Elsti garður við opinbera byggingu

– Tryggvi Gunnarsson bankastjóri gerði garðinn og er grafinn þar –

Blómabeð að sumarlagi í Alþingisgarðinum.

Garðurinn við Alþingishúsið eða Alþingisgarðurinn er elsti garður við opinbera byggingu á Íslandi. Undirbúningur að gerð hans hófst með umræðu á Alþingi í ágúst 1893 skömmu fyrir þingslit. Skipuð hafði verið nefnd þingmanna til þess að móta tillögu að því hvernig ganga skyldi frá lóð Alþingis. Tillögur nefndarinnar voru um að búa til skemmtigarð fyrir sunnan þinghúsið þar sem þingmenn gætu setið og gengið sér til skemmtunar og einnig að koma upp bárujárnsgirðingu umhverfis garðinn til skjóls fyrir trjágróður. Síðan skyldi leggja steyptar hellur fyrir framan garðinn út að Austurvelli. 

Miklar umræður urðu í þinginu um tillögur nefndarinnar og í gögnum má sjá því fleygt að þær hafi líkst því að þingið hafi beyst í málfund um garðrækt en fram til þess hafði garðyrkja helst tengst ræktun matjurta. Árni Thorsteinsson var landfógeti á þessum tíma og einnig mikill frumkvöðull um garðrækt. Hann taldi margt að tillögum nefndarinnar og í skjölum sem finna má hefur komið í ljós tillögur hans að fyrirkomulagi á lóðinni eru mikið frábrugðnar endanlegri gerð lóðar. Eftir miklar umræðu samþykkti Alþingi 1.500 króna framlag til framkvæmda en fjármunirnir lágu að nokkru fyrir í sjóði.  

Tryggvi tók við framkvæmdum

Benedikt Sveinsson var forseti Alþingis á þessum tíma. Að tillögu hans var Tryggva Gunnarssyni alþingismanni falið að stjórna framkvæmdum. Tryggvi hafði þá nýlokið umsjón með byggingu brúar yfir Ölfusá við Selfoss og áður hafði hann verið byggingarstjóri við byggingu Alþingishússins. Í skjalasafni Tryggva Gunnarssonar, sem varðveitt er í Seðlabanka Íslands, kom í ljós uppdráttur með handbragði Tryggva. Þegar uppdráttur er borinn saman við garðinn eins og hann lítur út kemur í ljós að garðurinn er lítið breyttur frá þeirri hugmynd. Á síðasta ári voru liðin 110 ár síðan grunnur var lagður að garðinum en framkvæmdir við gerð hans hófust haustið 1893 og stóðu fram eftir næsta ári en var að mestu lokið haustið 1894.

Mynd af Alþingishúsinu nýbyggðu árið 1881 við hlið Dómkirkjunnar. Athygli vekur hversu húsið er nálægt yfirborði Tjarnarinnar.

Tryggvi grafinn í garðinum

Tryggvi Gunnarsson sá um framkvæmdina í upphafi og hreifst svo af starfinu að hann tók að sér að vera eins konar garðyrkjustjóri í garðinum. Fyrstu árin með öðrum störfum, þar á meðal bankastjórastarfinu, og eftir að hann hætti afskiptum af stjórnmálum og öðru veraldarvafstri varð það sumarstarf hans að sjá um hirðingu garðsins allt til dauðadags 1917. Tryggvi tók miklu ástfóstri við garðinn og óskaði eftir því að fá legstað þar að sér látnum. Öll tilskilin leyfi voru fengin til þess að koma til móts við óskir hans og er hann grafinn nærri suðurhlið garðsins miðri.

Yfir leiði hans er minnisvarði, brjóstmynd og lágmynd í stöpulinn, gerður af Ríkarði Jónssyni. Upp úr 1990 var lagt í viðhald og endurnýjun í garðinum og síðan þá er hann í umsjá garðyrkjudeildar Reykjavíkurborgar. Framan af var garðurinn aðeins opinn um helgar í fáeinar klukkustundir í senn. Fljótt kom í ljós að almenningur lagði lítt leið sína þangað. Garðurinn varð engu að síður vinsæll sem bakgrunnur í myndatökum og eru til ótal myndir frá fyrri tíð af stúdentum, kærustupörum að ekki sé talað um myndir af starfsmönnum þings, þingmönnum og þingflokkum sem gjarna stilla sér upp í garðinum.  

Heimildir.

Morgunblaðið, Ungmennavefur Alþingis, Bragi Bergsson. 2012. Almenningsgarðar á Íslandi. Ritgerð til MA-prófs. Háskóli Íslands, Hugvísindasvið.

You may also like...