Stórgóður árangur hjá Gróttu

– Viðtal við Kristófer Orra Pétursson og Pétur Rögnvaldsson –

Pétur Rögnvaldsson á hliðarlínunni.

Haustið hefur færst yfir bæinn. Laufin falla af trjánum, dagsbirtan hverfur fyrir kvöldmat og ró er yfir Vivaldivellinum – heimavelli knattspyrnudeildar Gróttu við Suðurströnd. Ungir iðkendur stunda æfingar af kappi eftir skóla en meistaraflokkar karla og kvenna eru í fríi eftir viðburðaríkt fótboltasumar. Sumar þar sem kvennaliðið endurheimti sæti sitt í Lengjudeildinni og karlaliðið, sem var spáð í fallbaráttu, kom öllum á óvart og náði þriðja sæti Lengjudeildarinnar. Bæði lið voru að miklu leyti skipuð ungum leikmönnum og var stýrt af ungum og tiltölulega óreyndum þjálfurum. Knattspyrnan í Gróttu heldur áfram að minna á sig eftir ævintýri síðustu ára. 

Nesfréttir mæltu sér mót við tvo unga Seltirninga sem léku lykilhlutverk hjá Gróttu í sumar – hinn 29 ára gamla Pétur Rögnvaldsson sem þjálfar kvennaliðið og hinn 24 ára gamla Kristófer Orra Pétursson sem lék í sumar sinn 100 leik fyrir félagið. 

„Það var mikill eldmóður í hópnum eftir sumarið 2021. Flestir leikmenn ákváðu að taka slaginn með Gróttu áfram og eftir fyrsta fund á nýju undirbúningstímabili var ljóst að það yrði ekki horft annað en að fara strax aftur upp um deild,” segir Pétur en Gróttukonur féllu úr Lengjudeildinni í lokaumferðinni haustið 2021. „Sú niðurstaða var vonbrigði fyrir alla sem tengdust liðinu og okkur finnst að Grótta sé félag sem eigi alls ekki að vera í neðstu deild,“ bætir Pétur við. 

Kristófer Orra Pétursson í baráttunni.

Karlalið Gróttu endaði í 6. sæti Lengju­deildarinnar í fyrra en eins og allir muna lék Grótta í fyrsta sinn í efstu deild sumarið 2020. Eftir síðasta tímabil hurfu lykilleikmenn á braut: Hákon Rafn Valdimarsson fór utan í atvinnumennsku, Pétur Theodór Árnason fór í Breiðablik og Sigurvin Reynisson tók sér hlé frá fótbolta. Sparkspekingar töldu að þessar mannabreytingar myndu reynast Gróttu þungbærar og spáðu liðinu rétt ofan við fallsætin. 

„Það var óvissa og spenna sem fylgdu síðasta undirbúningstímabili. Við vorum með nýja þjálfara og vissum kannski ekki alveg hver ætti að skora mörkin eftir brotthvarf Péturs. En fljótlega áttuðum við okkur á því að við gætum gert góða hluti. Við höfðum öskufljóta framherja og eftir að hafa breytt leikstílnum aðeins þá trúðum við því að við gætum unnið hvaða lið sem er. Það kom aldrei til greina að enda í 9. sæti þar sem okkur var spáð,“ segir miðjumaðurinn Kristófer Orri og glottir. 

Kristófer lék sinn 100. leik fyrir Gróttu í sumar líkt og tveir liðsfélagar hans. Hluti hópsins hefur spilað lengi saman svo við spyrjum hversu miklu máli það skipti fyrir lið eins og Gróttu.

 „Ég held að það sé dýrmætt fyrir öll lið að hafa leikmenn innanborðs sem brenna fyrir félagið sitt og fólkið í bænum tengir við. Við fengum marga unga stráka inn í liðið í sumar og ég held að það hafi tvímælalaust hjálpað þeim að hafa þéttan kjarna á staðnum sem gat tekið vel á móti þeim,“ segir Kristófer. 

Með bakið upp að vegg

Snúum okkur aftur að kvennaliðinu. Fyrir leiktíðina í sumar var talað um að Grótta, ÍA og Völsungur myndu bítast um efstu tvö sætin en það var hins vegar lið Fram sem kom á óvart og vann fyrstu átta leiki sína. Fljótlega var ljóst að Fram kæmist upp um deild og þá var aðeins eitt sæti laust. Eftir góða byrjun fór að halla undan fæti hjá Gróttukonum og tap gegn Völsungi í byrjun júlí þýddi að var liðið komið með bakið upp að vegg. 

