Brú eða vinstri beygjur aflagðar
— Reykjanesbraut – Bústaðavegur —
Tvær mögulegar lausnir er til umræðu og athugunar á langvarandi vanda á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar. Valkostirnir sem lagðir eru fram varðandi gatnamótin eru annars vegar að brú eða rampur verði byggður yfir Reykjanesbrautina til þess að akandi geti tekið vinstri beygju af Reykjanesbrautinni úr jaðri Elliðaárdalsins yfir á Bústaðaveg. Hins vegar að allar vinstri beygjur á þessum stað verði aflagðar.
Báðar þessar lausnir myndu hafa í för með sér að ekki yrði þörf á ljósastýrðum gatnamótum á svæðinu. Löngum hefur verið kvartað yfir að þau tefðu umferð um Reykjanesbrautina og væru einu ljósastýrðu gatnamótin á leiðinni frá Miklubraut til Hafnarfjarðar. Á móti hefur verið bent á að nauðsynlegt sé að geta ekið af Reykjanesbraut úr suðri inn á Bústaðaveginn. Yrðu vinstri beygjurnar aflagðar myndi það skapa aukna umferð um íbúðahverfin norðan Bústaðavegar.
Umhverfismál hafa einnig mikið verið til umræðu vegna þessa og bent hefur verið á hættur af mannvirkjagerð vegna nálægðar við Elliðaárdalinn. Umhverfisþættir sem lagt verður mat á, samkvæmt matsáætlun, eru fornleifar, jarðmyndanir, hljóðvist, staðbundin loftgæði, loftslag, landslag og sjónrænir þættir, náttúruminjar, samgöngur og umferðaröryggi, útivist, vatnafar og vatnalíf. Í matsáætlun er því lýst hvernig staðið verður að rannsóknum og mati á áhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar.