Neikvæðar athugasemdir um Suðurfellsbyggð
Alls bárust 97 athugasemdir og umsagnir í Skipulagsgáttina um nýja íbúðabyggð við Suðurfell í Efra-Breiðholti og voru langflestar þeirra neikvæðar. Umsagnir eða athugasemdir bárust frá 87 einstaklingum og voru 83 mótfallnir nýrri byggð á svæðinu en fjórir meðmæltir. Umsagnir bárust frá 10 stofnunum og félagasamtökum.
Skipulagslýsingin sem var í auglýsingarferli tekur til þróunarsvæðis í suðausturhluta Fellahverfis. Aðkoma verði frá Suðurfelli. Í nýju deiliskipulagi verður gert ráð fyrir lágreistri íbúðabyggð, 1-2 hæða, með 50-75 íbúðum. Þeir einstaklingar sem lýsa andstöðu við íbúðabyggð á svæðinu nefna flestir að hér sé verið að fórna vinsælu útivistarsvæði í nálægð við hina miklu náttúruperlu Elliðaárdalinn. Segir meðal annars í athugasemdum að svæðið sem lagt er til að leggja undir húsnæði sé einstaklega fallegt. Fólk gangi þar daglega um. Börn á grunnskólaaldri leiki þar í skógunum og í fylgd fullorðinn niðri við ána. Því er ótrúleg skammsýni að fórna svona fallegu grænu svæði undir íbúðabyggð.