Hvatningarverðlaun í Vesturbæinn
Leikskólarnir Grandaborg Gullborg og Ægisborg hlutu hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur fyrir samstarfsverkefnið Barnið sem fullgildur þátttakandi í lærdómssamfélagi. Verkefnin og viðurkenningarnar sem veittar voru hafa beina skírskotun í menntastefnu Reykjavíkurborgar og tengjast grundvallarþáttum hennar og leiðarljósum.
Þetta er í sextánda sinn sem hvatningarverðlaun fyrir leikskólastarf eru veitt en þeim er ætlað að vekja athygli á því gróskumikla skóla- og frístundastarfi sem fram fer í leikskólum borgarinnar. Markmið verðlaunanna er að veita starfsfólki jákvæða hvatningu og viðhalda og stuðla að nýbreytni- og þróunarstarfi. Verðlaunin eru viðurkenning fyrir vel unnin verk í þágu barna og staðfesting þess að starfið sé fyrirmynd annarra á því sviði sem um ræðir.
Í dómnefnd sátu Alexandra Briem formaður, Ásta Björg Björgvinsdóttir, Helgi Áss Grétarsson og Guðný Maja Riba fyrir hönd kjörinna fulltrúa. Einnig voru í dómnefnd voru þau Andrea Sigurjónsdóttir fulltrúi Félags leikskólakennara, Halldóra Guðmundsdóttir fulltrúi Stjórnenda leikskóla og Albína Hulda Pálsdóttir fulltrúi foreldra.