Síðasti Selbærinn

— rætur frá landnámsöld —

Stóra Sel eins og Selsbærinn lítur út í dag. Vel var vandað til endurbyggingarinnar.

Stóra Sel er síðasti Selsbærinn sem enn stendur í Reykjavík. Húsið mun vera elsta hús í vesturbæ Reykjavíkur vestan Garða­strætis. Selsbæirnir voru tómthúsar­byggðir og voru síðast taldir fimm. Þeir voru auk Stórasels, Miðsel, Litla­sel, Jórunnarsel og Ívarssel. Minja­vernd tók Stóra Sel til eignar árið 2015 og gerði samning við Reykjavíkurborg um endur­byggingu þess. Minjavernd fékk ARGOS ehf. Arkitektarstofu Grétars og Stefáns til liðs við uppmælingar og teikningar að endurgerð. Jafnframt var fljótlega ráðist í fornleifarannsóknir bæði utan við húsið sem innan. Staðfestu þær að á þessum stað hafa verið fjölmargar fyrri byggingar, reistar úr torfi og grjóti. Meðal annars komu í ljós falleg steinlögð gólf.

Sel á sér langa sögu. Þess er fyrst getið sem seli frá jörðinni Vík árið 1367 og 1379 er það orðin sjálfstæð jörð. Sel tilheyrði Seltjarnarnesi fram til 1835 en var þá lagt undir lögsögn Reykjavíkur ásamt hjáleigunni Bráðræði. Jörðin varð síðan eign Reykjavíkur 1888. Fleiri tómthúsbýli tóku að rísa á jörð Sels á 19. öldinni. Tómthúsbýli voru býli sem ekki nutu aðstöðu til griphalds og höfðu ábúendur því ekki möguleika til að framfleyta sér af nytjum húsdýra.

Sextán fjölskyldur

Stóra sel er nú tvöfaldur steinbær, sá eini sem eftir stendur í Reykjavík. Hann var byggður í tveimur áföngum árin 1884 og 1893 en áður hafa staðið torfhús á þessum stað um aldir. Sveinn Ingimarsson, vel þekktur formaður og útvegsbóndi reisti báðar burstir Stóra Sels. Fjölmennt var oft í bænum. Árið 1910 bjuggu þar til dæmis fjórar fjölskyldur, eða alls 16 manns. Þegar Minjavernd tók húsið yfir var það skráð sem tvær eignir. Austari burstina hafði borgin eignast allnokkrum árum áður, en vestari burstina árið 2012. Húsið var þá orðið ákaflega hrörlegt og tengdar höfðu verið við það viðbyggingar.  

Selt eftir endurgerð

Áður en framkvæmdir hófust við húsið var ákveðið að gera það að einbýlishúsi. Talsverð vinna var við endurbygginguna því meðal annars þurfti að styrkja undirstöður hlöðnu veggjanna sem eftir stóðu og endurgera alla sökkla. Þurfti því að taka húsið alveg niður við framvindu. Reynt var að endurnota eins mikið af gömlu efni hússins við endurgerð þess og kostur var. Jafnframt var nýtt gamalt efni úr öðrum húsum þegar staðarefni þraut. Uppbygging hússins hófst 2017 og lauk 2019. Húsið var selt að endurgerð lokinni.   

Upphafið frá landnámi

Árið 1367 er Sel talið eign Jónskirkju postula í Vík. Að hafa í seli var búskaparlag sem er talið að hafi komið hingað frá Noregi. Þar var selstaða þekkt fyrirkomulag sem talið er að megi rekja allt aftur til járnaldar. Seljabúskapur virðist hafa verið mikilvægur þáttur í hagkerfi landnáms á víkinga öldinni. Rannsóknir í Evrópu og þá sérstaklega á seljum í Noregi hafa sýnt fram á mikilvægt hlutverk þeirra í hlutaðeigandi hagkerfum. Því hefur líka verið haldið fram að mikilvægi seljabúskapar hafi aukist á útrásartímabilinu frá 500 fyrir Krist til loka Víkingaaldar. Sel voru einskonar útibú frá bæjum og þangað var farið með búsmalann á sumrin til þess að nýta úthaga og hvíla heimahagana. Ákvæði sem varða sel er að finna í fyrstu lögbókum Íslendinga, Grágás og Jónsbók. Selja er einnig getið í máldögum kirkna frá fyrstu tíð, en þar segir hvar og hversu mikil ítök þær eiga í selförum. Selsbærinn Stóra Sel er því merkileg heimild um búskaparhætti í Reykjavík fyrri alda.

Gömul mynd af Stóra Seli. Eins og sjá má var húsið orðið hrörlegt.

You may also like...