Rótarýklúbbur Rvk-Breiðholt er kominn heim

Grímur Valdimarsson forseti Rótarý Reykjavík-Breiðholt, Bjarni Kr. Grímsson, umdæmisstjóri 2022 til 2023 og Sif Sigfúsdóttir ritari á 77. umdæmisþingi Rótarý á Íslandi. Grímur Valdimarsson tók við viðurkenningu fyrir hönd Rótarý Reykjavík-Breiðholt fyrir framlag til Iceland 2022 Action Summit, en klúbburinn sá um málþing á Grand Hóteli laugardaginn 17. september undir yfirskriftinni Peace and Conflict Prevention

Rótarýklúbburinn Rvk-Breiðholt var stofnaður árið 1984 og klúbbfélagar hafa hist vikulega á Grand hóteli síðastliðin ár. Það er ánægjulegt að segja frá því að nýverið breytti klúbburinn um fundarstað og fundar nú vikulega í Gerðubergi, en það eru um 20 ár síðan klúbburinn hafði aðstöðu til funda þar. Meðlimir hittast á miðvikudögum og borða saman kvöldverð ásamt því að hlusta á áhugaverð erindi sem félagar skiptast á að útvega. Auk þess sinnir klúbburinn ýmsum samfélagsverkefnum og m.a. stóð hann nýlega fyrir sjálfsstyrkingarnámskeiði fyrir 25 stúlkur í 7. bekk úr grunnskólum hverfisins.  

Á dögunum stóð Rótarýklúbburinn Rvk-Breiðholt fyrir sjálfsstyrkingarnámskeiði fyrir stelpur í sjöunda bekk í Breiðholti með stuðningi verkefnasjóðs Rótarýumdæmisins. Fimm stelpur voru valdar úr hverjum skóla hverfisins til að taka þátt í námskeiðinu þar sem Kristín Tómasdóttir fjölskylduráðgjafi og höfundur sjálfsstyrkingarbóka fyrir stelpur á öllum aldri kenndi. Á námskeiðinu var leitast við að kenna stelpum að þekkja hugtakið sjálfsmynd og þekkja leiðir til þess að fyrirbyggja að sjálfsmyndin þróist í neikvæða átt. Námskeiðið var haldið í Fellaskóla og stóð yfir í 2×2 klukkustundir.

Stelpunum fannst gaman á námskeiðinu og voru umsagnir á þennan veg:

Bara skemmtilegt, ég lærði mikið um mína eigin sjálfsmynd. Ég get allt. 

Þetta var gaman og hjálpar mjög mikið. P.s. Takk fyrir að leyfa okkur að koma. 

Þetta var frábært námskeið. Þetta var alveg gaman þótt ég kunni ekki mikla íslensku. 

Áhugasömum Breiðhyltingum af öllum kynjum og þjóðernum er velkomið að hafa samband við Sif Sigfúsdóttur í sifsigfusdottir@gmail.com ritara Rótarý Rvk-Breiðholt til að fá upplýsingar um starfið og ferli við inngöngu

You may also like...