Grund 100 ára
Öldrunar og hjúkrunarheimilið Grund varð 100 ára 29. október sl. Grund var fyrsta heimili sinnar tegundar í Reykjavík og var leiðandi í þjónustu við heldri borgara um áratugaskeið. Auk Grundar teljast Ás í Hveragerði og Mörk í Reykjavík til Grundarheimilanna. Haldið var upp á þessu merku tímamót með afmæliskaffi. Fyrst á Mörk. Síðan var afmæliskaffi fyrir heimilismenn Grundar sem stóð í tvo daga og að lokum var blásið til afmæliskaffis í Ási í Hveragerði. Afmælinu lauk með veglegri árshátíð starfsfólks þangað sem mættu allt að 650 manns.
Í tilefni tímamótanna ritaði Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna grein á heimasíðu Grundar. Hann segir frá upphafi heimilanna sem rekja megi til líknarfélagsins Samverjans sem Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason langafi sinn hafði forgöngu um ásamt fleiri góðum mönnum. Félagið hafi haldið skemmtisamkomur og safnaði þannig fé auk þess að fá gjafafé frá Reykvíkingum. Hann segir að býlið Grund við Sauðagerðistún hafi verið keypt og tekið í notkun þann 29. október árið 1922. Grund við Hringbraut hafi síðan byggð og tekin í notkun í september 1930.
Haraldur Sigurðsson var fyrsti ráðsmaður Grundar en féll frá haustið 1934 eftir skammvinn veikindi. Gísli Páll segir að í hans stað hafi afi sinn Gísli Sigurbjörnsson verið ráðinn til að stýra Grund. Fyrst tímabundið en hann hafi síðan staðið vaktina þar í 60 ár að hann féll frá. Móðir Gísla Páls Guðrún Birna tók við Grund og var forstjóri heimilisins í 25 ár eða til 1. júlí 2019 að Gísli Páll tók við.
Óþrjótandi tækifæri
Grípum hér beint niður í grein Gísla. „Grund var lengi eina hjúkrunarheimili landsins og leiðandi í slíkri þjónustu um áratugaskeið. Afi heitinn byggði Grund upp, stofnaði til elliheimilisrekstrar í Hveragerði árið 1952 í samstarfi við Árnesinga og byggði við og bætti þar í bæ auk þess að auka verulega við húsakost við Hringbrautina. Grundarheimilin í dag eru þrjú, Grund, Ás og Mörk. Starfsemi í Mörkinni hófst árið 2010 þegar við tókum að okkur rekstur 113 rúma hjúkrunarheimilis við Suðurlandsbraut 66 auk þess að kaupa af Landsbankanum 78 íbúðir og leigja þær út til 60 ára og eldri. Sú starfsemi stækkaði verulega að umfangi árið 2018 þegar við byggðum 74 slíkar íbúðir til viðbótar þeim sem fyrir eru. Á Grund stendur til að halda áfram breytingum herbergja þannig að allir heimilismenn eigi kost á eins manns herbergi með sér baðherbergi. Þá stendur til að byggja kaffihús í suðurgarði Grundar þar sem gengið verður út frá núverandi matsal starfsmanna. Hægt verður að ganga út úr kaffihúsinu út í garð þar sem verða bekkir, runnar, blóm og tré og hægt að eiga þar notalega stund með kaffi og kleinu eða léttvínsglas.“ Gísli Páll endar grein sína á að segja framtíð Grundarheimilanna bjarta. Aldurssamsetning þjóðarinnar sé með þeim hætti að við blasi óþrjótandi tækifæri til að veita margskonar öldrunarþjónustu, jafnt á vegum hins opinbera sem og á einkamarkaði.
Hraðar þjóðfélagsbreytingar
Þjóðfélagið breyttist hratt á fyrstu áratugum 20. aldarinnar en ekki voru komin eftirlaun og ellilífeyrir. Fólk sem var þrotið að vinnuþreki átti því erfitt uppdráttar. Markmiðið með stofnun Grundar var að bregðast við þessu. Fyrstu íbúar fluttu inn dagana áður en Grund var formlega opnuð. Daginn fyrir formlega opnun sagði Morgunblaðið að sex væru þegar fluttir inn og líklega sex til viðbótar þann sama dag. Efnt var til opnunarhátíðar með fjölda ávarpa og söng. Engum var boðið með sérstökum boðsbréfum, meðal annars vegna þess að heimilið vantar enn stóla í stofurnar, en allir eru velkomnir, einkum bæjarstjórn, fátækrafulltrúar og allir styrktarmenn hælisins. Nokkrum dögum síðar sagði Morgunblaðið frá þeim ræðum sem voru fluttar. Þar var opnun Grundar tekin sem dæmi um breytt viðhorf fólks. Sigurður Jónsson, sem var settur borgarstjóri á þessum tíma, sagði að áður fyrr hefðu óvinnufærir menn orðið að deyja drottni sínum en nú kæmi slíkt ekki til greina. Sigurbjörn Á. Gíslason, einn forvígismanna að stofnun Grundar, þakkaði fyrir örlæti og góðan stuðning sem gerði kleift að opna hús sem rúmaði 22 til 23 einstaklinga. Fjárhagurinn væri ekki mjög góður en þó ekki hætta á gjaldþroti. Hann taldi þó líklegt að húsið fylltist fljótlega og að stofna yrði fleiri gamalmennahæli. Hann sagði engar reglur gilda um heimilisfólk nema kannski eina að fólk ætti að „bera hvers annars byrðar“.