Miklar endurbætur á Krónunni á Granda
— þetta verður allt önnur verslun, segir Alexander Kolesnyk, verslunarstjóri —
Mikil endurnýjun og víðtækar endurbætur hafa átt sér stað á verslun Krónunnar á Granda síðustu daga. Versluninni var lokað 9. ágúst sl. eftir stórútsölu. „Við náðum nánast að tæma búðina sem gaf okkur tækifæri til þess að fara á fulla ferð í umbreytingarnar,“ segir Alexander Kolesnyk, verslunarstjóri Krónunnar á Granda.
Verslunin verður sem ný þegar hún opnar 21. september. Húsnæðið var tekið í gegn og endurbætt í hólf og gólf. Þá hefur búnaður hennar einnig verið endurnýjaður. Ný kælitæki verða tekin í notkun sem eru umhverfisvænni en hin fyrri, þar sem mikil áhersla er lögð á bæði umhverfisvænt umhverfi og vöruúrval sem breytist nokkuð. Alexander segir að aukið verði við vöruúrvalið, einkum í grænum og umhverfisvænum vörum. Hann kveðst hafa veitt því athygli að viðskiptavinir, sem margir koma úr Vesturbæ Reykjavíkur og af Seltjarnarnesi, sýni mikinn áhuga á góðu úrvali af fersku grænmeti og ýmsum umhverfisvænum vörum. Þeir leggi sérstaka áherslu á heilbrigt mataræði og lífsstíl og við því verður brugðist með auknu úrvali af hollum og næringarríkum valkostum.
Ein af nýjungum í nýju Krónuversluninni verður aukin áhersla á tilbúna rétti. „Margir eru oft að flýta sér á daginn, eru kannski á leið heim úr vinnu og vilja grípa eitthvað í matinn sem er fljótlegt en einnig heilnæmt og gott. Við höfum því lagt mikla áherslu á að auka fjölbreytnina í tilbúnu réttunum hér á Grandanum. Mikið er spurt um þá og er þá helst leitað eftir fjölbreytni. Við þessu er okkur bæði ljúft og skylt að bregðast og viðskiptavinir geta búist við að geta valið úr ýmsu góðgæti til að taka með sér heim, til dæmis frá WokOn, Tokyo Sushi og kjúkling frá Rotisserie. Seinna á árinu opnum við síðan fleiri slíka staði sem verður gaman að segja frá þegar nær dregur.
Að auki er fjórðu afgreiðslulausn Krónunnar gefið aukið rými á Grandanum en þar er nú að finna afhendingarstöð Snjallverslunar þar sem viðskiptavinir geta verslað vörur á heimasíðu eða í appi Krónunnar og sótt pöntunina í verslun. „Ég tel að fólk muni kunna að meta það. Þetta verður allt önnur verslun,” segir Alexander sem var þotinn af stað til þess að líta eftir iðnaðarmönnum sem voru á fullri ferð að störfum í versluninni.