Framkvæmdir stöðvaðar
– Vesturgata 67 –
Byggingarleyfi vegna fjögurra hæða húss Félagsbústaða á Vesturgötu 67 sem borgaryfirvöld veittu í janúar á þessu ári hefur verið fellt úr gildi. Verið er að byggja fjögurra hæða hús með sex íbúðum og starfsmannarými á lóð þar sem áður var talsvert minna hús.
Þrátt fyrir andstöðu nágranna sem sögðu hið nýja kassalaga hús á skjön við götumyndina og þar með ekki uppfylla skilmála deiliskipulags réðst borgin í framkvæmdir við hið nýja hús. Félagsbústaðir hf. höfðu á árinu 2020 fengið deiliskipulagi breytt svo í stað húss upp á tvær og hálfa hæð má byggja fjögurra hæða hús. Rök í málinu eru að öll aðliggjandi hús og öll hús í nærliggjandi götum eru með mænisþaki, en á Vesturgötu 67 á að reisa hús sem er kassalaga með flötu þaki. “Það passar alls ekki inn í götumyndina,“ segir um sjónarmið þeirra sem kærðu málið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þá segir einnig að telja verði að götuhlið Vesturgötu 67 muni stinga verulega í stúf við aðliggjandi hús sem öll eru með mænisþaki og reglubundna gluggasetningu,“ segir í umfjöllun úrskurðarnefndarinnar.