Öll starfsemi Háskóla Íslands á sama svæði

– – Bændahöllin í nýjan búning – –

Bændahöllin er raunar eina höllin sem byggð hefur verið hér á landi fyrir utan viðskipta- og hótelturna á nokkrum stöðum. Hún setur mikinn svip á Vesturbæinn ólíkt turnbyggingum síðari tíma.

Nú er unnið að breytingum og endurbótum á Bændahöllinni á Melunum. Húsið hefur verið selt Háskóla Íslands og mun í framtíðinni hýsa hluta af starfsemi Félagsstofnunar stúdenta og allt Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Verið er að breyta 115 hótelherbergjum í stúdentaíbúðir með litlum eldhúskrók, en aðrir hlutar hússins eða um 70 prósent af flatarmáli þess fer undir starfsemi Menntavísindasviðs og upplýsingasviðs við Háskólann. Menntasviðið mun flytja úr húsnæði gamla Kennaraháskólans við Stakkahlíð. Með því flyst öll meginstarfsemi Háskóla Íslands á sama svæði í Vesturbænum. Áætlað er að kostnaður við breytingar á húsnæðinu nemi þremur milljörðum króna, en kaupverð þess á sínum tíma var hálfur fjórði milljarður króna. Gert er ráð fyrir að húsið verði tekið í notkun í áföngum. Fyrstu stúdentarnir munu flytjast þangað um áramót, en kennsla hefst þar haustið 2024 með hátt í þrjú þúsund nemendum, kennurum og öðru starfsfólki Menntavísindasviðs. Veitingasala verður áfram í Grillinu og þar sem gamli Mímisbar var á sínum tíma á jarðhæðinni. Spurning er um undir hvaða nafni þessi hallarbygging sem setur svip á Reykjavík mun ganga á komandi árum. Verður hallarnafnið látið halda sér og húsið kallað Háskólahöllin í stað Bændahallar eða mun sögunafnið halda sér en Hótel Saga var lengst af rekið í húsinu. Jón Atli Benediktsson rektor hefur látið hafa eftir sér að honum hugnist Sögunafnið vel. 

You may also like...