Framkvæmdir við Vetrargarðinn hafnar

Vetrargarðurinn í Breiðholti eins og hann leit út áður en ráðist var í framkvæmdir.

Framkvæmdir við Vetrargarð í Breiðholti eru hafnar. Skíðalyftan á staðnum hefur verið tekin niður á meðan framkvæmdum stendur. Svæðið verður mótað upp á nýtt og skíðaleiðum fjölgað úr einni í þrjár. Búist er við að hægt verði að setja aftur upp skíðalyftu sumarið 2025 samhliða annarri uppbyggingu á svæðinu tengt garðinum.

Vetrargarðurinn er hluti af hverfisskipulagi fyrir Neðra-Breiðholt, Seljahverfi og Efra-Breiðholt, sem tók formlega gildi vorið 2022. Vetrargarðurinn er hugsaður sem framtíðar fjölskyldugarður fyrir vetraríþróttir í Reykjavík en einnig hjólagarðs á sumrin. Áhersla er áfram á að þjónusta börn og fjölskyldur og að miða starfsemina við byrjendur. Stefnt er á að tryggja samfellda þjónustu og rekstur allan ársins hring. Áhersla er lögð á að stuðla að aukinni hreyfingu og útiveru meðal borgarbúa. Auk aðgengis fyrir almenning er ætlunin að bjóða leik- og grunnskólabörnum á skíði  á skólatíma. Skíðafélögin á höfuðborgarsvæðinu ætla að nýta sér garðinn til æfinga fyrir yngstu kynslóðina. Nú er verið að flytja efni á svæðið sem afmarkast af fyrirhuguðum Arnarnesvegi í austri, íbúðarhverfi við Jakasel í suðri, Breiðholtsbraut í norðri og athafnasvæði við Jafnasel í vestri.

You may also like...