Aðalfundir Gróttu 2023

Aðalfundir deilda og ráða Íþróttafélagsins Gróttu fóru fram í lok apríl og fóru þeir fram í hátíðarsal félagsins. Aðalfundur hófst á tónlistaratriði. Jón Guðmundsson frá tónlistarskóla Seltjarnanesbæjar kynnti þrjár stúlkur sem einnig eru iðkendur í félaginu. Þær eru Arney María Arnarsdóttir sem spilaði á þverflautu, Sólveig Þórhallsdóttir einnig á þverflautu og Eyrún Þórhallsdóttir á saxófón.

Ólafur Örn Svansson hélt um fundarstjórnina en fundurinn hófst með skýrslu Þrastar Guðmundssonar, formanns aðalstjórnar og í kjölfarið komu formenn og gjaldkerar deilda og ráða í pontu og fóru yfir starfið á árinu og rekstrarniðurstöður. Þröstur var að ljúka sínu fyrsta ári sem formaður en aðrir aðalstjórnarmeðlimir gáfu öll kost á sér til endurkjörs og er stjórnin því óbreytt. Gísli Örn Garðarsson hætti í stjórn fimleikadeildar og Fanney Magnúsdóttur kemur inn í hans stað. Gylfi Magnússon hætti í stjórn handknattleiksdeildar og Páll Gíslason í stjórn unglingaráðs handknattleiksdeildar. Þá hættu þeir Alexander Jensen og Rögnvaldur Dofri Pétursson í stjórn knattspyrnudeildar en það var fækkað í stjórninni sem er núna skipuð þeim Þorsteinn Ingasyni formanni, Hörpu Frímannsdóttur, Kristínu Huld Þorvaldsdóttur, Stefáni Bjarnasyni, Helga Héðinssyni og Hildi Ólafsdóttir. 

Gefin var út glæsileg ársskýrsla fyrir síðasta ár sem nálgast má á heimasíðu Gróttu: www.grotta.is

You may also like...