Nýtt íþróttahús ÍR vígt
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri vígði nýtt og stórglæsilegt íþróttahús ÍR við Skógarsel. Athöfnin fór fram 27. ágúst. Parkethöllin svokallaða mun í framtíðinni þjóna sem heimavöllur bæði handknattleiks- og körfuknattleiksdeilda félagsins.
Árið hefur svo sannarlega verið viðburðaríkt hjá Íþróttafélagi Reykjavíkur en í maí var Frjálsíþróttavöllurinn vígður og í byrjun ágúst tók Reykjavíkurborg aftur við rekstri íþróttahússins í Austurbergi, sem verið hefur heimavöllur handknattleiksdeildar ÍR. Nýja parkethúsið er enn einn steinn í vörðu ÍR-inga og fögnuðu íbúar hverfisins og aðrir góðir gestir áfanganum á ÍR-deginum sem fram fór í dag. Sr. Ólafur Jóhann Borgþórsson, sóknarprestur í Seljakirkju, blessaði nýju húsakynnin og nutu gestir samveru og veitinga á meðan þeir kynntu sér svæðið og starfsemi félagsins.
Nýja húsið er á tveimur hæðum og er alls yfir 4200 fermetrar. Þar af er íþróttasalurinn um 2400 fermetrar og þar verður hægt að iðka ýmsar íþróttir, bæði æfingar og keppni, en miðað er við að kröfum til keppni í handbolta og körfubolta verði mætt. Mun húsið rúma um 900 áhorfendur.