Í langan tíma voru fáir nýliðar í stéttinni svo það hefur myndast gap. Nú eru margir af eldri bólsturum farnir að draga saman seglin, svo mikið er að gera hjá þeim sem starfa við fagið. Ég er ekki með tölu um fjölda húsgagnabólstrara í dag en gæti trúað að þeir teldu um tvo tugi. Flestir eldri karlmenn þótt konur hafi aðeins verið að sækja inn í þetta starf. Fólk er aftur farið að huga að eldri og gömlum húsgögnum í meira mæli, taka þau úr geymslu og láta gera þau upp. Fólk er líka að fá húsgögn frá foreldrum og jafnvel öfum og ömmum. Mörg eldri húsgögn falla undir að vera klassísk og oft er um góða hönnun að ræða. Mér finnst skemmtilegast að fást við gömlu húsgögnin. Þau eiga sér oft sögu og hafa merkingu fyrir fólk. Umhverfisvakningin kemur líka við sögu. Fólk er farið á hugsa meira um umhverfið, hvað megi nýta og jafnvel að gera nýtt úr gömlu. Ég tel það heyra til umhverfisbóta að láta gera upp gömul húsgögn.“

Enginn verkefnaskortur

Sigurrós segir að sér hafi verið tekið vel. Fólk komi og spyrjist fyrir. Bæði um kostnað og hvað sé hægt að gera. „Fólk kemur víða að en mér finnst áhuginn mikill hér í nágrenninu. Fólk er að koma gangandi með húsgögn til mín í bólstrun. Þetta byggist að einhverju leyti á því að maður þekkir mann. Fólk sér nýuppgerð húsgögn hjá vinum og kunningjum. Svo nota ég netið mikið til samskipta. Er með síðu á facebook og Instagram. Myndir á samfélagsmiðlunum vekja athygli og stundum sleppi ég að setja inn færslur ef mikið er að gera og erfitt að bæta við verkefnum. Ég fæ oft gusu af fyrirspurnum ef ég set eitthvað á netið. Nei – ég þarf ekki að kvarta vegna skorts á verkefnum.“

Skemmtileg hönnun, stólinn minnir svolítið á Ísland, endurgerður að hætti Sigurrósar Maríu.
Gamlir hlutir fá nýtt útlit og nýja merkingu hjá Sigurrós Maríu.

You may also like...