Jólin skipta miklu máli

– segir Agnieszka Genowefa Bradel sem segir frá jólahaldi í Póllandi –

Agnieszka Bradel.

Agnieszka Genowefa Bradel er fædd Gdansk en ólst upp í Gdynia í Póllandi. Hún er er búin að vera hér á landi í 15 ár. Kom hingað árið 2007. “Móðir mín hafði flutt til Íslands. Hún kynnst íslenskum manni og settist hér að. Ég kom fyrst hingað til þess að heimsækja þau og maðurinn hennar kenndi mér fyrstu orðin sem ég lærði í íslensku. Ég hafið því fengið smá þekkingu um landið þegar ég ákvað að flytja hingað.“ Breiðholtsblaðið settist niður yfir kaffi og meðlæti með Agnieszku í bakaríinu í Mjóddinni.

“Ég kom hingað bæði til að fá mér vinnu og einnig að sækja mér menntun. Ég fann fljótt að lykillinn að því var að ná tökum á tungumálinu. Íslenska og Pólska eru ólík tungumál. Bæði dálítið flókin og fátt sem tengir þau saman. Því var ekki um annað  að að ræða en að taka íslenskuna föstum tökum.” Agnieszka talar góða íslensku en viðurkennir að erfitt hafi verið í fyrstu að aðlagast tungumálinu. En það hafi lagast fljótt eftir að hún fór að skilja málið og betur eftir að hún fór að geta tjáð sig. Agnieszka hefur starfað nokkuð fyrir Suðurmiðstöð í Breiðholti sem “sendiherra” og vinnur þá við að hafa samband við landa sína og kynna fyrir þeim möguleika og réttindi hér á landi. Sendiherraverkefnið er til að tengja  aðkomið fólk betur við samfélagið.

Hef mikinn áhuga á ferðamálum 

“Ég fór strax eftir að ég flutti hingað að leita fyrir mér um atvinnu. Ég fór í fyrstu að starfa á veitingastöðum en ætlaði mér aldrei að vera þar um alla tíð. Ég hafði áhuga á ferðaþjónustu og fór því fljótlega á ferðamálabraut til þess að læra hagnýta ferðaþjónustu. Ég fór líka í flugfreyjunám í Flugskóla Íslands og grunnnám til þess að geta starfað sem túlkur. Ég hef mikinn áhuga á ferðamálum Já – og ég get bætt við að ég fór í íslensku og bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Ég hef sótt nám í bókhaldi og síðast en ekki síst tók ég svonefnt meirapróf á bíl og fékk réttindi til þess að aka stórum bifreiðum. Núna er ég til dæmis að aka 19 mann rútu og annast meðal annars akstur með fólk sem notar hjólastóla.” Hvernig líkar henni það. “Ágætlega. Fólki finnst stundum svolítið sérstakt að kona komi akandi á svona stórum bíl. Einkum eldra fólki. En það venst því. Konur eru líka að koma inn í mun fleiri verkefni og störf á vinnumarkaði en áður var. Eitthvað sem þótti óhugsandi áður þykir sjálfsagt nú.” 

Dæmigert jólaborð í Póllandi.

Jólin skipta miklu máli

Agnieszka segist alltaf hafa haft áhuga á fjölbreyttri menningu. Ég ólst upp við það. Ættir mína liggja víða og mismunandi siðir og venjur einkenndu líf mitt. “Pólska er móðurmál pólverja. Ýmis afbrigði og mállýskur eru þó til innan tungumálsins. Heima voru alltaf talaðar tvær aðrar mállýskur fyrir utan það sem við köllum pólsku. Afi og amma kenndu mér líka ýmsar venjur sem haldist höfðu í fjölskyldunni. Þar var af ýmsu að taka.“ Talinu víkur að jólahaldi fjölskyldunnar í Póllandi. “Ég man vel eftir jólunum þegar ég var barn og unglingur. Jólahaldið var með talsvert öðrum hætti en ég hef kynntist eftir að ég kom hingað til lands. Jólin skiptu miklu máli í lífi fólks og mikið var lagt í undirbúning þeirra. Á meðan Pólverjar voru einangruð þjóð var algengt að fólk kæmi mikið saman um jólin. Bæði fyrir jólin og um sjálfa jóladagana. Þetta breyttist nokkuð eftir að Pólland fór undan oki Sovétríkjanna. Fólk fékk ferðafrelsi og þá dró úr þessum heimsóknum og samkomuhaldi. Fólk fór að ferðast stundum og meira til útlanda.” 

