Framkvæmdaáætlun Seltjarnarnesbæjar árið 2020

Bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi ætla að færa fyrirhugaðar viðhaldsframkvæmdir í stofnunum bæjarins framar á árið og nýta þannig það svigrúm til framkvæmda sem myndast við takmarkaða starfsemi stofnana í samkomubanni. Möguleikar eru til að auka stofn- og endurbótaverkefni úr fjárhagsáætlun 2020 og þriggja ára áætlun.

All margar framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Bygging sambýlis með þátttöku ríkisins. Endurbætur á gulu álmu í Mýrarhúsaskóla. Malbikunarframkvæmdir verða á Nesvegi og Lindarbraut til að auka öryggi vegfarenda. Hefja gerð hjólastígs við Nesveg í samvinnu við Vegagerðina. Gera á endurbætur á félagsheimilinu. Gert er ráð fyrr að hefja deiliskipulagsvinnu varðandi nýjan leikskóla. Nefna má viðhald á göngu- og hjólreiðastígum og flýta á viðhaldi og endurnýjun lagna. Fara á í samgönguframkvæmdir í samræmi við samgöngusáttmálann s.s. göngu- og hjólastíga og endurnýjun umferðarljósa eins og samningurinn gerir ráð fyrir. Vinna á að því að ná samningum við ríkið til að yfirtaka húsnæði bæjarins við Safnatröð fyrir Náttúruminjasafn Íslands í samráði við niðurstöðu vinnuhóps sem hafði málið til skoðunar hjá ráðuneytinu. Fjölga á störfum í sumarvinnu og vinna að því að tryggja fjölbreytt og gagnleg sumarstörf fyrir öll ungmenni á vegum Seltjarnarnesbæjar sumarið 2020. Aukin útgjöld vegna annarrar vinnu með stuðningi Vinnumálastofnunar eins og eftir hrun, sem myndi þá greiða atvinnuleysisbætur á móti þarf að skoða með ríkinu og Vinnumálastofnun. 

Skoða þarf hvernig hægt verður að styðja við Íþróttafélagið Gróttu og verja rekstur félagsins. Áfram á að vinna með ábendingar og tillögur HLH ehf., varðandi rekstur bæjarins.

Áhersla á velferð

Fjölskyldusvið verður falið að safni gögnum um þróun aðstæðna hjá einstaklingum og fjölskyldum næstu mánuði til að leggja grunn að frekari tillögugerð í samráði við hagsmunaaðila. Stofnaður verður faghópur innan sveitarfélagsins og milli sveitarfélaganna með sérstakri áherslu á börn og menntun þeirra, barnafjölskyldur, fatlað fólk, eldra fólk, atvinnulausa og viðkvæma og útsetta hópa.

Efla fræðslu og upplýsingar til fatlaðs fólks og huga sérstaklega að þeim sem eiga heimili á sambýlum. Lögð verður áhersla á velferð bæjarbúa, afkomu þeirra og að halda úti órofinni grunnþjónustu bæjarfélagsins. Myndað verði samvinnuteymi með heilsugæslunni og velferðarsviði bæjarins, auk grunn- og leikskóla til að miðla upplýsingum til bæjarbúa og sérstaklega til þeirra sem falla undir viðkvæma hópa. Lögð verður áhersla á mjög virka upplýsingamiðlun til bæjarbúa í gegnum vef bæjarins um aðgerðir og þjónustu. Bæjarráð leggur auk þess áherslu á eflingu skapandi greina og nýsköpun og tækni. Þá er lögð áhersla á að hraða uppbyggingu Bygggarðahverfisins.

You may also like...