Pétur Theodór á láni til Gróttu
Knattspyrnudeild Gróttu, knattspyrnudeild Breiðabliks og Pétur Theodór Árnason hafa komist að því samkomulagi að Pétur Theodór spili með Gróttu á komandi tímabili. Pétur Theodór er Gróttufólki að góðu kunnur en hann er uppalinn á Nesinu og á að baki 142 leiki fyrir meistaraflokk Gróttu.
Pétur spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik árið 2011, þá aðeins 16 ára gamall. Eftir að hafa gengið í gegnum erfið meiðsli á unglingsárum og ekki náð sér almennilega á strik lék Pétur með Kríu árið 2017 og hálft tímabil 2018 en þá sneri hann aftur í Gróttu með stæl. Næstu árin var Pétur algjör lykilleikmaður í liði Gróttumanna sem komust upp um tvær deildir á tveimur árum og léku í úrvalsdeild í fyrsta sinn í sögu félagsins. Hann var markakóngur 1. deildar árin 2019 og 2021 og þá hefur Pétur tvisvar verið kjörinn íþróttamaður Gróttu.
Haustið 2021 skipti Pétur yfir til Breiðabliks og hitti þar fyrir sína fyrrum þjálfara í Gróttu, þá Óskar Hrafn Þorvaldsson og Halldór Árnason. Þegar stutt var liðið á undirbúningstímabilið varð Pétur fyrir því óláni að slíta krossband á æfingu og var því í endurhæfingu nánast allt síðasta ár. Pétur lék einn leik með Breiðablik í Bestu deild karla í október síðastliðnum en eins og kunnugt er urðu Blikar Íslandsmeistarar með yfirburðum.
Pétur er spenntur fyrir komandi tímum: ,,Ég get ekki beðið eftir því að komast aftur á völlinn og hjálpa Gróttu að ná settum markmiðum. Chris og þjálfarateymið eru að gera mjög gott starf sem hefur ekki fengið næga athygli og ég hlakka til að taka þátt. Sjáumst á Vivald.”
Pétur er ekki einungis góður liðsstyrkur innan vallarins heldur einnig utan hans enda sannur liðsmaður og fyrirmynd ungra iðkenda í félaginu. Grótta býður Pétur innilega velkominn aftur til félagsins og hlakkar til að sjá hann á vellinum í bláu.