„Fólk missti aldrei trúnna en það var alveg ljóst að við máttum ekki við því að misstíga okkur síðari hluta sumars,” segir Pétur og heldur áfram. „Það má eiginlega segja að við höfum spilað sjö leiki í röð, frá heimaleiknum við ÍA 22. júlí, þar sem við máttum helst ekki tapa. Auðvitað fylgdi því pressa og ég er feykilega stoltur af stelpunum því þær tókust frábærlega á við aðstæðurnar. Við vorum fyrsta liðið til að vinna Fram og sýndum svo mikinn styrk í úrslitakeppninni,” segir Pétur en í seinni umferð 2. deildarinnar léku efstu sex liðin innbyrðisleiki. Gróttukonur gerðu jafntefli við ÍA og Fram á heimavelli og unnu svo eftirminnilegan sigur á Húsavík í þriðju umferð úrslitakeppninnar. Sigur á KH í næst síðustu umferð tryggði svo sætið í Lengjudeildinni eftir að úrslit í öðrum leikjum féllu með Gróttu síðar um daginn. 

„Auðvitað hefði verið svakalega reynsla fyrir okkur öll að fara í lokaleikinn á móti ÍR með algjörlega allt í húfi. En það var mjög ánægjulegt að fá tíðindin af því að takmarkið hefði náðst. Hópurinn safnaðist saman um kvöldið og fagnaði innilega.”

Gróttustelpurnar fagna sæti í Lengjudeildinni.

Þéttur kjarni og öflugt þjálfarateymi 

Við spyrjum þá Pétur og Kristófer Orra hverju Gróttufólk megi búast við næsta sumar þar sem bæði liðin munu leika í Lengjudeildinni?

Kristófer ríður á vaðið: „Við erum með þéttan kjarna og öflugt þjálfarateymi sem hefur sýnt mikla útsjónarsemi í að sækja leikmenn í stað þeirra sem við höfum misst. Líklega verða einhverjir keyptir frá félaginu í vetur eftir góða frammistöðu í sumar en það kemur maður í manns stað. Við munum æfa eins og brjálæðingar og ætlum okkur að vera með samkeppnishæft lið sem vinnur helling af leikjum. Hverju það skilar nákvæmlega kemur svo í ljós. 

Pétur er sömuleiðis bjartsýnn fyrir fótboltasumarið 2023. 

„Ég tel að síðustu tímabil munu reynast okkur dýrmæt á næsta ári. Öll erum við reynslunni ríkari og kjarninn í leikmannahópnum hefur haldist sá sami. Við erum með nokkrar stelpur sem verða 18 og 20 ára á næsta ári en hafa spilað um eða yfir 50 meistaraflokksleiki. Það er reynsla sem þú týnir ekki upp af götunni. Við þurfum eitthvað að þétta raðirnar, tryggja að umgjörðin í kringum liðið sé með besta móti og mæta óhrædd til leiks í Lengjudeildina. Svo vonumst við auðvitað til að sjá sem flesta Seltirninga í stúkunni. Við erum þakklát fyrir þann stuðning sem við fengum í sumar, sérstaklega frá krökkum í yngri flokkum Gróttu, en betur má ef duga skal“ 

Kristófer tekur undir þetta: „Það er geggjað að spila á Vivaldi þegar stúkan er full en það gerðist nokkrum sinnum í sumar. Mér finnst við alltaf ná í góð úrslit þegar fólk fjölmennir. Ég er sannfærður um að það verður raunin næsta vor.“

Við kveðjum Pétur og Kristófer Orra og höldum leiðar okkar út í haustkvöldið. Áður en langt um líður verður meistaraflokksfólkið okkar byrjað að æfa á ný – í öllum veðrum og vindum og sjá fyrir sér heimaleiki á Vivaldivellinum í hyllingum. Maður finnur eiginlega ham­borgarailminn við tilhugsunina.

Þjálfarateymi meistaraflokks karla í knatt­spyrnu hjá Gróttu.

You may also like...