Yoga pop up og margt fleira á Aflagranda
– vetrarstarfið að fara af stað á Aflagranda og Vesturgötu –
Áætlað er að hafa dag tileinkaðan yoga og líkamlegri og andlegri heilsu hjá Samfélagshúsinu Aflagranda 40 í október. Hugmyndin er að nýta þetta rými sem við höfum til að kynna fyrir Vesturbæingum hversu fjölbreytt yoga er og að allir geti fundið sér hreyfingu við hæfi óháð aldri og getu.
Nú er verið að leita að leiðbeinendum til að taka þátt í yoga pop upinu í október svo endilega heyrið í okkur ef þið eruð með annað hvort áhugaverð námskeið eða að selja eitthvað áhugavert sem tengist þeim lífsstíl. Við viljum fá til liðs með okkur einstaklinga sem eru menntaðir í yoga, pilates, yin jóga, hugleiðslu, reiki o.fl. Þessir einstaklingar myndu fá eina til tvær klst. hver fyrir opinn tíma þar sem þeir geta kynnt sína kennslu og fengið þannig gott svigrúm til að kynna sig. Ef einstakling vantar húsnæði til að hafa námskeið í vetur er hægt að skoða með það hjá okkur á Aflagranda hvort það sé pláss í dagskránni. Þrír salir verða í boði, einn stór sem getur rúmað um 20+ manns og svo tvo minni sem rúma svona um það bil 10 manns hvor. Iðkendur þurfa sjálfir að koma með dýnur og teppi.
Þessi viðburður verður ókeypis fyrir iðkendur og munum við auglýsa þetta bæði á facebook, instagram, vef Morgunblaðsins og á fleiri miðlum til að fá sem flesta til að koma og kynna sér hvað er í boði. Ef þú/þið hafið áhuga á að vera með okkur á þessum frábæra degi þá hafðu samband við okkur í Samfélagshúsinu í síma 411- 2707 (Sigrún) eða komdu og hittu okkur og skoðaðu húsnæðið.
Viðburðir, veislur og annað á Aflagranda
Í samfélagshúsinu er ætlunin að hafa viðburði fyrir Vesturbæinga svo sem flóamarkaði, spilakvöld, veislur, sýningar og allt það sem Vesturbæingar kalla eftir. Öflugt starf er í húsinu á opnunartíma frá klukkan 9:00 til 15:45 en einnig er starf í húsinu eftir lokun, og er þá unga fólkið meira með völdin. Leitast er við að bjóða upp á fjölbreytt starf og þægilega samveru í hlýju umhverfi. Hér geta allir fundið eitthvað við hæfi og jafnvel farið út fyrir þægindarammann og prófað eitthvað alveg nýtt. Endilega ef þið hafið hugmyndir af starfi eða viðburði sem ykkur langar að sjá hér í samfélagshúsinu okkar, hafið samband við Sirí verkefnastjóra eða Helgu umsjónarmann félagsstarfs á skrifstofunni. Þær eru alltaf meira en til í nýjar hugmyndir og áskoranir.
Danssýning eldri borgara
Hópur frá Þorraseli – dagþjálfun aldraðra, Vesturgötu 7, hefur æft dansleikfimi frá því í vor undir stjórn Valgerðar Rúnarsdóttur sem stundar meistaranám í sviðslistum við Listaháskóla Íslands. Hún hefur starfað sem dansari og danshöfundur hérlendis og erlendis frá árinu 1998, eða allt frá því að hún útskrifaðist með BA- gráðu í samtímadansi frá Listaháskólanum í Osló.
Þetta hefur verið skemmtilegt verkefni og sýnir að eldri borgarar eru fjölbreyttur hópur sem er til í að taka nýjum áskorunum og að læra nýja hluti. Hópurinn sýndi árangurinn á sýningu í sal Listkennsludeildar Listaháskóla Íslands fimmtudag 25. ágúst.