Vegleg 15 ára afmælishátíð pólska skólans

Dominika Ktarzyna skólastjóri og útskriftarnemi.

Pólski skólinn í Reykjavík hélt upp á 15 ára starfsafmæli sitt í íþróttahúsinu við Austurberg laugardaginn 27. maí sl. Um 800 manns mættu á afmælishátíðina sem var um leið útskrift nemenda. Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og sendiherra Póllands á Íslandi fluttu ávörp og forsetinn afhenti svo nemendum útskriftarskýrteini sín og viðurkenningar til þeirra nemenda sem sköruðu fram úr í náminu. 

Nemendur og kennarar fluttu ávörp, sungu, fluttu tónlist og sýndu listdans svo eitthvað sé nefnt. Að útskriftarathöfn lokinni var boðið upp á stóra afmælisköku og aðrar veitingar auk allskonar möguleika til leikja og skemmtana fyrir alla fjölskylduna. Dagskráin og framkvæmd hátíðarinnar var til mikillar fyrirmyndar og vandað til verka í öllum þáttum. Pólski skólinn starfar yfir vetrartímann á laugardögum og nýtur aðstöðu til kennslunnar í Fellaskóla. Tilgangur skólans er að skapa börnum af pólskum uppruna tækifæri til að þjálfa og viðhalda móðurmáli sínu sem eykur um leið hæfni þeirra við að tileinka sér íslensku til nota í íslensku samfélagi. Á upphafsvetri skólans voru 60 nemendur í skólanum en sl. vetur voru þeir 250. Skólastjóri er Dominika Ktarzyna og aðstoðarskólastjóri Marta Wieczorek. 

Guðni Th. Jóhannesson forseti og Gerard Pokruszyński sendiherra Póllands.
Afmæliskala var vegleg enda Pólverjar þekktir fyrir kökugerð.
Hópur yngri barna sem mætt voru til afmælisins.

You may also like...