Hef mikinn áhuga á að láta gott af mér leiða
Mirabela Aurelia Blaga er fulltrúi í sendiherraverkefni á vegum Þjónustumiðstöðvar Breiðholts. Mirabela er frá Transilvaniu í Rúmeníu en hefur búið hér á landi í tæpa áratug. Hún er lögfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og hefur gegnt ýmum störfum eftir að hún kom hingað til lands. Var meðal annars flugfreyja hjá WOW Air í um tvö ár. Nú starfar hún að aðalstarfi hjá Vinnumálastofnun og síðan að sendiherraverkefninu. Aðalverkefni hennar er að styrkja tengsl við rúmenskættað fólk sem hefur sest að hér á landi. Breiðholtsblaðið hitti Mirabela á Cocina Rodriguez eða Kaffi 111 í Gerðubergi á dögunum.
Hver er Mirabela Aurelia Blaga. „Ég er frá Rúmeníu og gegni nú sendiherra hlutverki fyrir rúmenska samfélagið hér á Íslandi. Ég er lögfræðingur, útskrifaðist á síðasta ári frá Háskólanum í Reykjavík og starfa nú sem sérfræðingur í málefnum erlends fólks á íslenskum vinnumarkaði í Alþjóðadeild hjá Alþjóðadeild Vinnumálastofnunar sem er ný deild og er markmið hennar að stuðla að og tryggja betri þjónustu við atvinnuleitendur af erlendum uppruna og að jafna möguleika þessara hópa á vinnumarkaði.“
Kom fyrst fyrir forvitni
„Ég kom hingað 2006. Ég hafði heyrt um Ísland og kom hingað fyrst og fremst fyrir forvitni og til að kynnast nýjum aðstæðum. Ég vandist landinu fljótlega þótt margt sé öðruvísi en í Rúmeníu. Ég eignaðist fjölskyldu. Íslenskan eiginmann og við eigum tvö börn.“ Mirabela kveðst hafa mikinn áhuga á að láta gott af sé leiða. Hún starfar í dag, samhliða vinnu, sem sjálfboðaliði hjá Félagi Rúmena á Íslandi eða Asociatia Romania Nordica Islanda og er ein af stofnendum þess. Síðan í fyrra tók hún við hlutverki “Sendiherra” fyrir rúmenska samfélagið hér á Íslandi í svokölluðu Sendiherraverkefni.
Myndböndin eru mikilvæg – ekki allir læsir
Hvað er sendiherraverkefnið. „Sendiherraverkefnið er samfélagsverkefni mismunandi mál-, menningar- og/eða þjóðfélagshópa og Þjónustumiðstöðvar Breiðholts. Þar er lögð áhersla á virka lýðræðislega þátttöku íbúa af erlendum uppruna, bætt upplýsingaflæði og tengsl innan hverfissamfélagsins og þá sérstaklega milli íbúa af erlendum uppruna og starfsmanna Þjónustumiðstöðvar. Nú hefur mikið af upplýsingum verið þýtt á mörg mismunandi tungumál af sendiherrum ólíkra landa og miðlað áfram. Nýlega voru gerð upplýsingar myndbönd um frístundir og frístundarstyrki fyrir börn og hvernig á að nota það. Þessi tegund af myndböndum eru mjög mikilvæg, sérstaklega fyrir fólk sem er ólæst af mismunandi ástæðum.“ Mirabela segir það staðreynd að hingað sé að koma fólk sem aldrei hafur lært að lesa þótt það kunni að virka ótrúlegt hér á landi. „Þetta er til í Rúmeníu. Einkum á meðal hópa Rómana þar sem lestrarkunnátta er ekki talin mikilvæg. En ólæst fólk kemur einnig frá fleiri löndum og landsvæðum.“
Engar upplýsingar nema á íslensku
Mirabela kom sjálf hingað til lands sem innflytjandi árið 2006. „Ég þekkti engan og fann hvergi upplýsingar á öðrum tungumálum en íslensku. Google translate var ekki valkostur þá. Þess vegna held ég að sendiherraverkefnin hafi gríðarlegt vægi fyrir samfélög af erlendum uppruna. Er frábær uppspretta upplýsinga og stuðnings. Er eins konar brú á milli stofnana og samfélaga fólks af erlendum uppruna. Ég tel mjög mikilvægt að þróa Sendiherraverkefnið enn frekar og koma þessu verkefni inn í öll sveitarfélög og stofnanir. Að mínu mati er þetta besta leiðin til að byggja upp tengsl milli samfélaga fólks af erlendum uppruna og sveitarfélaga og stofnana,” segir Mirabela.