Félagslíf í kringum jólahaldið

Ég man þegar allt til jólanna var unnið heima. Öll matargerð fór fram á heimilinu og mikið var lagt upp úr matnum. Amma stjórnaði þessu. Hún fór á fætur um miðjar nætur til þess að undirbúa alla matreiðslu fyrir jólin. Afi sá hins vegar um vínið. Amma sá bæði um að skreyta og búa til mat. Hún vildi ekki að við værum mikið í kringum hana á meðan. Vildi sinna þessu í næði. Svo var fólki boðið að koma og njóta matar með okkur. Þetta var ákveðið félagslíf í kringum jólahaldið. Svo hittist öll fjölskyldan og borðaði saman á jóladag. Hann var hápunktur jólanna en allt jólahaldið var eiginlega ein hátíðleg máltíð. Þetta voru helstu réttirnir sem við vorum með á jólaborðinu á hverju ári. Blandaðir jólaréttir, kjöt með súrkáli, rúmneskar dumplings, rauðrófusúpa, kúlur með hvítkáli og sveppum, grískur fiskur, síld, karpi sem var aðalréttur, kuita, ostkaka og piparkökur. Það er getur verið erfitt að finna íslensk orð yfir alla rétti þar sem sambærilegur matur er ekki til hér á landi. Þetta getur verið nokkuð breytileg eftir landshlutum og svæðum en einnig eftir fjölskyldum. Eftir því hvernig jólahefðir hafa þróast á hverjum stað og tíma en grunnhefðirnar eru skyldar. Sá siður var í heiðri hafður að áður en sest var að borðum baðst fólk fyrirgefningar á því sem miður hafði orðið árinu og óskað einnig góð gengis. “Ég ætla að elska þig frá þessum degi og breyta minni hegðun.” Prestur kom líka í heimsókn fyrir jólin til að blessa heimilin og spjallaði við fólkið. Oplalek sem er þunn hvít vaffla var gefin sem tákn fyrir líkama Krists. Svipað og í fermingum hér á landi. Hvita vafflan er kölluð obláta sem merkir altarisbrauð. Líkast eru bæði orð og athöfn skyld. Þessir siðir eru komnir úr kaþólsku en trúarvitund var og er mjög rík á meðal Pólverja. Sérstaða jóladags og nætur hefur verið skrifuð í almennum viðhorfum sem lifað hafa í þjóðlegum hefðum í gegnum árin. Þessar hefðir eru sterkar þótt ýmislegt hafi breyst á síðari tímum. Einkum eftir að stjórnarfar í landinu breyttist.”

Fiskur er mikilvægur á pólskum jólaborðum.

Umhyggja fyrir náttúrunni 

Agnieszka segir að umhyggja fyrir náttúrunni hafi einkennt jólahaldið. “Hegðun heimilisins við jólaborðið hefur alla tíð verið merki um umhyggju fyrir uppskeru, miklum plöntugróðri og velgengni í starfi gestgjafans. Þetta er ríkt í fjölskyldu hefðinni og á sér ákveðnar rætur í pólsku samfélagi. En það snýr ekki allt að gróðri. Í Póllandi er einnig mikil hefð fyrir fiski og hann er hluti af jólamatnum.” Agnieszka segir að jólamáltíðir geti verið mismunandi eftir svæðum í Póllandi og einnig eftir fjölskyldum. Agnieszka víkur að jólatrénu. “Jólatréið var að sjálfsögðu sótt út í skóg. Höggvið og flutt heim og skreytt. Jólatréð var hluti af jólahaldinu líkt og hér en það voru engin gervitré.”

Undirbúningurinn og samverunnar minnisstæðust

Hvað er Agnieszku minnisstæðast frá jólahaldinu heima í Póllandi. “Allur undirbúningurinn og að fólk var að hittast. Öll vinna sem unnin var á heimilinu. En félagsskapurinn er einnig minnisstæður. Fólk hittist. Borðaði saman og naut gestrisni, sem er líka mjög minnisstætt. Þetta hefur haldist að einhverju leyti en þjóðfélagsbreytingar hafa átt sér stað.

Sumir koma bara til að afla tekna 

Margir Pólverjar hafa flust til Íslands á undanförnum árum. Margir hafa komið til þess að vinna um tíma en ekki hugsað sér að dvelja nema tímabundið. Þar er einkum um að ræða karlmenn sem koma hingað til þess að vinna tímabundið og fara heim að því loknu. Sumir eigi fjölskyldur sínar áfram í Póllandi, jafnvel eiginkonur og börn. Þeir horfi aðallega til þess að afla tekna til að halda lífinu áfram í heimalandinu. Margir koma líka til að setjast að.”

Eiga margt sameiginlegt

Fleiri hafa þó komið með fjölskyldur og sest að. Sumir hafa tengst Íslendingum fjölskyldu­böndum. Er eitthvað sérstakt sem dregur þá hingað. Agnieszka hugsar sig um. “Margt er ólíkt með Pólverjum og Íslendingum einkum þegar kemur að venjum og tungumáli en þeir eiga einnig margt sameiginlegt. Margir fjölskyldur hafa beinlínis komið til að finna sér vinnu og eignast húsnæði. Finna sér framtíð. Fólk finnur eitthvað hér sem það aðlagast og kann að meta. Fólk frá sama landi myndar oft með sér bönd eða samfélög þar sem það hittist og deilir menningu hvað með öðru. Hér hefur myndast pólskt samfélag. Pólverjar halda talsvert saman þótt þeir hafi einnig mikil samskipti við Íslendinga og blandist ágætlega. Eitt af því sem ég hef tekið mér fyrir hendur með því að verða einn af sendiherrum Suðurmiðstöðvar er að efla samskiptin enn frekar.” Kaffið er búið. Hægt hefði verið að spjalla daglangt við Agnieszku. Hún hefur frá mörgu að segja sem varpar ljósi á Pólverja og pólskt samfélag.

Jólatré skiptir miklu máli í Póllandi.

You may also like...